Mar 9, 2020

1964


Leikfélag Reykjavíkur verður atvinnuleikhús

Þegar Þjóðleikhúsið tók til starfa vonuðu menn að það yrði íslenskri leikritun mikil lyftistöng. Þær vonir rættust ekki á meðan Guðlaugur Rósinkranz sat við stjórnvölinn; það var ekki fyrr en Sveinn Einarsson hafði tekið við af honum að leikhúsið tók sér verulegt tak í þessum efnum. Þó að leikhúsið sýndi talsvert af nýjum íslenskum leikritum frá upphafi, olli þorri þeirra vonbrigðum. Flest voru eftir skáld sem höfðu þegar aflað sér viðurkenningar (Halldór Laxness, Davíð Stefánsson), önnur eftir skáldhneigða borgara (sr. Jakob Jónsson, sr. Sigurð Einarsson, Kristján Albertsson). Aðeins einn ungur höfundur, sem eitthvað kvað að, kom fram í Þjóðleikhúsinu á fyrsta áratug þess, Agnar Þórðarson, sem sendi einnig frá sér vinsæl útvarpsleikrit, ekki síst framhaldsleikrit. Árið 1964 sýndi leikhúsið einnig verk eftir Guðmund Steinsson, Forsetaefnið, en það var eina verk hans sem leikhúsið sá ástæðu til að flytja á þessum árum.

Þegar Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950 töldu margir í leikarahópnum sjálfsagt að leggja Leikfélag Reykjavíkur niður. L.R. hafði verið aðalleikhús Reykjavíkur og raunar þjóðarinnar allrar; nú var komið að Þjóðleikhúsinu að taka við því hlutverki. Til allrar hamingju voru dagar L.R. þó ekki taldir. Tveir af helstu leikurum félagsins, Brynjólfur Jóhannesson og Þorsteinn Ö. Stephensen, höfðu af persónlegum ástæðum ekki áhuga á því að fastráða sig til Þjóðleikhússins; báðir voru komnir í fastar stöður annars staðar, en gátu vel hugsað sér að láta L.R. njóta krafta sinna. Þá var margt af ungu fólki að koma frá leiklistarnámi erlendis og sá ekki fram á að geta allt haft fulla vinnu hjá Þjóðleikhúsinu. Framsýnum mönnum mátti einnig vera ljóst að það yrði til lengdar afar óhollt fyrir Þjóðleikhúsið sjálft og alla íslenska leikmenningu ef það hefði enga samkeppni.

L.R. var fyrstu árin eftir endurreisnina borið uppi af bandalagi Þorsteins og Brynjólfs við stóran hóp yngra fólks. Þar var fremstur í flokki Einar Pálsson sem var formaður L.R. frá 1950 til 1953. Þegar fyrsta veturinn sannaði L.R., svo að ekki varð um villst, að það átti fullan rétt á sér. Félagið bar gæfu til að fá hæfan leikstjóra til liðs við sig; það var Gunnar R. Hansen, sem hér hefur áður verið nefndur og þekkti vel til í íslensku leikhúsi frá fornu fari. Gunnar stýrði öllum sýningum vetrarins 1950-51 sem flestar tókust ágætlega, einkum bandaríski gamanleikurinn Elsku Rut, sem gekk við miklar vinsældir fram á næsta vetur, og Marmari Guðmundar Kamban. Það var skoðun sumra að Þjóðleikhúsið hefði sýnt minningu Guðmundar litla virðingu með því að taka ekki eitthvert af verkum hans til sýningar við opnunina þá um vorið og að L.R. hefði með þessu bætt úr því. Gunnar R. Hansen var aðalleikstjóri L.R. næstu ár og að sumra dómi sýndi hann mun meiri tilþrif en leikstjórar Þjóðleikhússins. Undir handarjaðri hans uxu upp ungir kraftar, að ekki sé sagt stjörnur (Gísli Halldórsson, Erna Sigurleifsdóttir, Helga Valtýsdóttir) og leikhópurinn blómstraði. En að sjálfsögðu var erfitt, og á stundum óvinnandi vegur, að skila fullgóðum árangri með svo óstöðugum og misjöfnum kröftum og þeim sem félagið hafði á að skipa. Ein frægasta sýning Gunnars var á kínverska leiknum Pi-pa-ki (1952) og leikgerð hans á Vesalingum Hugos (1953) var einnig mjög metnaðarfull.

Gríðarlegur aðstöðumunur var á milli Þjóðleikhússins og L.R. í fjárhagslegum efnum. L.R. gat vitaskuld ekki boðið leikurum upp á jafn góð kjör og Þjóðleikhúsið og því var ekki fátítt að burðarleikarar yfirgæfu L.R. eftir að hafa starfað með því í nokkur ár þegar tilboð barst frá Þjóðleikhúsinu; það má nefna Guðbjörgu Þorbjarnardóttur, Helgu Valtýsdóttur og Árna Tryggvason. Eitt sinn snerist taflið þó við, þegar einn af efnilegustu leikurum Þjóðleikhússins, Helgi Skúlason ákvað að halda niður í Iðnó árið 1960. En eftir því sem lengra leið sáu menn æ betur að L.R. yrði ekki rekið til frambúðar á þennan hátt.

Umtalsvert skref til að lagfæra aðstöðumuninn var stigið á árunum 1963-64. Árið 1963 voru gerðar róttækar breytingar á innri starfsháttum leikhússins, komið á fót sérstöku leikhúsráði, sem í átti sæti m.a. fulltrúi Reykjavíkurborgar, og stöðu leikhússtjóra. Var Sveinn Einarsson ráðinn í hana fyrstur manna. Einnig var ráðinn framkvæmdastjóri með leikhússtjóranum og gegndi Guðmundur Pálsson því starfi framan af. Árið 1964 gerði stórhækkað fjárframlag frá Reykjavíkurborg leikhúsinu kleift að fastráða hóp leikara auk nokkurra starfsmanna við sviðið. Það voru leikararnir Brynjólfur Jóhannesson, Gísli Halldórsson, Helga Bachmann, Helgi Skúlason, Guðrún Ásmundsdóttir, Kristín Anna Þórarinsdóttir og Sigríður Hagalín. Á næstu árum fjölgaði í hópnum, jafnframt því sem húsnæðisaðstaða leikhússins var bætt, ekki síst með kaupum á iðnaðarhúsnæði við Súðarvog þar sem leiktjaldaverkstæðið var til húsa allt þar til flutt var í Borgarleikhúsið árið 1989.

Sveinn Einarsson var leikhússtjóri til 1972. Stjórnarár hans voru góður tími hjá félaginu sem sótti fram á mörgum sviðum. Margar sýningar urðu mjög vinsælar og fengu einnig prýðisdóma. Leikfélagið sýndi betur en nokkru sinni fyrr að það var fullkomlega fært um að veita Þjóðleikhúsinu verðuga samkeppni. Félagið rak leiklistarskóla milli1959 og 1970 og komu úr honum ýmsir sem síðar gengu inn í leikhópinn. Voru leikarar úr skólanum m.a. uppistaðan í Litla leikfélaginu sem starfaði sjálfstætt, en þó í tengslum við L.R. á árunum 1968 til 1970; nú var skammt í að "hópvinna" yrði vígorð dagsins og Litla leikfélagið steig einna fyrstu skrefin í þá átt. Þá var Leikfélaginu mikill styrkur að ýmsum burðarleikurum af eldri kynslóð, sem höfðu farið til Þjóðleikhússins í upphafi, en sneru nú aftur á fornar slóðir; þar má nefna Regínu Þórðardóttur, Gest Pálsson, Harald Björnsson, Jón Aðils og Ingu Þórðardóttur.

Vigdís Finnbogadóttir tók við af Sveini Einarssyni sem leikhússtjóri og gegndi starfinu til 1980. Þá voru Þorsteinn Gunnarsson og Stefán Baldursson leikhússtjórar í sameiningu1980-1984 og Stefán Baldursson 1984-1987. Hallmar Sigurðsson var síðasti leikhússtjóri L.R. í Iðnó og gegndi starfinu til 1991.

Mynd: Aldarsaga, 268 (Starfsmenn L.R. árið 1968)

64lratvi.jpg
Til baka