Um safnið

stofnfuStofnfundur Samtaka um leikminjasafn í Iðnó 2001

Stofnun Leikminjasafns Íslands átti sér nokkurn aðdraganda. Það hefur lengi verið gamall draumur íslensks leikhúsfólks að koma upp safni um sögu leiklistarinnar. Á fyrri hluta 20. aldar voru það einkum þeir Lárus Sigurbjörnsson og Haraldur Björnsson, leikari og leikstjóri, sem ræddu um nauðsyn þess, en fengu lítinn hljómgrunn. Að frumkvæði Félags leikmynda- og búningahöfunda var í ársbyrjun árið 2001 kannaður grundvöllur fyrir stofnun samtaka um leikminjasafn og voru undirtektir það góðar að Samtök um leikminjasafn voru stofnuð 21. apríl 2001. Að stofnun samtakanna stóðu 27 félög og stofnanir og varð þarna einhver víðtækasta samstaða á menningarsviðinu sem um getur.

Með stofnun samtakanna komst veruleg hreyfing á áform um stofnun safns um leikminjar. Samtökin kusu sér stjórn og komu sér þá um vorið upp skrifstofu- og geymsluaðstöðu í ReykjavíkurAkademíunni. Í stjórninni voru fulltrúar allra félaga og stofnana sem aðild áttu að samtökunum, en sérstaka framkvæmdastjórn skipuðu Ólafur J. Engilbertsson, fomaður, Sveinn Einarsson, varaformaður, Björn G. Björnsson, gjaldkeri, Jón Viðar Jónsson, ritari og Jón Þórisson, meðstjórnandi. Stjórnin hóf þegar að vinna að söfnun og skrásetningu og efndi til viðburða í tengslum við merkisdaga íslenskrar leiklistarsögu sem Leikminjasafnið hefur svo haldið áfram. Í tilefni af 100 ára afmæli Halldórs Laxness settu samtökin upp sýningu um Laxness og leiklistina í Iðnó þar sem leikarar stóðu m.a. að maraþonupplestri á öllum leikverkum skáldsins. Samtökin gengu í norræn samtök leikminja- og leiklistarskjalasafna, Nordisk center for teaterdokumentasjon (NCTD), strax á fyrsta starfsári sínu og héldu ársþing NCTD í Iðnó haustið 2002.

Leikminjasafn Íslands var formlega stofnað þann 9. mars 2003 á 170. afmælisdegi Sigurðar Guðmundssonar málara. Sýningar safnsins eru nú tuttugu talsins og hafa sumar þeirra verið settar upp oftar en einusinni.

Fyrsti forstöðumaður Leikminjasafnsins

forstmJón Viðar Jónsson er fæddur í Reykjavík 7. júlí 1955. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1975 og fil. kand. prófi í leikhúsfræði, sagnfræði og heimspeki frá Stokkhólmsháskóla árið 1978. Hann gegndi starfi leiklistarstjóra Ríkisútvarps frá 1982 til 1991. Hann lauk fil.lic.prófi í leikhúsfræði frá Stokkhólmsháskóla árið 1992 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1996.

Jón Viðar hefur um langt árabil stundað margvísleg fræðistörf á sviði íslenskrar leiklistarsögu og leikbókmennta, auk þess sem leiklistargagnrýni hans vakti mikla athygli á sínum tíma. Doktorsritgerð hans fjallaði um starf Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu og Leikfélags Reykjavíkur á fyrstu áratugum þess, en upp úr henni samdi hann alþýðlega ævisögu Stefaníu, Leyndarmál frú Stefaníu (1997), sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá hefur hann gefið út heildarsöfn leikrita Jökuls Jakobssonar (1994) og Guðmundar Steinssonar (2003) og ritstýrt ritröðinni Safn til sögu íslenskrar leiklistar og leikbókmennta. Nýjasta verk hans er rit um skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar, Kaktusblómið og nóttin (2004).

Jón Viðar Jónsson var ráðinn forstöðumaður Leikminjasafns Íslands við stofnun þess árið 2003 og lét af störfum árið 2013.

Verndari Leikminjasafnsins

vigdisÁ stofnfundi Samtaka um leikminjasafn var farið fram á að frú Vigdís Finnbogadóttir yrði verndari Samtaka um leikminjasafn á og brást hún ljúflega við þeirri bón. Þegar Leikminjasafn Íslands var stofnað varð Vigsdís verndari þess.

Vigdís Finnbogadóttir er fædd 15. apríl 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1949 og nam frönsku og franskar bókmenntir við háskólann í Grenoble og Sorbonne-háskóla 1949-53 með leikbókmenntir sem sérsvið og svo leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1957-58, ennfremur frönsku, ensku og uppeldis- og sálarfræði við HÍ. Vigdís var blaðafulltrúi Þjóðleikhússins og ritstjóri leikskrár 1954-57 og 1961-64, einn af stofnendum tilraunaleikhússins Grímu 1962, kenndi franskar leikbókmenntir við HÍ 1972-80 og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó 1972-80. Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands í 16 ár, frá 1980 til 1996.

Merki Leikminjasafnsins

Merki safnsins er vangamynd af Sigurði Guðmundssyni málara (1833-1874) og er myndin sjálfsmynd hans. Hann var einn merkasti frumherji íslenskrar leiklistar á 19. öld og hefur Leikminjasafnið kappkostað að halda minningu hans á lofti. Fyrsta verk þess eftir stofnun þess árið 2003 var að setja upp sýningu um hann í heimabyggð hans í Skagafirði. Sýningin var einnig sett upp í Góðtemplarahúsinu í Hafnarfirði síðar sama ár.

Meira um Sigurð Guðmundsson málara

sigseni-600x0