Jan 16, 2020

Þjóðleikhúsið


Hugmyndin um íslenskt þjóðleikhús mun fyrst hafa verið orðuð um 1870 af Sigurði Guðmundssyni málara á fundi í Kveldfélaginu, leynilegu málfunda- og framfarafélagi reykvískra menntamanna. Það kom hins vegar í hlut lærisveins hans, Indriða Einarssonar, að vinna málinu brautargengi. Indriði ritaði ítarlegar greinar um það, í Skírni 1907 og Óðinn 1915, en hvorki gekk né rak fyrr en eftir 1920, þegar Jónas Jónsson frá Hriflu, formaður Framsóknarflokksins, fékk áhuga á málinu og tókst að lokum að fá lög um byggingu Þjóðleikhúss samþykkt á Alþingi vorið 1923 í bandalagi við þingmenn úr öðrum flokkum. Var þá ákveðið að skemmtanaskattur, sem hafði verið lögbundinn nokkru fyrr, skyldi renna í sérstakan sjóð til byggingar hússins.

Mikil andstaða var þó gegn þessum áformum innan þings og ítrekað reynt að ná peningunum í annað. Einnig urðu miklar deilur um staðarval og voru margir staðir til nefndir, s.s. lóðin undir Arnarhóli vestanverðum, reiturinn á milli Miðbæjarskólans og Lækjargötu, lóðin á milli Iðnó og Bárunnar (núverandi Ráðhúslóð), Skólavörðuholtið o.fl. Guðmundur Kamban lagði til að húsið yrði byggt á uppfyllingu í suðurhluta Tjarnarinnar sunnan við Tjarnarbrúna sem hefði þá verið tekin af. Þar taldi hann að þetta veglega hús myndi njóta sín best í bæjarmyndinni.

Framkvæmdir við húsið munu hafa hafist þegar árið 1928 og var þá grafið fyrir kjallara. Húsið sjálft var steypt upp og gert fokhelt á árunum 1930-31. Það var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Árið 1932 voru framkvæmdir stöðvaðar skv. ákvörðun Alþingis og lágu niðri í tólf ár. Leikfélag Reykjavíkur fékk þó aðstöðu til að mála leiktjöld í húsinu. Þegar landið var hernumið lagði setuliðið það undir sig og notaði sem birgðageymslu. Húsið var loks rýmt árið 1944 og var þá að nýju tekið til við bygginguna sem var fullbúin árið 1950.

Þjóðleikhúsið var á þeim tíma langfullkomnasta leikhús sem reist hafði verið hér á landi. Stærð þess er 1589 ferm. að flatarmáli og 33.770 ferm að rúmmáli. Salurinn rúmaði upphaflega 661 manns í sæti og 12 í hliðarstúkur. Byggingarkostnaður nam á þágildandi verðlagi kr. 21. 195.000 kr. Sviðsopið er 10, 7 m á breidd og 7,5 m á hæð. Dýpt sviðsins frá teppi (fortjaldi) aftur í vegg er 15 m og hæð upp í turninn 19, 5 m. Á sviðinu er vélknúið hringsvið, 13,5 m í þvermál, og í turninum sviðsráakerfi sem hægt er að láta síga upp og niður eftir þörfum. Þetta kerfi er notað til að flytja sviðsmynd, leikmuni eða jafnvel leikara, eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

Byggingarstíll Þjóðleikhússins telst afbrigði við ný-gotneskan stíl, en sjálfur nefndi Guðjón Samúelsson hann "hamrastíl". Að utan er húsið skreytt með eftirlíkingum af stuðlabergi og muldum, íslenskum bergtegundum í múrhúðinni. Eftirlíkingar stuðlabergsmyndana setja sérstakan svip á framhliðina og framhlið leiksviðsturnsins, og kallast á við stuðlabergsmyndir í lofti áhorfendasalarins. Skiptar skoðanir voru framan af á yfirbragði hússins; sumum þótti það of þunglamalegt, en öðrum fannst það með viðfelldnum, þjóðlegum blæ. Í blaði bandaríska hersins, Hvíta fálkanum, birtist t.d. grein 14. október 1944 þar sem húsameistara er hælt fyrir að hafa skapað stórhýsi í samræmi við eðli og yfirbragð landsins. Hafa ýmsir viljað lesa í þennan arkitektúr vísan til sagna um álfaborgirnar í klettum landsins; hamraborgir sem séu dimmar og drungalegar hið ytra, en innra fullar af birtu og veislugleði. Innan veggja eru veggskreytingar eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal og Ríkharð Jónsson. Í Kristalssal svonefndum og á göngum eru brjóstmyndir og málverk af mörgum helstu brautryðjendum leiklistarinnar og listamönnum hússins.

Þjóðleikhúsið var opnað með miklum hátíðarbrag dagana 20.- 22. apríl 1950 og voru þá frumsýnd þrjú leikrit: Nýársnótt Indriða Einarssonar, sem var vígslusýningin á sumardaginn fyrsta, Fjalla-Eyvindur Jóhanns Sigurjónssonar og Íslandsklukka Halldórs Laxness í leikgerð höfundar og Lárusar Pálssonar. Þó að L.R. héldi starfi sínu áfram eftir að hið nýja leikhús var opnað, fannst mörgum það alls ekki sjálfsagt mál. Bygging Þjóðleikhússins var frá upphafi hugsuð sem lausn á húsnæðisvanda Leikfélagsins og munu fáir hafa séð fyrir að sá vandi yrði enn óleystur eftir tilkomu Þjóðleikhússins svo að innan fárra ára væri hafin ný leikhúsbarátta, að því sinni fyrir Borgarleikhúsi.

Þjóðleikhúsið hafði upphaflega aðeins eitt svið, stóra sviðið, en þegar komið var fram á sjöunda áratuginn fundu menn að ekki var nóg fyrir slíka stofnun að hafa aðeins eitt stórt svið. Sambærileg leikhús erlendis voru þá flest komin með a.m.k. tvö svið, eitt stórt og annað minna fyrir fámennari og einfaldari verk. Þá fannst mönnum stóra sviðið veita of lítið svigrúm til tilraunastarfsemi; leikhúsið væri of hikandi við að taka áhættu í verkefnavali innan í hinum virðulega ramma. Þegar Gríma tók til starfa árið 1961 og aukinn þróttur færðist í starf Leikfélags Reykjavíkur skömmu síðar, fengu þessar raddir aukinn hljómgrunn og haustið 1964 brást leikhúsið við þeim með opnun lítils sviðs í Lindarbæ hinu megin við Lindargötu. Þar voru sýningar með hléum fram á haust 1973, en þá fékk Nemendaleikhús Leiklistarskólans þar inni og var þar næsta aldarfjórðunginn. Árið 1974 var opnað lítið svið í veitingasalnum í kjallara Þjóðleikhússins og var það rekið í rúman áratug. Eftir það var ekki leikið í leikhúskjallaranum fyrr en Listaklúbbur Þjóðleikhússins hóf starfsemi þar árið 1994, en hann starfaði óslitið til 2003.

Um áramótin 1986/87 var opnað lítið svið í kjallara íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar. Þangað hafði leikhúsið þá fyrir nokkru flutt skrifstofur sínar og æfingaaðstöðu. Í þeim sal rúmast um 90-100 áhorfendur eftir því hvernig sætaskipan er, en hún hefur verið allbreytileg. Þegar þetta er ritað sumarið 2005 hefur verið ákveðið að leggja sviðið niður í kjallaranum, en breyta gamla leikfimissalnum á fyrstu hæð í leikhús. Árið 1992 var opnað nýtt svið á Smíðaverkstæði hússins (gengið inn frá Lindargötu). Öll leiktjaldagerð hafði þá verið flutt úr húsinu og við það losnaði rými sem mátti nýta. Eins og á Litla sviðinu er sætaskipan og tilhögun sviðs á Smíðaverkstæðinu sveigjanleg, en áhorfendafjöldi hefur oftast verið á bilinu 130-160 manns.

Viðhaldi Þjóðleikhússbyggingarinnar hefur löngum verið mjög ábótavant. Árið 1989 var hins vegar ákveðið að ráðast í viðamiklar breytingar á áhorfendasalnum, þó að mörgum þætti meiri nauðsyn að lagfæra húsið að utan eða gera endurbætur á aðstöðu baksviðs. Þegar hugmyndir um endurgerð voru kynntar mættu þær mikilli andstöðu, en áttu sér einnig marga fylgismenn innan leikhússins sem töldu salinn alltaf hafa verið gallaðan; var þá einkum rætt um að sjónlínur inn á leiksviðið væru ekki nógu góðar úr sumum ytri sætanna. Breytingarnar fólust aðallega í því að lyft var undir áhorfendasætin svo að halli gólfsins varð meiri, efri og neðri svalir brotnar niður og einar svalir settar í staðinn. Við þetta fækkaði sætum um rúmlega 160 og eru nú 499, þar af eru 45 sem hægt er að fjarlægja fremst úr salnum, ef menn vilja stækka sviðið (gólfinu er þá lyft upp í sviðshæð) eða þegar þörf er á hljómsveitargryfju (gólfið látið síga niður). Þó er þess kostur að búa til minni gryfju og þarf þá ekki að fórna öllum þessum sætum. Augljóst er að þessi mikla sætafækkun hefur ekki styrkt rekstrargrundvöll leikhússins, auk þess sem ýmsir sáu mjög eftir neðri svölunum þar sem þeir töldu að hljómburður hefði verið hvað bestur í húsinu.

Ekkert hefur verið unnið að viðhaldi eða endurbótum á Þjóðleikhúsbyggingunni eftir að þessar breytingar voru gerðar og augljóslega löngu orðið tímabært að gera stórátak í því efni. Ljótar skellur eru til lítils sóma á slíku húsi, auk þess sem hrun úr veggjum getur verið beinlínis hættulegt fyrir vegfarendur. Sjálft er leikhúsið á mjög margan hátt á eftir tímanum og fyrr en síðar óhjákvæmilegt að laga það betur að þörfum og kröfum samtímans.

Heim: Jónas Jónsson frá Hriflu, Þjóðleikhúsið - þættir úr byggingarsögu (Reykjavík 1953), Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, 2. bindi (Reykjavík 1987), Vígsla Þjóðleikhússins 20. apríl 1950 - Orð og myndir /rit gefið út í tilefni af opnun Þjóðleikhússins/

lhthjodl.jpg
Til baka