Jan 15, 2020

Iðnó


Iðnó var reist af Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur á uppfyllingu út í Tjörnina árið 1896 og tekið í notkun árið eftir. Fóru fyrstu leiksýningar þar fram í febrúar 1897 og var það Thorvaldsens-félagið sem stóð fyrir þeim. Ritstjóri Ísafoldar var hrifinn eftir fyrstu heimsókn á leiksýningu í húsinu: "Húsnæðið er miklu betra til slíkra hluta en kostur hefir hjer verið á áður, einkum leiksviðið langt um stærra og fullkomnara; anddyri og aðrar vistarverur í húsinu einnig miklu rýmri og þægilegri. Og þar á ofan ljeku fleiri ýmist vel eða sæmilega heldur en ella gerist hjer af viðvaningum, bæði valixt til í þetta sinn færara fólk yfirleitt og undirbúningur rækilegri."

Leikfélag Reykjavíkur hóf starfsemi sína í Iðnó með frumsýningu á tveimur dönskum gamanleikjum 18. desember 1897. Hafði félagið aðsetur í húsinu allt til ársins 1989, er það flutti í Borgarleikhúsið.

Engar frumteikningar eru til af húsinu, en það mun hafa verið teiknað og byggt af Einari Pálssyni trésmíðameistara. Einar sá einnig um byggingu Iðnskólans og Búnaðarfélagshússins við Lækjargötu. Eru þessi hús öll byggð í ný-klassískum stíl og meðal stærstu og fegurstu timburhúsa sem íslenskir trésmiðir reistu undir lok 19. aldar.

Sem bygging skiptist Iðnó í þrennt: miðhús, sem snýr mæni í austur og vestur, og við sitt hvorn enda þess tvö hús sem snúa þvert á miðhúsið og göflum í norður-suður. Húsið er þrílyft grindarhús, járnklætt, með járnþaki, 28 m á lengd (austur-vestur), 13 m á breidd. Sviðið er í austurhlutanum, undir því kjallari með aðstöðu fyrir leikendur, áhorfendasalurinn í miðbyggingunni. Hann er 12 m á lengd og 8 m á breidd og tók upphaflega 256 manns í sæti. Inngangur var í fyrstu á neðri hæð í vesturhúsinu (sama stað og nú er), en veitingasalur á þeirri efri, þar sem hann hefur ætíð verið og er enn. Leiksviðið er 10 m breitt, 6 m djúpt og 6 m hátt og sviðsgólfið með nokkrum halla. Sviðið er kassasvið, allt innan sviðsramma, og sviðsopið 3, 5 m hátt og 6 m breitt.

Salurinn rúmaði á fyrstu árunum 256 manns í sæti, en tveir fremstu bekkirnir voru ætlaðir börnum og nefndir barna-bekkir. Auk þess voru seld stæði, svonefnd "standandi pláss" aftan við salinn og meðfram öftustu sætaröðunum, og gat þar orðið býsna mikil þröng á þingi.

Á þessum tíma þótti sjálfsagt að prýða leikhús með skrautlega máluðum fortjöldum og hér lá beint við að sækja fyrirmyndina til hins fræga fortjalds Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Það sýnir fljúgandi kerúba lyfta rauðu fortjaldi og getur þá að líta útsýn til Akropolishæðarinnar í Aþenu. Því miður er engin mynd til af þessu fortjaldi sem var málað af danska málaranum Nikolaj S. Bertelsen, en Eufemía Waage, dóttir Indriða Einarssonar, fer um það háðuglegum orðum: "Enginn fékkst um það, þó að Akrópólis væri miklu hærri og uppmjórri en hún er í raun og veru, því að allir höfðu nóg að gera að býsnast yfir englunum, enda voru það hinar fáránlegustu skepnur, sem hugsast getur. Var sama hvar á þá var litið. Vaxtarlagið og andlitsfallið var allt á eina bókina lært. Mest var borið í bakhlutann og augun lágu utan á." Rétt er að taka fram að Bertelsen var ýmislegt betur til lista lagt en mála fortjöld, því að hann sá um alla skrautmálningu hússins og málaði loftið svo fagurlega að eldra fólki var það minnisstætt. Ekki mun þetta listaverk hans heldur hafa verið uppi lengi og var því fljótlega skipt út fyrir annað og fegurra sem vinur leikhússins gaf því. Það mun hafa sýnt einhvers konar skógarlandslag, en ekki er heldur til mynd af því svo vitað sé. Máluð fortjöld voru fyrir sviðinu fram á fjórða áratug aldarinnar, en tæpast mikið lengur; síðast var fjörumynd með brimgarði og klettum sem Ólafur Túbals hafði að sögn málað. Þessi fortjöld voru alltaf dregin upp, en síðar kom hefðbundið fortjald rautt að lit sem var dregið til hliða.

Því fór fjarri að Iðnó hýsti einungis starf Leikfélags Reykjavíkur. Húsið var í áratugi eitt helsta samkomuhús höfuðstaðarins; þar voru haldnir fyrirlestrar, söngskemmtanir, dansleikir, veislur og samkomur af öllu tagi. Þar var t.d. fagnað heimastjórn 1. febrúar 1904 og slegið upp veislum þegar kóngurinn kom í heimsókn. Árið 1903 hófust þar sýningar á kvikmyndum, "lifandi myndum", þó að ekki yrði þarna bíórekstur til frambúðar. Þá var rekinn húsmæðraskóli fyrstu tvo áratugina á efri hæð. Sambýlið við leiklistina gat á stundum verið erfitt; t.d. var eitt sinn kvartað undan því í leikdómi að taurulla hefði farið af stað með miklum látum beint fyrir ofan áhorfendasalinn á einu dramatískasta andartaki leiksins.

Iðnaðarmannafélagið átti húsið til 1918 og seldi það þá dönskum bakarameistara, Frantz Håkansson. Rak hann þar veitingasölu til 1929, er Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna keypti húsið. Árið 1940 seldi Fulltrúaráðið húsið aftur hlutafélaginu Alþýðuhúsi Reykjavíkur og greinir Páll Líndal svo frá tildrögum sölunnar í Reykjavíkurbók sinni: "Tilefni þessarar sölu var það að miklar ýfingar höfðu þá verið í Alþýðuflokknum sem leiddu af sér klofning hans. Alþýðuflokksmenn, sem fram að þessu höfðu haft tögl og hagldir í Fulltrúaráðinu, töldu rétt að koma í veg fyrir að þessi eign, sem og fleiri, lenti í höndum pólitískra andstæðinga. Mun ekkert leyndarmál að salan byggðist á þessu viðhorfi. Af þessu risu mikil málaferli sem lyktaði með dómi Hæstaréttar á þá leið að salan skyldi standa óhögguð." Þó að Páll segi það ekki berum orðum lágu átök jafnaðarmanna og kommúnista að baki þessum slag um húsið sem lyktaði með fullum sigri krata. Húsið var síðan í eigu margra aðila sem flestir tengdust Alþýðuflokknum með einhverjum hætti fram á tíunda tug síðustu aldar. Hélt Alþýðuflokkurinn þar lengi fundi sína og veislur, og hafði starfsmaður hans umsjón með húsinu alla tíð á meðan eignarhaldið var með þessum hætti.

Eftir að Haakanson eignaðist húsið þrengdist mjög að starfsemi L.R. Þó hafði húsið að hluta verið byggt fyrir peninga leiklistarinnar, þ.e. hinn svonefnda Kúlissusjóð sem varð til á síðari hluta 19. aldar og var alltaf ætlað að renna til byggingar leikhúss. Þó að peningaeign Kúlissusjóðs, um 1500 kr., væri ekki mikil í hlutfalli við heildarbyggingarkostnað, ca. 29.000 kr., voru þessir peningar eyrnamerktir leiklistinni og hefðu því átt að tryggja Leikfélaginu a.m.k. lágmarks forgang að húsinu. Þann forgang hafði félagið haft á meðan húsið var í eigu iðnaðarmanna, en Haakanson taldi sig greinilega ekkert vandabundinn L.R. fremur en öðrum aðilum sem vildu leigja húsið. Það var að sjálfsögðu hans hagur að húsið væri í sem mestri útleigu og á næstu árum og áratugum fengu margir aðrir þar inni með leiksýningar: Reykjavíkurannáll sýndi þar sex vinsælar revíur á árunum 1922-1930, á fjórða áratugnum voru þar fjölsóttar óperettusýningar og á fimmta áratugnum héldu revíusýningar áfram allt fram undir 1950. Það var í rauninni ekki fyrr en komið var fram á sjöunda og áttunda áratuginn að slíkri hliðarstarfsemi var að mestu úthýst; þó voru dansleikir haldnir þar alveg fram um 1970. En félagið var alltaf leigjandi í þessu húsi, sem í vitund alls almennings var þó fyrst og fremst þess hús, og voru Leikfélagsmenn að sögn fljótir að finna fyrir því, ef leigusalanum mislíkaði eitthvað í samskiptum við leikhúsfólkið.

Miklar breytingar hafa orðið á innri gerð hússins í tímans rás, þó að hlutföll milli sviðs og salar hafi haldist óbreytt. Áhorfendasvalir, sem rúmuðu 34 sæti, voru settar í aftasta hlutann árið 1923 og var þar gólfábreiða og fjaðrastólar sem þóttu mun þægilegri en hinir löngu trébekkir. Árið 1930 var húsið svo tekið rækilega í gegn og voru það tveir af yngstu og færustu arkitektum landsins, Gunnlaugur Halldórsson og Einar Sveinsson, sem voru fengnir til að annast þær breytingar. Steinsteypt viðbygging reist sunnan við húsið, Tjarnarmegin; þar var fatageymsla áhorfenda og jafnframt tvennar inngöngudyr í salinn austast og vestast. Opnað var úr salnum aftur í vesturhlutann, þar sem gestir gátu keypt sér hressingu. Hinar skrautmáluðu þiljur, sem höfðu frá upphafi prýtt veggi áhorfendasalarins, voru huldar á bak við einfalda málaða klæðingu. Tískan var nú orðin önnur; nú tignuðu menn hreina, einlita fleti og beinar línur í anda funksjónalismans, vildu ekki líta við hinu gamla flúri. Árið 1934 var svo allt rifið innan úr sviðskjallaranum, hann dýpkaður og sett í hann vatnsþétt steinsteypugólf. Þá voru búin til sjö lítil herbergi fyrir leikendur, en í miðjum kjallaranum var almennt rými, eins konar almenningur. Árið 1962 voru upphækkanir settar undir áhorfendabekki fyrir aftan miðjan sal sem gerðu húsið að sjálfsögðu mun betra leikhús. Skömmu síðar var bætt við steinbygginguna sunnan við húsið miðasölu og skrifstofu og tjaldageymslu þar austur af.

Þó að Iðnó vekti mikla hrifningu, þegar húsið var nýtt, leið ekki á löngu áður en annmarkar hússins komu í ljós. Rottugangur var í búningsklefum leikara undir sviðinu og í stórstreymi urðu þar stundum mikil flóð. Loftleysi var í áhorfendasalnum og bekkirnir þóttu afar óþægilegir, "harðir sem hraugrýti" sagði í einu blaðanna og stæðu jafnvel svo þétt að "blygðunarsemi manna væri ofboðið" þegar þeir væru að troðast milli þeirra til sæta sinna. Þegar Nýja bíó var opnað árið 1918 með þægilegum stólum og glæsilegum forsal sáu menn enn betur en fyrr hversu ömurlegur allur þessi aðbúnaður var. Það varð með ýmsu öðru til að ýta undir áform um að reisa Þjóðleikhúsið.

Sviðið í Iðnó var alltaf aðalsvið L.R. Á síðari árum, einkum eftir að L.R. var orðið atvinnuleikhús, fannst mönnum þó orðið ærið þröngt um sig í gamla húsinu og var þá iðulega leitað annað. Á síðari hluta sjöunda áratugarins fékk félagið inni í Tjarnarbíói, þar sem Gríma var einnig með sýningar, en það missti þá aðstöðu eftir nokkur ár. Þá fóru lengi fram miðnætursýningar í Austurbæjarbíói, þar sem einnig voru haldnar skemmtanir til styrktar borgarleikhúsbyggingunni. Á árunum 1987 og 1988 voru tvær sýningar settar á svið í gömlu geymsluhúsi við Grandaveg; nú var krafa dagsins sveigjanlegt leikrými eftir hugmyndum leikstjórans hverju sinni. Gamla húsið var þá löngu hætt að rúma alla starfsemi leikhússins. Skrifstofur leikhússtjóra voru síðast komnar í gamla Iðnskólahúsið við Lækjargötu ásamt saumastofu, sviðsmannaherbergi og æfingasal ("Kálfinum"), búningageymslurnar í kjallara Þórshamars og víðar, leiktjaldaverkstæðið í Súðarvog. Þegar Leikfélag Reykjarvíkur fluttist Borgarleikhúsið árið 1989 var allt óráðið um framtíð Iðnós. Húsið var friðað í A flokki árið 1991 en framtíð þess var að öðru leyti óviss. Alþýðuleikhúsið, sem var jafnan í húsnæðishraki, setti þar upp tvær leiksýningar, skömmu áður en það leið undir lok. Um tíma virtist helst útlit fyrir að húsið myndi drabbast niður fyrir augum borgarbúa og sú spurning varð áleitin hvort þess myndu að lokum bíða sömu örlög og Fjalakattarins og Gúttós, tveggja af helstu merkishúsum íslenskrar leiksögu sem þá voru horfin veg allrar veraldar.

Til allrar hamingju fór svo ekki. Á sérstökum hátíðarfundi við vígslu ráðhússins 1992 samþykkti borgarstjórn að kaupa Iðnó í félagi við nokkra aðila og gera húsið upp. Hófst hönnunarvinna árið eftir og var ákveðið að færa húsið sem næst upprunalegu horfi. Viðbyggingarnar frá 1930 og sjöunda áratugnum voru fjarlægðar og í staðinn settur glerskáli með dökku gleri sem vakti svo hörð viðbrögð að hann var brátt fjarlægður. Endurbyggingin tók nokkur ár og var þá ákveðið að þarna skyldi bæði rekin veitingasala og leikstarfsemi. Hefur sú tilhögun verið í gildi frá því í maí 1998 þegar Leikfélag Íslands og Iðnó við Tjörnina tóku við lyklavöldum. Eftir að Leikfélag Íslands komst í þrot með leikhúsrekstur sinn árið 2000 hefur veitingasala verið í húsinu en þó eru þar enn einfaldar leiksýningar, enda aðstaða leikara undir sviðinu nú loks orðin boðleg.

Heim.: Gísli Jónsson, Saga Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík (Reykjavík 1967), Guðjón Friðriksson, Iðnó við Tjörnina - Hundrað ára saga (Rvík 1997), Haraldur Björnsson, Íslenzk leiklist. IV. Iðnó. Leikhúsmál okt. - jan. 1942, Hjörleifur Stefánsson (ritstj.), Í Kvosinni (Reykjavík 1987), Leikfélag Reykjavíkur 50 ára, Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, 3. bindi (Reykjavík 1988), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II (Reykjavík 1996), Eggert Þór Bernharðsson og Þórunn Valdimarsdóttir, Leikfélag Reykjavíkur - Aldarsaga (Reykjavík 1997), www. idno.is

lhidno1.jpg
Til baka