Mar 9, 2020

Þjóðernisáhrif og natúralismi í hérlendri leikmyndlist


Þjóðernisblandinn natúralismi var lengi viðloðandi viðhorf til leikmyndagerðar og er jafnvel enn. Andóf gegn natúralisma í leiklist hófst þegar um aldamótin 1900, þó það kæmi ekki fram hér að marki fyrr en um 1960. Meyerhold, hinn rússneski frumkvöðull módernisma í leiklist, skilgreindi natúralisma í leikhúsinu þannig að í sögulegum verkum væri leitast við að umbreyta sviðinu í safn; gera eftirmyndir stílbragða sögunnar. Hann taldi forsendur natúralismans vera andsnúnar lifandi list.

Jólaleikrit Þjóðleikhússins árið 1952 var Skugga-Sveinn í leikstjórn Haraldar Björnssonar með leikmynd Magnúsar Pálssonar, sem fékk góða dóma í Tímanum. Sveinn Bergsveinsson skrifaði hinsvegar leikdóm í Frjálsa þjóð, sem var talsvert annars eðlis:

"...stofurnar, bæði í Dal og á sýslumannssetrinu [voru] með ágætu handbragði, enda hefur Magnús sýnt, að hann kann margt vel. En útisviðin voru hreinasta hörmung. Hreinasta hörmung. Hvar hefur Magnús t.d. séð slíka hamrakletta á Íslandi. Þeir voru allir hlaðnir úr hnullungum. Átti Skugga-Sveinn kannske að hafa hróflað þeim upp sér til dundurs? Eða er þetta abstrakt-list í leiktjaldagerð? Þetta átti leikstjórinn ekki að viðurkenna. Eða þá grasafjallið, drottinn minn dýri. Grasafólkið leið yfir sviðið hálfbogið í leit að grösum í skrúðgrænum og litríkum blómabrekkunum. Þetta hefði þótt undarlegt grasaland á Ströndum. Þá átti jökullinn líka hálfbágt með sig að velta ekki út af. Hann minnti nánast á Eiffelturninn í París. Fjarlægðin var sem sé allt of lítil úr því að sýna átti jökulinn í heild. Eða þá heiðarbrúnin. Kannske Magnús skilji ekki orðið. Ég skil þó varla í öðru en hann hafi einhvern tíma skroppið austur á Kambabrún. Og þar gefur annað á að líta. Sem sagt, af heiðarbrún verður að sjást niður á láglendið. Svo geta risið upp fjöll í baksýn. Ef til vill hefur dalurinn átt að vera áhorfendasalurinn. En hafi maður aðeins átt að hugsa sér hann, því þá ekki að hugsa sér allt hitt líka? Það sparar."

Þarna birtist skýrt viðhorf gamla raunsæisskólans um "rétt" landslag. Annað var bara ekki tekið gilt, fremur en um aldamótin 1900. En Magnús Pálsson átti eftir að ganga enn lengra næstu árin í að brjóta upp hinar mosagrónu hefðir leiktjaldagerðarinnar. Fjalla-Eyvindur hjá LR í ársbyrjun 1967 í leikstjórn Gísla Halldórssonar og með natúralískri leikmynd Steinþórs Sigurðssonar fékk hinsvegar frábæra dóma gagnrýnenda:

"[F]rábærar leikmyndir Steinþórs Sigurðssonar - að mínu áliti þær beztu, sem gerðar hafa verið við þjóðlegt leikrit að undanförnu." Og:
"Tíðindum sæta... leiktjöld Steinþórs Sigurðssonar, sem eru einstakt undur að [a]llri gerð, lit og lögun. Þar ber hæst sviðsmynd annars þáttar sem yfirgengur allan natúralisma: þegar tjaldið fer frá opnast manni virkileg útsýn yfir íslenskt landslag að hausti. Steinþór Sigurðsson hefur áður vakið athygli með leiktjöldum sínum. En eru því virkilega engin takmörk sett, sem hann getur, og gerir?"

Í blaðaviðtali sagðist Steinþór hafa farið upp á öræfi ásamt fleirum úr Leikfélaginu áður en hann gerði leikmyndina og fundist það ávinningur: "...í 3. þætti notuðum við... beinlínis eina mynd þaðan - hún var sem sagt engin lygi." Þarna birtist natúralísk afstaða til leikmyndagerðar, en Steinþór segir um sína afstöðu almennt: "Ég er sjálfur sveigjanlegur í stíl. Mér finnst að höfundar eigi að hafa sitt að segja með útfærsluna, öfugt við marga kollega mína. Mér finnst að oft geti leikmynd drekkt leik. Ég hef oft verið realistískur. Það ræðst af leikstjórum og verkefnum. Sé miðað út það sem ég hef gert má greina öll möguleg tilbrigði." Leikmynd Gunnars R. Bjarnasonar við Mörð Valgarðsson eftir Jóhann Sigurjónsson 1970 olli einnig sterkum viðbrögðum. Freymóður Jóhannsson skrifaði bréf í Morgunblaðið og sagði m.a. að "ferlegu falsi" hafi verið beitt við hönnun leikmyndarinnar og að ekki væri að furða þó "ýmsir hefðu svitnað af blygðun." Ennfremur: "Æskilegt hefði vissulega verið að geta fundið til þess að maður væri staddur hér á landi, - hinu sumarfagra Suðurlandi, en ekki t.d. á tunglinu eða eyðimörk undirheima." Freymóður gengur svo langt að draga þá ályktun af sviðssetningunni á Merði Valgarðssyni, sem hann segir að hafi upprunalega heitið Lygarinn, "að hið íslenska hljóti brátt að þurrkast allsstaðar út í öllum listgreinum, - ekki aðeins í myndlist, tónlist, bókmenntum, heldur einnig leiklist." Ennfremur segir Freymóður: "[E]f þessi 50 ár væru ekki liðin [frá láti skáldsins], hefði ég kært vegna Jóhanns og listaverks hans."

mordurGunnar R. Bjarnason, Mörður Valgarðsson (Þjóðleikhúsið 1970)

Fleiri skrifuðu gegn útfærslu Gunnars og var megininntakið að leikmyndin væri ekki nógu þjóðleg. Halldór Þorsteinsson, leikgagnrýnandi Tímans, segir m.a. að Mörður Valgarðsson "...virðist í öllum sannleika sagt vera miklu heldur saminn fyrir stóran leikvang undir beru lofti heldur en lítið leiksvið innan þröngra veggja." Sigurður A. Magnússon á Alþýðublaðinu var hinsvegar jákvæður í garð leikmyndar og tónlistar í sýningunni: "Athyglisverðustu þættir sýningarinnar voru tvímælalaust leikmyndir og búningar Gunnars R. Bjarnasonar og tónlist Leifs Þórarinssonar."

Sjá nánar BA-ritgerð höfundar í sagnfræði:
Leikmyndlist á Íslandi 1950-2000.

Ólafur J. Engilbertsson leikmyndahöfundur

olafurje

mordur.jpg
Til baka