Skólahúsið, sem enn stendur austan Lækjargötunnar, var reist árið 1846 og hefur hýst starfsemi skólans síðan. Á 19. öld var opinbert heiti hans Hinn lærði skóli Reykjavíkur, en því var breytt í Menntaskólinn í Reykjavík í tengslum við ýmsar skipulagsbreytingar eftir aldamót.
Eftir að skólapiltar voru aftur komnir á mölina voru þeir fljótir að taka upp þann þráð sem fyrst var spunninn í Hólavallaskóla. Sjónleikahald í skólanum var þó jafnan nokkuð stopult. Fyrst var leikið þar á árunum fyrir 1850, en í kjölfar pereatsins fræga árið 1850, þegar piltar afhrópuðu Sveinbjörn Egilsson rektor, tóku skólayfirvöld fyrir allt leikstúss í mörg ár. Það var ekki fyrr en um miðjan sjöunda áratuginn að leikstarfið lifnaði við og augljóst að það var að miklu leyti fyrir áhrif frá Sigurði Guðmundssyni málara og leiksýningum hans. Á þessum tíma voru í skólanum ýmis skáldhneigð ungmenni sem sum urðu síðar þjóðkunn skáld, s.s. Kristján Jónsson Fjallaskáld, Valdimar Briem og Jón Ólafsson, og sömdu þeir allir leiki sem fluttir voru í skólanum.
Jafnan var leikið á svonefndu Langalofti, svefnlofti pilta á annarri hæð (sjá nánar myndina). Loftið var vestanmegin í húsinu, í stofunni sem var næst fyrir sunnan Salinn svonefnda sem enn er í svipuðu horfi og í upphafi. Hefur Salurinn trúlega þótt of virðuleg umgerð fyrir leikaraskapinn, en þar fóru fundir Alþingis fram annað hvert sumar þangað til Alþingishúsið reis árið 1880 og þar voru allar meiri háttar samkomur skólans; t.d. söfnuðust piltar og kennarar þar saman til morgunbæna og söngs á morgni hverjum. Þegar leið nær aldarlokum og Reykjavíkurbær eignaðist samkomuhús með leiksviði fluttu piltar sýningar sínar þangað, enda var auðvitað neyðarúrræði að leika í skólahúsinu.
Langfrægasta sýning í sögu skólans var frumsýningin á Nýársnótt Indriða Einarssonar árið 1871. Hún vakti mikla athygli og markaði í raun upphafið að leikritagerð Indriða. Segir hann afar skemmtilega frá frumsýningunni í endurminningum sínum Sjeð og lifað og bregður upp um leið mynd af því hvernig var að leika á Langalofti Reykjavíkurskóla.
Heim.: Heimir Þorleifsson, Saga Reykjavíkurskóla (Reykjavík 1975-1982), Hjörleifur Stefánsson (ritstj.), Í Kvosinni (Reykjavík 1987) Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, III. bindi (Reykjavík 1988), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I (Reykjavík 1991)