Ein þeirra jaðargreina í listum sem gjarnan hefur verið ýtt til hliðar í listrýni fjölmiðlanna er leikmyndlistin. Magnús Pálsson segir um gagnrýni á leikmyndlist á sjötta og sjöunda áratugnum:
"Eins og margt annað í leikhúsunum á þessum tíma var gagnrýni frekar frumstæð. Þarna voru sem gagnrýnendur oftast greinargóðir gáfumenn, þegar best lét jafnvel skáld og snillingar. En þeir höfðu oftast takmarkaða yfirsýn yfir hræringar í leiklist og einkum þó í myndlist eða leikmyndlist. Það sem þeir skrifuðu um leikmyndir var því oft á tíðum afar varasamt."
Messíana Tómasdóttir er einn margra leikmyndahöfunda sem hafa sinnt jöfnum höndum leikmyndlist og "frjálsri" myndlist. Hún segir: "Sárasjaldan eru leikmynd og búningum gerð skil í leikdómum... Því fer fjarri að gagnrýnendur geti á nokkurn hátt leiðbeint almenningi að sjá hvað er gott og hvað slæmt ef þeir bera ekki sjálfir skynbragð á frumatriði leiksýningar, ef þeir vita ekki hvernig leiksýning verður til."
Fram til þessa hefur gjarnan verið rætt um leikmynda- eða leiktjaldagerð, en breytt viðhorf til greinarinnar kalla e.t.v. á nýja skilgreiningu, enda hafa leikmyndahöfundar í síauknum mæli stundað listaháskólanám og sinnt margvíslegri listsköpun. Gunnar R. Bjarnason, leikmyndahöfundur, notaði hugtakið leikmyndlist í viðtali árið 1979. Magnús Pálsson segir um skilgreininguna leikmyndlist: "Ég býst við að happadrýgra væri fyrir framtíð starfsgreinarinnar að hún væri séð sem listgrein fremur en hönnunargrein. Þá hefðu líka leikhúsin frekar hitann í haldinu að ráða aðeins til starfa fólk með slíkan metnað sem væri í alvöru að starfa að list." Magnús gerir sem sagt ráð fyrir því að það sé leikmyndateiknurum í sjálfsvald sett hvernig hið almenna viðhorf til greinarinnar þróast.
Hvað er þá leikmyndlist og hvert er hlutverk leikmyndlistarmannsins? Að skapa sérstakt listaverk á sviðinu sem nýtur hylli áhorfenda eða að skapa leiknum umgjörð sem fellur svo vel að honum að hún verður nánast ósýnileg?
Ef rannsaka á leikmyndlist verður að byrja á því að velta fyrir sér hugtakinu. Er hér um að ræða listgrein eða einhvers konar hönnun eða e.t.v. einhvers konar sambland af þessu tvennu? Spurningin hlýtur líka að snúast um það hvort hér sé að einhverju leyti um sjálfstæða listgrein að ræða og þá hvernig sú listgrein hefur þróast. Flestir leikmyndahöfundar virðast vera á því að leikmyndin sé ekki sjálfstætt listaverk, en höfundarverk eigi að síður. En á höfundur leikmyndarinnar að vera trúr eigin sannfæringu um túlkun á verkinu eða á hann að laga sig að forsendum höfundar verksins eða leikstjórans? Hvernig hefur afstaðan breyst til hlutverks leikmyndahöfundarins á tímabilinu frá því atvinnuleiklist hófst hérlendis? Þeir Steinþór Sigurðsson og Jón Þórisson unnu saman margar sýningar í Iðnó frá miðjum sjöunda áratugnum. Árið 1969 unnu þeir saman leikmynd að rómaðri uppfærslu á Tobacco Road eftir Caldwell í leikstjórn Gísla Halldórssonar. Sigurður A. Magnússon sagði í Alþýðublaðinu:
"Leikmynd þeirra Steinþórs Sigurðssonar og Jóns Þórissonar er listilega gerð smíð, í rauninni sjálfstætt raunsæislistaverk." Sumir gagnrýnendur voru sem sagt á þeirri skoðun að leikmyndir gætu staðið sem sjálfstæð listaverk, þrátt fyrir að gagnrýnin beindist oftast nær að því að tekin væri of skýr afstaða með leikmyndinni og athyglin beindist um of að henni.
Ári áður hafði Steinþór gert leikmynd við Sumarið "37 eftir Jökul Jakobsson og hlotið þá umsögn að leikmynd hans væri "mikið listaverk" og hann væri "snjallastur þeirra sviðsmálara sem við eigum, að öðrum ágætum mönnum ólöstuðum." Steinþór hlaut Silfurlampann árið 1972 og var einn annarra sviðslistamanna en leikara og leikstjóra um að hlotnast sá heiður. Björn G. Björnsson sagði árið 1979 um leikmyndagerð sína við sjónvarpskvikmyndina Paradísarheimt:
"Ég tel, að svona verkefni sé að mestu leyti verkleg framkvæmd og skipulagsatriði. Listin er tiltölulega lítið atriði. Þó vill það stundum gleymast, að við erum ekki að endurskapa fortíðina eins og hún var. Leikmyndagerð er skáldskapur. Við yrkjum í torf og grjót. Við erum ekki að búa til byggðasafn. En þessi skáldskapur okkar er skáldskapur í þriðja ættlið. Við framkvæmum hugmyndir leikstjóra, sem er hans persónulegi skilningur á verki Halldórs Laxnes. Og allir tökum við okkur ef til vill pínulítið skáldaleyfi."
Sigurjón Jóhannsson var myndlistarmaður þegar hann kynntist leikmyndagerð. Hann segir um hlutverk leikmynda: "Leikmynd hefur ávallt þann eina tilgang að efla leiksýninguna sem slíka. Hún er ekki sjálfstætt myndverk á sama hátt og málverk t.d., þótt hin myndræna uppbygging lúti að mörgu leyti sömu lögmálum. Leikmyndin er kannski skyldari "environment" eða umhverfislist, þar sem unnið er í 3 víddum..."
Gretar Reynisson segir að virkni leikmyndarinnar sé frumskilyrði og að hún sé ekki sjálfstætt listaverk. Gretar er myndlistarmaður og hafði upphaflega ekki ætlað sér að verða leikmyndahöfundur. Atvik höguðu því þó svo að hann var fenginn til gera leikmynd fyrir Alþýðuleikhúsið 1980 og hefur upp frá því verið með afkastamestu leikmyndahöfundum. Hann hefur tvisvar unnið til menningarverðlauna DV í leiklist, einn leikmyndahöfunda. Fyrst vann hann til verðlauna fyrir leikmynd sína við opnunarsýningu Borgarleikhússins, Ljós heimsins eftir Laxness í leikstjórn Kjartans Ragnarssonar. Af því tilefni var Gretar beðinn að skilgreina hlutverk leikmyndahöfundarins andstætt hlutverki myndlistarmannsins:
"Myndlistarmaðurinn er einn á sinni vinnustofu dögum saman og skapar sitt verk einn og óháður ... Leikmyndahöfundurinn er í sambandi við marga og verður að fara milliveginn í öllum ákvörðunum ... Myndlistarmaðurinn hins vegar velur sinn efnivið, vinnur úr sinni hugmynd og tengist sínu verki sem einstaklingur ...skúlpúrinn lýtur sínum eigin lögmálum óháð öðru en það gerir leikmyndin ekki þó hún hafi skúlptúrísk form. Leikmyndin er ekkert án leikarans."
Gretar er þó á því að leikmyndin sé sjálfstætt höfundarverk og mun í ofangreindu viðtali hafa verið fyrstur til að nota fagheitið leikmyndahöfundur.
Enn annað sjónarhorn á virkni leikmyndar kemur fram með sjónvarpi og kvikmyndum. Björn G. Björnsson tilgreindi fjórar forsendur fyrir val leikmyndateiknara á upptökustöðum fyrir sjónvarpsmynd eða kvikmynd í tengslum við sýningu á ljósmyndum frá tökum á Paradísarheimt í Torfunni. Hann segir forsendurnar fyrir staðavali vera byggðar í fyrsta lagi á sögulegu mati; að unnt sé að ná fram hugblæ og sérkennum þess tímabils sem fengist er við. Í öðru lagi sé matið fagurfræðilegt; að staðurinn uppfylli myndrænar kröfur. Í þriðja lagi sé leikrænt mat á staðnum; að hann undirstriki það andrúm sem hvert atriði krefst og í fjórða lagi sé matið fjárhagslegt; að staðurinn sé aðgengilegur og að hliðsjón sé höfð af framkvæmdaatriðum eins og rafmagni og gistingu.
Því má ljóst vera að skiptar skoðanir eru um það meðal leikmyndahöfunda hvað sé góð leikmynd og þá spurningu verður að nálgast frá mörgum hliðum. Ekki voru allir á bandi nýsköpunar og nývæðingar og ávallt hafa verið einhverjir sem segja einhvers konar natúralisma eða viðtekið raunsæi nauðsynlegt til að leikarar jafnt sem áhorfendur nái áttum gagnvart verkinu.
Sjá nánar BA-ritgerð höfundar í sagnfræði:
Leikmyndlist á Íslandi 1950-2000.