Mar 9, 2020

Benedikt Árnason


Benedikt Örn Árnason, leikari og leikstjóri, fæddist í Reykjavík 23. desember 1931. Hann lést 25. mars 2014 á Sóltúni. Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR 1951 og hélt þá í þriggja ára leiklistarnám til London (Central School of Speech and Drama). Eftir að heim kom starfaði hann fyrst hjá LR, en fljótlega lá leið hans upp í Þjóðleikhús, þar sem hann starfaði mestallan sinn starfsferil sem leikari og leikstjóri, en þó fyrst og fremst sem leikstjóri. Á löngu tímabili var hann helsti leikstjóri Þjóðleikhússins og setti þar upp á sjötta tug sýninga og hefur enginn annar leikstjóri sett upp svo mörg verk við Þjóðleikhúsið. Þetta tímabil spannar árin 1957 til 1991, allt frá Litla kofanum til Söngvaseiðs. Auk þess leikstýrði Benedikt í öðrum leikhúsum í Reykjavík og úti á landsbyggðinni.

Verkefnalisti Benedikts er bæði langur og fjölbreyttur, klassísk verk, ný verk – íslensk sem erlend, söngleikir, farsar, tragedíur – allt sem nöfnum tjáir að nefna. Það væri að æra óstöðugan að telja þau öll upp, en hér eru nokkur nöfn af handahófi: Nashyrningarnir, Húsvörðurinn, Hamlet, Eftir syndafallið, Galdra-Loftur, Þrettándakvöld, My fair lady, Káta ekkjan, Cavalleria Rusticana, Vesalingarnir. Þar að auki leikstýrði Benedikt afar mörgum leikritum í útvarpi, m.a. fyrsta íslenska framhaldsleikritinu Víxlar meðafföllum ’58, nokkrum sjónvarpsverkefnum, þar á meðal fyrstu leikritaupptöku sjónvarpsins árið ’67, en það var leikritið Jón gamli. Benedikt lék einnig í nokkrum kvikmyndum.

Látinn er eftir erfið veikindi mikilhæfur listamaður og góður vinur. Þegar leiklistarsaga síðari hluta 20. aldar verður rituð mun nafn Benedikts Árnasonar eitt þeirra sem hæst ber. Hann var annar þeirra leikstjóra sem Guðlaugur Rósinkranz valdi til leikforystu, þegar gömlu kempurnar, Indriði Waage, Lárus Pálsson og Haraldur Björnsson, hurfu smám saman af vettvangi, og Þjóðleikhúsið var síðan starfsvettvangur Benedikts; enginn leikstjóri hefur stýrt þar fleiri leiksýningum.

Eftir stúdentspróf nam Benedikt leiklist í Central-skólanum í Bretlandi, einum hinna virtustu á sínu sviði; kom heim um miðbik sjötta áratugarins og spreytti sig sem leikari, fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur en síðan Þjóðleikhúsinu. Brátt var þó ljóst að hugur hans hneigðist að leikstjórn og þegar um 1960 taldist hann í hópi efnilegustu leikstjóra landsins. Þau fyrirheit efndi hann snarlega; trúlega var næsti áratugur hans farsælasti, því þá stýrði hann rómuðum og minnisverðum sýningum á nokkrum forvitnilegustu leikverkum þess tíma, Húsverðinum eftir Pinter, Nashyrningunum eftir Ionesco, Sköllóttu söngkonunni eftir Ionesco og Eftir syndafallið eftir Arthur Miller. Hann leiddi fram ný íslensk verk eins og Forsetaefnið eftir Guðmund Steinsson, Hornakóralinn eftir Odd Björnsson, Fjaðrafok og Jón gamla eftir Matthías Johannessen, en síðasttalda verkið var og hið fyrsta sem íslenskir sjónvarpsáhorfendur gátu borið augum. Af sígildum verkum var honum falin forysta í tveimur Shakespeare-sýningum, Hamlet og Þrettándakvöldi. Hann stýrði fyrstu sýningu á Íslandi á Merði Valgarðssyni eftir frænda sinn, Jóhann Sigurjónsson, en einnig Galdra-Lofti Jóhanns. Einkum er þó minnisstæð sýning hans á Vér morðingjar eftir Guðmund Kamban. Þessi ár varð hann og eins konar meistari söngleikjanna á Íslandi með Táningaást Bruuns Olsens og Fiðlaranum á þakinu (ásamt Stellu Claire). Seinna stýrði hann vinsælli sýningu á Gæjum og píum (ásamt Kenn Oldfield). Síðasta uppsetning Benedikts í Þjóðleikhúsinu mörgum áratugum síðar var einmitt á söngleik, Söngvaseið, sem einnig sló aðsóknarmet. Þar á milli hafði mikið vatn runnið til sjávar.

Á áttunda áratug barðist Benedikt við sjúkdóm, fór utan og hlaut bata og kom svo aftur til starfa fyrir Þjóðleikhúsið. Hér tjáir ekki að telja upp öll þau verkefni önnur sem hafa fest í minni dyggra leikhúsgesta, en nefna má Meistarann eftir Odd Björnsson, Fröken Margréti eftir Athayde, Gamaldags komedíu eftir Arbuzov og Kisuleik Örkénys, og fátt eitt talið. Meðal kosta Benedikts sem leikstjóra voru næmleiki og frjó hugmyndaauðgi án þess að slá sig til riddara með ódýrum uppáhittingum eins og síðar varð tíska; hógvær smekkur samfara góðri þekkingu á stílbrigðum og jafnframt virðing fyrir höfundum og þeirra orði, svo sem var sameiginlegt með okkur leikstjórum af hans kynslóð. Hann fylgdist vel með og var hugkvæmur í sviðsetningum, en leikurum féll afar vel að vinna með honum. Marga þessara eðliskosta mátti merkja i Shakespeare-sýningu Sigurðar Skúlasonar nýlega, sem var kærkomin endurkoma. Eftir að leiðir Benedikts og Þjóðleikhússins skildi hélt hann sig til hlés og barðist reyndar við ýmsa sjúkdóma, en hafði aftur og aftur sigur. En nú er hann allur og við Þóra sendum Ernu og sonum hans, Einari Erni og Árna, og þeirra fólki okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sveinn Einarsson

sveinein

Mynd: Benedikt, lengst til hægri að leikstýra Gestagangi. Með honum eru Sigurður A. Magnússon og Gunnar R. Bjarnason

sebenarn.jpg
Til baka