Mar 9, 2020

2003


Vesturport frumsýnir Rómeó og Júlíu í London

Mikil gróska hefur verið í starfi leikhópa og leikhúsa utan hinna stærri og rótgrónari stofnana síðustu tíu-fimmtán árin. Þessir "hópar", eða hvaða nöfn við kjósum að gefa þeim, hafa verið afar margvíslegir; sumir verið framtak og fyrirtæki eins manns, sumir aðeins sett upp eina sýningu og síðan horfið á braut, aðrir hafa náð að halda uppi reglubundnu og fjölbreyttu starfi um árabil.

Um og upp úr 1980 má heita að Alþýðuleikhúsið hafi um skeið verið eina leikhúsið sinnar tegundar, en fljótlega tóku að bætast við ýmsir hópar; það má nefna Gránufjelag Kára Halldórs, götuleikhúsið Svart og sykurlaust, Frú Emilíu, sem Guðjón Petersen og Hafliði Arngrímsson stóðu að, Egg-leikhús Viðars Eggertssonar, Leikhúsið í kirkjunni og ýmsa fleiri.

Líkt og Alþýðuleikhúsið höfðu þessi leikhús enga fasta starfsaðstöðu, ef frá er talin Frú Emilía sem starfaði um hríð í litlu húsnæði í Skeifunni en seinni ár sín í Héðinshúsinu við Seljaveg. Leikhúsið gerði þriggja ára starfssamning við Menntamálaráðuneytið (1992-1995), en eftir að hann rann út fékkst hann ekki endurnýjaður og komst Hafnarfjarðarleikhúsið - Hermóður og Háðvör þá á fastan samning sem hefur verið endurnýjaður reglubundið til þessa dags. Héðinshúsið varð síðar aðsetur Loftkastalans. Þá rak Leikfélag Íslands í nokkur ár umfangsmikla starfsemi í Iðnó eftir að það hafði verið endurreist.

Leikhópurinn Vesturport var stofnaður árið 2001 undir forystu Gísla Arnar Garðarssonar, leikara og leikstjóra. Hópurinn dró nafn sitt af húsnæði því við Vesturgötu þar sem hann hóf starfsemi, en 20. nóvember 2002 frumsýndi hann Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu og gekk sýningin við mikla aðsókn þá um veturinn. 1. október 2003 var hún svo frumsýnd í Young Vic-leikhúsinu í London og hlaut ágætis viðtökur, bæði hjá breskum gagnrýnendum og áhorfendum. Nokkrar breytingar urðu á sýningunni, en meðleikstjóri Gísla Arnar var Rufus Norris. Þarna gekk hún í sex vikur. Í nóvember 2004 var hún aftur tekin upp í London og í það sinn í Playhouse Theatre í West End. Þar náði hún sér síður á strik og var á fjölunum fram í janúar 2005.

Gengi Rómeó og Júlíu Vesturports er órækur vitnisburður um þann kraft sem brotist hefur fram í þessum geira íslenskrar leiklistar undanfarin ár. Hvað sem má segja um alla drauma um alþjóðafrægð og frama er íslensku leikhúsfólki augljós ávinningur af því að hasla sér völl á stærri og víðari vettvangi en þeim sem við búum við hér heima. En sögulega séð á sigurför Rómeó og Júlíu sér langan aðdraganda sem má rekja aftur til Grímu og Alþýðuleikhússins. Því má ekki gleyma þó að saga leikhópanna eða sjálfstæðu leikhúsanna, eins og þau hafa kosið að nefna sig á undanförnum árum (áður var oftast talað um frjálsa leikhópa), sé enn óskráð. Reyndar er það fyrst með opnun gagnagrunns um verkefni íslenskra leikhúsa og leikhúslistamanna á heimasíðu Leikminjasafns Íslands að til er orðinn verulegur vísir að grunnskrá yfir starf þeirra. Með tilkomu hans verður stórum auðveldara en fyrr að átta sig á umfangi þessa starfs og fá mynd af framlagi einstakra aðila.

Opinberar fjárveitingar hafa lengstaf og eru auðvitað enn mjög ónógar, að sumu leyti vegna þess að úthlutunarnefndir hafa hneigst til að dreifa fjármagninu til fleiri aðila en færri. Menn hafa iðulega gagnrýnt þær fyrir að leitast við að gera sem flestum til hæfis, hrinda of mörgum verkefnum af stað sem hafi svo leitt bæði til fátæklegri sýninga og eins þess að aðstandendur hafi orðið að gefa vinnu sína í of ríkum mæli. Enginn vafi er þó á því að nokkrar framfarir hafa orðið í þessu efni, m.a. eftir að tekið var að veita sérstaklega starfslaun úr Listasjóði til einstakra þáttakenda í þeim sýningum sem fá um leið almennan uppsetningarstyrk frá Leiklistarráði. Stór hluti styrkjanna hefur og fer enn til einstakra verkefna og þeir hópar eru enn of fáir sem notið hafa fastra, samningsbundinna styrkja til lengri tíma.

03romeoj.jpg
Til baka