Óperur, óperettur og söngleikir voru frá upphafi nokkuð reglubundinn þáttur í verkefnaskrá Þjóðleikhússins. Fyrsti erlendi leikflokkurinn, sem kom til landsins með stóra sýningu, var Stokkhólmsóperan með Brúðkaup Fígarós Mozarts í júní 1950. Henni var mjög vel tekið og ekki vafi á því að hún varð til að glæða áhuga á óperuflutningi. Ári síðar frumsýndi leikhúsið fyrstu óperusýningu sína, Rigoletto Verdis, þar sem ungur söngvari, Guðmundur Jónsson, vakti almenna hrifningu.
Óperuunnendur bundu miklar vonir við Þjóðleikhúsið, en mörgum þeirra fannst það ekki standa undir þeim þegar fram í sótti. Í apríl 1954 stofnuðu íslenskir einsöngvarar stéttarfélag sem árið eftir stóð fyrir sýningu á La Bohéme Puccinis á sviði Þjóðleikhússins. Var sú sýning öll skipuð íslenskum söngvurum, ólíkt óperusýningum Þjóðleikhússins þar sem erlendir gestir voru tíðast í burðarhlutverkum. Þetta framtak átti sinn þátt í að hrinda af stað umræðum um stöðu óperunnar og á Alþingi 1955-56 kom m.a. fram þingsályktunartillaga frá Ragnhildi Helgadóttur um stofnun tíu manna óperuflokks við Þjóðleikhúsið. Aldrei varð þó neitt úr því og á næstu árum lá Þjóðleikhúsið oft undir gagnrýni fyrir að sinna ekki óperulistinni sem skyldi. En hafa verður í huga að aðstaða Þjóðleikhússins var hér ekki auðveld; það réði aðeins yfir einu sviði og talað var um að leikararnir sjálfir gengju verkefnalausir á tímum óperusýninga. Einn merkasti áfanginn í sögu óperuflutnings Þjóðleikhússins var frumflutningur fyrstu íslensku óperunnar, Þrymskviðu Jóns Ásgeirssonar, árið 1974. En þeim, sem dreymdi stóra drauma fyrir hönd íslenskrar óperu, fannst samt ekki nóg að gert.
Skömmu fyrir 1970 var enn gerð tilraun til að stofna óperuflokk, að þessu sinni að frumkvæði Ragnars Björnssonar. Setti hann upp tvær sýningar í Tjarnarbíói, Ástardrykk Donnizettis og Apótekarann eftir Haydn. Af einhverjum sökum varð ekki framhald á þessari viðleitni. Það var ekki fyrr en áratug síðar að skriður komst á málin fyrir alvöru. Árið 1978 stofnuðu nokkrir söngvarar undir forystu Garðars Cortes með sér samtök - Íslensku óperuna. Markmiðið var að koma upp reglulegri starfsemi og var fyrsta verkefnið I Pagliacci Leoncavallos sem var flutt í Háskólabíói í mars 1979. Íslenska óperan var svo stofnuð formlega 3. október 1980. Í lok sama mánaðar var tilkynnt að hún væri gjafþegi að fjórðungi meginhluta dánargjafar Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar og næmi gjafahlutur hennar 10 milljónum króna á þágildandi verðlagi. Í framhaldinu réðst Íslenska óperan í að kaupa Gamla bíó sem hefur verið aðsetur hennar síðan. Fyrsta sýningin í óperuhúsinu nýja var Sígaunabaróninn eftir Johann Strauss sem var frumsýnd 9. janúar 1982. Fyrstu tuttugu árin starfaði Íslenska óperan undir stjórn Garðars Cortes, en aðrir óperustjórar hafa verið Gerrit Schuil og Bjarni Daníelsson.