Árið 1786 var skóli fluttur úr Skálholti til Reykjavíkur. Hann var þá eina formlega skólastofnun landsins og hafði það meginhlutverk að veita prestum undirstöðumenntun. Við flutninginn var byggt sérstakt hús yfir skólann á svonefndum Hólavelli. Það var nokkru norðar en þar sem áratugum síðar var settur nýr kirkjugarður handa vaxandi bæjarfélagi, síðar jafnan nefndur "gamli kirkjugarðurinn" eftir að Fossvogsgarður var tekinn í notkun. Húsið stóð á lóðinni þar sem er nú Suðurgata 20.
Í þessu húsi var fyrst efnt til leiksýninga í nútímaskilningi á Íslandi, svo vitað sé. Ekki verður þó þvertekið fyrir að sjónleikir af einhverju tagi gætu hafa farið fram í Skálholti, líkt og á ýmsum lærdómssetrum í Evrópu, en söguleg gögn gefa litlar sem engar vísbendingar um slíkt. Skólapiltar höfðu hins vegar lengi iðkað allformfastan skrípaleik við setningu skólans á haustin, svokallaða Herranótt; bjuggust þá í gervi kóngs, biskups og embættismanna og létu ýmsum látum. Munu fyrstu leiksýningarnar hafa farið fram í tengslum við þessa hátíð þeirra, eftir að skóli fluttist til Reykjavíkur.
Ísland var leikhúslaust land mestalla 19. öld. Þjóðin lét húsnæðisleysið þó ekki aftra sér frá því að skemmta sér við leiksýningar og bjargaðist við frumstæð bráðabirgðarsvið í alls kyns vistarverum, vöruskemmum kaupmanna, heyhlöðum, setustofum, bæjarhúsum, öldurhúsum o.s.frv. Það er eitthvað heillandi við það hversu nægjusamir, en um leið úrræðagóðir menn voru; þörfin var greinilega óhemju rík til að lyfta sálinni upp úr daglegu amstri og tilbreytingarleysi þeirrar þorpstilveru sem varð nú í vaxandi mæli hlutskipti Íslendinga. Enskur ferðalangur, sem kom til Akureyrar og varð þar vitni að leiksýningum á áttunda áratugnum, segir t.d. að Íslendingum nægi "að geta teygt úr sér á fjögurra þumlunga planka í efri hæðinni í hveitihlöðu, þar sem menn verða að sitja með loðhúfur og hanska og í yfirhöfnunum til að halda á sér hita, þar sem köngulóarvefur og grýlukerti mynda einfalda en áhrifamikla leikmynd."
Fullt svo slæmt var ástandið ekki í Hólavallarskóla, þó að hann yrði brátt alræmdur fyrir lélegan aðbúnað. Skólahúsið var töluverð bygging á þeirrar tíðar mælikvarða. "Í Hólavallarskóla var íbúð rektors í norðurenda aðalhússins. Konrektor mátti hafast við í geymslukompu í austurálmu sem ætluð var bókasafni. Aðeins ein kennslustofa var í húsinu, allstór, og hefur sennilega verið skipt í tvennt, því bekkir voru tveir. Uppi á loftinu var svefnhýsi nemenda. Var allt loftið óþiljað og þægindalaust, með 9 rúmstæðum handa 30 skólapiltum." (Páll Líndal)
Þarna voru frumflutt leikrit Sigurðar Péturssonar, Hrólfur og Narfi, auk Bjarglaunanna eftir sr. Geir Vídalín. Leikið var í kennslustofunni og trúlega hefur verið slegið þar upp einföldum leikpalli, en leiktjöld og annar umbúnaður verið í algeru lágmarki. Þetta voru boðssýningar og voru áhorfendur flestir kennarar skólans auk ýmissa fyrirmanna úr bænum ásamt skylduliði. Löngu síðar, eftir að skólinn var aftur fluttur til Reykjavíkur, opnuðu piltar húsið stundum fyrir allan almenning, en svo alþýðlegir hafa þeir tæpast verið á Hólavelli.
Svo fór að lokum að Hólavallarskóli var úrskurðaður óhæfur til skólahalds og var það flutt til Bessastaða árið 1805. Piltum var talið hollara að dvelja í hollu sveitarloftinu en með freistingar bæjarlífsins uppi í vitum sér. Heimildir eru fyrir því að þeir hafi sprellað sitthvað á svefnloftinu á Bessastöðum og hugsanlega hafa þeir einnig flutt þar einhverja leiki, þó að af því fari fremur óljósum sögnum.
Hólavallarskóli var rifinn árið 1807 og munu fáir hafa borið sorg í hjarta eftir fall hans. Frá sjónarhorni leiklistarsögunnar er þetta auma hús hið fyrsta í röð þeirra húsakynna sem voru ætluð til annars en sjónleikhalds en þrautgóðir áhugaleikarar breyttu um stundarsakir í sal ævintýranna. En sýningar þær, sem þarna fóru fram, mörkuðu slík tímamót að beint liggur við að telja Hólavallarskóla fyrsta íslenska leikhúsið.
Heim.: Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, 3. bindi (Reykjavík 1988), Steingrímur J. Þorsteinsson, Upphaf íslenskrar leikritunar (Reykjavík 1941), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I (Reykjavík 1991)