Mar 9, 2020

1979


Stundarfriður eftir Guðmund Steinsson frumsýndur

Stundarfriður var frumsýndur í Þjóðleikhúsinuundir leikstjórn Stefáns Baldurssonar 25. mars 1979 og hélt göngu sinni áfram allt til loka næsta leikárs. Þetta varð ein af vinsælustu sýningum leikhússins frá upphafi og sáu hana rúmlega 41.000 manns á 86 sýningum. Auk þess fór leikhúsið tvívegis með hana í leikför til útlanda. Þá var leikurinn settur upp í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Póllandi og víðar. Sú hófstillta en markvissa ádeila, sem í verkinu kom fram á fjölskylduhætti nútíma-Íslendinga, átti greinilega erindi við fleiri en Íslendinga.

Guðmundur Steinsson átti framan af mjög erfitt uppdráttar sem leikskáld. Þjóðleikhúsið sýndi að vísu Forsetaefnið árið 1964, en eftir það sýndi það verkum hans engan áhuga fyrr en árið 1975, þegar Lúkas var sýndur á Litla sviðinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Eftir að Sveinn Einarsson tók við stöðu þjóðleikhússtjóra árið 1972 breyttist afstaða leikhússins til íslenskrar leikritunar mjög til hins betra. Jökull Jakobsson, sem hafði fram að því verið eins konar hirðskáld L.R., flutti sig nú um set upp í Þjóðleikhús, þar sem síðari verk hans voru frumsýnd, en af öðrum íslenskum höfundum, sem leikhúsið lék verk eftir á þessum tíma, má nefna Odd Björnsson, Agnar Þórðarson, Birgi Engilberts, Véstein Lúðvíksson og Erling E. Halldórsson. Með nokkrum rétti má segja að sýning leikhússins á Stundarfriði hafi verið hátindur þessarar viðleitni, endanleg staðfesting þess að Grímu-kynslóðin hefði loks haft erindi sem erfiði í baráttu sinni. Það er því í raun afar furðulegt hversu fá af síðari leikritum Guðmundar hafa náð upp á svið, en Þjóðleikhúsið hefur á síðasta aldarfjórðungi aðeins frumsýnt tvö verka hans: Brúðarmyndina (1987) og Stakkaskipti (1995). Heildarsafn leikrita hans kom út árið 2003.

L.R. hélt að sjálfsögðu einnig áfram að leggja rækt við íslenska leikritun og á áttunda áratugnum komu þar fram höfundar eins og Kjartan Ragnarsson og Birgir Sigurðsson, auk þess sem Skjaldhamrar Jónasar Árnasonar varð ein af vinsælustu sýningum félagsins. Á níunda áratugnum voru Kjartan og Ólafur Haukur Símonarson afkastamestir, en endurnýjun í hópi leikskálda á síðari árum hefur naumast orðið með þeim hætti sem búast hefði mátt við eftir þann árangur sem kynslóð Jökuls og Guðmundar Steinssonar náði. Leikgerðir á íslenskum prósaskáldskap hafa oft notið vinsælda, en löngum tekist misjafnlega; það er helst ástæða til að nefna leikgerðir Kjartans Ragnarssonar á verkum á borð við Ofvita Þórbergs Þórðarsonar (L.R. 1980), Djöflaeyju Einars Kárasonar (L.R.1987) og Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness (Þjóðleikhús 2000).

fstundar.jpg
Til baka