Mar 9, 2020

1975


Alþýðuleikhúsið stofnað

Alþýðuleikhúsið var stofnað á Akureyri 4. júlí 1975. Það frumsýndi fyrstu sýningu sína, Krummagull eftir Böðvar Guðmundsson á Neskaupstað 28. mars 1976, síðan var lagt af stað um landið. Var sýningum ágætlega tekið og leikið alls 62 sinnum á 44 stöðum. Þá var leikurinn tekinn upp fyrir sjónvarp í Dramatiska Institutet í Stokkhólmi, þar sem einn af stofnendum leikhússins, Þráinn Bertelsson, var við nám í kvikmyndaleikstjórn. Haustið 1976 var Skollaleikur Böðvars Guðmundssonar frumsýndur á Borgarfirði eystra og síðan á ýmsum stöðum á landinu. Haustið 1977 var farið með hann í leikför til Skandinavíu. Alls urðu sýningar á leiknum um hundrað og var hann síðast tekinn upp í sjónvarpi vorið 1978. Leikstjóri beggja sýninganna var Þórhildur Þorleifsdóttir, en hún og eiginmaður hennar, Arnar Jónsson leikari, voru frá upphafi helstu burðarásar leikhússins ásamt Þráni Karlssyni leikara.

Alþýðuleikhúsið skilgreindi sig sem "gagnrýnið, framsækið leikhús sem vill fjalla um samtíðarveruleikann á listrænan hátt". Bæði Krummagull og Skollaleikur vöktu þó ekki síður athygli fyrir óvenju leikræna framsetningu, kröftuga og agaða stílfærslu, en félagslegan boðskap. Þetta tvennt: viðleitni til að brjóta upp hefðbundin form og gagnrýna borgaralegt þjóðfélag á róttækum forsendum setti lengst af svip á verkefnaval og vinnubrögð Alþýðuleikhússins; það var einn helsti vettvangur 68-kynslóðarinnar á íslensku sviði. Annars er eðlilegt að skoða starf leikhússins sem beint framhald á viðleitni fyrri leikhópa, s.s. Grímu, Litla leikfélagsins og Leiksmiðju Eyvindar Erlendssonar.

Árið 1978 hóf Alþýðuleikhúsið að starfa í Reykjavík og var formlega skipt upp í norðandeild og sunnandeild 4. júlí það ár. Ekki varð mikið úr starfi norðandeildar, en sunnandeild starfaði af því meiri krafti næstu ár. Skipulag leikhússins var afar frjálslegt og var grunnhugmyndin sú að sjálfstæðir hópar gætu myndast innan þess, eftir áhugamálum félaganna, og sótt fjármagn í sameiginlegan sjóð. Þannig starfaði sérstakur hópur um barna- og unglingaleiklist um skeið, Pældíðí-hópurinn, og sýndi víða. Ákvarðanir um stórt og smátt voru teknar á aðalfundum og varð stjórn að hlíta ákvörðunum þeirra. Eftir 1990 dró mjög úr starfi Alþýðuleikhússins, uns það lognaðist út af fyrir miðjan áratuginn. Það sem alltaf háði Alþýðuleikhúsinu mest var skortur á föstu húsnæði og rekstrarfé. Leikhúsið fékk þó snemma fasta fjárveitingu á fjárlögum, en missti hana þegar leiklistarráð tók að úthluta styrkjum til leikhópa eftir 1990. Fyrstu árin var mest sýnt í Lindarbæ, og árið 1981 fékk leikhúsið inni í Hafnarbíói, sem stóð neðst við Barónsstíg. Þá aðstöðu missti það árið eftir, enda skammt í að bíóið yrði rifið. Eftir það voru sýningar á ýmsum stöðum, á Kjarvalsstöðum, í Þýska bókasafninu, Ásmundarsal, Hlaðvarpanum, Gamla bíói, Iðnó, Tjarnarbíói, Hafnarhúsinu og víðar.

Staða Alþýðuleikhússins er að ýmsu leyti merkileg í samhengi íslenskrar leiklistarsögu. Þegar Leiklistarskóli Íslands tekur að útskrifa leikara fljótlega upp úr 1980 gátu þau leikhús sem fyrir voru, Þjóðleikhúsið, L.R., L.A., að Ríkisútvarpinu ógleymdu, ekki tekið við öllum nýju leikurum og gefið þeim verðug tækifæri. Alþýðuleikhúsið fullnægði að nokkru leyti þeirri þörf, sem þarna myndaðist fyrir stærri starfsvettvang; þar gafst hinum ungu leikurum alltént nokkurt tækifæri til að reyna kraftana. Sama máli gegndi auðvitað um þá leikstjóra sem helst störfuðu með leikhúsinu. Með þessum hætti sá leikhúsið til þess að ákveðinn sögulegur þráður slitnaði ekki og bjó um leið jarðveginn undir þá miklu grósku sem hefur orðið í starfi frjálsra leikhópa/sjálfstæðra leikhúsa síðari ár.

75altydu-280x160.jpg
Til baka