Mar 9, 2020

1975


Leiklistarskóli Íslands stofnaður

Stofnun Leiklistarskóla Íslands er merkasti áfanginn í sögu íslenskrar leiklistarmenntunar. Framan af hafði þróunin verið hæg. Sú kynslóð, sem bar uppi íslenskt leikhús um miðbik aldarinnar, varð að sækja sér menntun til útlanda, þ.e. þeir sem á annað borð höfðu aðstöðu eða hirtu um slíkt, og sumir í þeim hópi reyndu að veita ungum leikurum tilsögn og þjálfun. Óljósar heimildir eru um að Stefanía Guðmundsdóttir hafi tekið unga leikara í tíma heima hjá sér, þó að um formlegt skólahald væri þar alls ekki að ræða. Haraldur Björnsson stundaði einnig einkakennslu og sama máli gegnir um Soffíu Guðlaugsdóttur (1898-1948) sem fékk raunar ríkisstyrk til skólahalds frá 1938 til dauðadags. Árið 1940 bættist leiklistarskóli Lárusar Pálssonar við og 1943 skóli Jóns Norðfjörð á Akureyri. Síðar ráku menn eins og Ævar R. Kvaran (1947-1973) og Helgi Skúlason (1974-1986) skóla sem voru einkum hugsaðir sem undirbúningur undir formlegt nám við viðurkennda skóla.

Löngum hefur verið litið svo á að skóli Lárusar Pálssonar hafi markað mest tímamót, áður en Leiklistarskóli Íslands kemur til sögunnar. Námið var þar vel skipulagt, Lárus kenndi sjálfur þær greinar, sem hann var meistari í, leiktúlkun, framsögn og ljóðalestur, en fékk aðra til að kenna greinar á borð við taltækni og raddbeitingu, hreyfingar (plastik) og skylmingar. Úr skóla hans komu margir þeirra sem urðu burðarásar atvinnuleikhússins næstu áratugi. Lárus var dáður kennari sem náði að setja mark sitt á ýmsa nemendur sína ævilangt, ekki síst með ást sinni á íslenskri ljóðlist. Hann fylgdi því fast eftir að leikarar köfuðu ofan í persónurnar og miðluðu skýrum skilningi í persónumótun, jafnframt því sem þeir væru ófeimnir við að stækka og ýkja alla drætti, ef því var að skipta. Sem starfandi leikstjóri hjá L.R. hafði hann aðstöðu til að koma þeim, sem honum þótti bestir, á framfæri á sviðinu og má sem dæmi nefna að í sýningu hans á Kaupmanninum í Feneyjum árið 1945 komu þeir Baldvin Halldórsson, Róbert Arnfinnsson og Gunnar Eyjólfsson allir fram í fyrsta skipti.

Þjóðleikhúsið hóf skólarekstur þegar haustið 1950 og gerðist Guðlaugur Rósinkranz sjálfur skólastjóri. Var það í raun furðuleg ráðstöfun í ljósi þess að hann hafði enga leiklistarmenntun og átti þá völ á yfirburðamanni eins og Lárusi Pálssyni. Mun Lárus hafa reiðst þessari ráðabreytni, a.m.k. kenndi hann aldrei við þjóðleikhússkólann. Skólinn var tveggja ára síðdegis- eða kvöldskóli og aðalmarkmið hans að sjálfsögðu að endurnýja leikendahóp Þjóðleikhússins. Árið 1959 hóf Leikfélag Reykjavíkur einnig að reka leiklistarskóla með svipuðu sniði.

Þó að nokkrir ágætir leikarar kæmu úr þessum skólum báðum, hvarf stór hluti þeirra, sem þaðan útskrifaðist, að öðrum störfum. Öllu hugsandi fólki mátti vera ljóst að slíkt skólahald gæti ekki fullnægt nútímalegum kröfum til leikaramenntunar. Víða erlendis hafði þeirri skoðun þá vaxið fylgi að óheppilegt væri að menntun ungra leikara færi fram innan vébanda stofnanaleikhúsa sem hneigðust til að nýta leikaraefnin sem ódýrt vinnuafl, en flestum þótti raunin vera orðin sú í Þjóðleikhússkólanum undir lokin. Á Norðurlöndum voru gömlu leiklistarskólarnir við þjóðleikhúsin lagðir niður og sjálfstæðir skólar stofnaðir. Var það sjálfsagt framfaraskref á þeim tíma, þó að síðar áttuðu menn sig á því hversu varasamt er að höggva með öllu á tengsl ungra leikaraefna við lifandi leikhús, því að leiklistin er listgrein sem lærist fyrst og fremst - eins og iðngreinarnar - í beinum samskiptum meistara og lærisveins.

Um 1970 lögðu bæði L.R. og Þjóðleikhúsið niður skóla sína til að knýja á um úrlausn. Ríkisvaldið var þó ekki tilbúið til að grípa til varanlegra úrbóta þegar í stað og næstu ár ríkti mjög óþægilegt millibilsástand. Áhugafólk um leiklistarmenntun tók sig þá saman og stofnaði eigin skóla, svonefndan SÁL-skóla (Samtök áhugamanna um leiklistarmenntun), auk þess sem bæði leikhúsin í Reykjavík sameinuðust um skólarekstur ásamt Félagi íslenskra leikara veturinn 1974-75. Gengu nemendur úr þessum tveimur skólum síðan inn í Leiklistarskóla Íslands eftir að hann var stofnaður með lögum árið 1975. SÁL-skólin hafði engin inntökupróf og urðu um það nokkur átök hvort nemendur úr honum skyldu fá að ganga beint inní leiklistarskólann ásamt nemendum "Húsa-skólans" svonefnda sem höfðu tekið hæfnispróf. Lyktir urðu þær að nemendur beggja skólanna ættu rétt á setu í nýja skólanum að undangengu námsmati. Tóku 42 nemendur sæti í hinum langþráða Leiklistarskóla Íslands þegar hann tók til starfa haustið 1975.

Leiklistarskóli Íslands varð fjögurra ára skóli og var síðasta árið starf í Nemendaleikhúsinu. Fyrsti skólastjóri var Pétur Einarsson, en aðrir skólastjórar voru Helga Hjörvar og Gísli Alfreðsson. Skólinn var framan af til húsa í Lækjargötu 14a (gamla Búnaðarfélagshúsinu), en fluttist um miðjan níunda áratuginn í húsnæði það við Sölvhólsgötu, þar sem arftaki hans, leiklistardeild Listaháskóla Íslands, er enn. Nemendaleikhúsið fékk strax aðstöðu í Lindarbæ þar sem Litla svið Þjóðleikhússins hafði áður verið og Gríma raunar haft síðustu sýningu sína, Hvað er í blýhólknum? eftir Svövu Jakobsdóttur. Í Nemendaleikhúsinu setti útskriftarárgangur skólans að jafnaði upp þrjú verk og önnuðust nemendurnir allan rekstur í samráði við skólastjóra. Þó að aðstæður í Lindarbæ væru ekki upp á marga fiska, sviðið sjálft t.d. lítið og grunnt og aðkoma að því einungis frá einni hlið, nýttu leikstjórar og leikmyndagerðarmenn þetta rými oft af mikilli hugkvæmni, léku t.d. gjarnan á aðalgólfinu með áhorfendur til tveggja eða þriggja hliða, eða þeir létu áhorfendur sitja á aðalgólfi með leikinn á þrjá vegu umhverfis. Ýmsar fleiri leiðir voru reyndar; t.d. að tvískipta salnum langsum og hafa áhorfendur þá öðrum megin. Nemendahópurinn var jafnan kröfuharður í vali leikstjóra, fékk jafnvel stöku sinnum erlenda gestaleikstjóra, auk þess sem eldri leikarar úr leikhúsunum tóku iðulega þátt í sýningunum. Þá kom einnig fyrir að Nemendaleikhúsið tæki sem heild þátt í sýningum með stærri leikhúsunum og var sýning þess og Leikfélags Reykjavíkur á Jónsmessunæturdraumi árið 1984 hin fyrsta af því tagi. Nemendaleikhúsinu hefur jafnan fylgt ferskur andblær, það hefur oft sýnt metnað og á stundum frumleik og dirfsku í verkefnavali.

Árið 2000 var Leiklistarskólinn lagður niður sem sjálfstæð ríkisstofnun og hefur síðan starfað sem deild í Listaháskóla Íslands undir stjórn Ragnheiðar Skúladóttur. Nemendaleikhúsið hefur haldið áfram með svipuðu sniði og fyrr og sýnir nú oftast nær í stórum sal á fyrstu hæð skólahússins við Sölvhólsgötu.

75skoli.jpg
Til baka