Mar 9, 2020

1974


Inúk frumsýndur í Þjóðleikhúsinu

Inúk var hópverkefni unnið undir stjórn Brynju Benediktsdóttur sem skrifaði texta ásamt Haraldi Ólafssyni mannfræðingi og leikarahópnum. Í flokknum voru auk Brynju þau Kristbjörg Kjeld, Helga E. Jónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson og Ketill Larsen. "Hópvinna" var orðið hið mikla slagorð tímans í anda 68-kynslóðarinnar sem lét a.m.k. stundum eins og best væri að ryðja burt öllum stjórnendum úr leikhúsinu. En Inúk hefði aldrei orðið það sem hann varð, hefði hann ekki verið unninn af jafn öflugum leikstjóra og Brynju sem átti ýmsar af bestu leiksýningum hússins á þessum tíma.

Í Inúk, sem þýðir "maður" á grænlensku, var leitast við að varpa ljósi á hlutskipti og örlög Grænlendinga með leikrænum meðulum. Hafði hópurinn kynnt sér efnið vandlega, m.a. með heimsókn til Grænlands á meðan verkið var í vinnslu. Sýningin var látlaus, með einföldum umbúnaði og miðuð við að hægt væri að sýna hana nánast hvar sem er.

Inúk var frumsýndur 18. mars og fékk mjög góðar viðtökur, bæði hér heima og erlendis. Sýningin hentaði vel til flutnings á leiklistarhátíðunum og hafði hópurinn áður en yfir lauk farið til um tuttugu landa, þ. á m. nokkurra ríkja Suður-Ameríku. Urðu sýningar erlendis 108 talsins skv. skrám Þjóðleikhússins. Þó að ýmsar leiksýningar hafi síðan komist út fyrir landssteinana og sumar fengið ágætar undirtektir, hefur engin gert svo víðreist allt til þessa dags. Með Inúk komst íslensk leiklist í fyrsta skipti á heimskort listarinnar.

74inuk.jpg
Til baka