Mar 9, 2020

1973


Leikfélag Akureyrar verður atvinnuleikhús

Haustið 1973 voru átta leikarar ráðnir til LA í hálft starf. Það voru þau Aðalsteinn Bergdal, Þórhalla Þorsteinsdóttir, Sigurveig Jónsdóttir, Gestur E. Jónasson, Arnar Jónsson, Saga Jónsdóttir, Þráinn Karlsson og Þórhildur Þorleifsdóttir. Aðrir starfsmenn voru Magnús Jónsson, leikhússtjóri, sem fyrstur manna gegndi því embætti hjá L.A., Guðmundur Magnússon framkvæmdastjóri, Árni Valur ljósameistari og Kuregej Alexandra búningavörður.

Breyting L.A. í atvinnuleikhús átti sér nokkurn aðdraganda. Haustið 1969 var Sigmundur Örn Arngrímsson ráðinn framkvæmdastjóri og var sú ráðning í reynd fyrsti vísir að ráðningu leikhússtjóra. Aðsókn að sýningum félagsins hafði þá farið heldur dvínandi um skeið og var Sjónvarpinu helst kennt um, en Íslendingar sátu sem límdir við skjáinn fyrstu árin eftir tilkomu þess árið 1966. Þá hafa menn ugglaust litið til þess að L.R. var nýorðið atvinnuleikhús. Þó að leiklistarskólar leikhúsanna væru ófullnægjandi útskrifuðu þeir marga unga leikara sem ekki gátu allir fengið störf við leiksvið höfuðborgarinnar. Ef Reykjavík hafði ráð á tveimur atvinnuleikhúsum, því skyldi Akureyri þá ekki geta staðið undir einu? L.A. hafði undanfarin ár að jöfnu sýnt 2-3 leikrit á vetri, en nú tók starf þess fjörkipp. Voru hvorki fleiri né færri en fimm íslensk leikrit sýnd á fyrra ári Sigmundar Arnar og sjö leikrit, öll að vísu erlend, síðara árið. Á þessum tíma komu til starfa ýmsir kraftar sem síðar áttu eftir að verða þjóðkunnir listamenn; það má nefna fólk eins og Þórhildi Þorleifsdóttur, Arnar Jónsson, Brynju Benediktsdóttur, Messíönu Tómasdóttur o.fl. Formaður L.A. á þessum tíma var Jón Kristinsson, faðir Arnars, og var hann einn helsti drifkraftur á bak við þessa breytingu. Sigmundur Örn lét af starfi framkvæmdastjóra eftir tvö ár og tók þá Þráinn Karlsson við, en Magnús Jónsson var ráðinn leikhússtjóri haustið 1972 og gegndi því starfi í tvö ár. Það var í hans tíð sem skrefið yfir í atvinnumennskuna var endanlega stigið.

Það var að sjálfsögðu ekki vandalaust að breyta grónu áhugamannaleikhúsi í atvinnuleikhús og má vel deila um hversu vel það tókst. Flestir hinna nýráðnu leikara voru ungir að árum og sumir hinna eldri, sem ekki höfðu menntun í faginu en margir með áratuga sviðsreynslu, höfðu efasemdir og e.t.v. áhyggjur af stöðu sinni. Þar við bættist að fljótlega kom upp klofningur í hópnum. Eftir fyrsta starfsár Eyvindar Erlendssonar, sem tók við af Magnúsi, varð ósætti um stefnu leikhússins og verkefnaval sem átti sinn þátt í því að þeir Arnar Jónsson og Þráinn Karlsson sögðu skilið við leikhúsið og stofnuðu Alþýðuleikhúsið ásamt Þórhildi Þorleifsdóttur og nokkrum öðrum. Að einhverju leyti var stofnun slíks leikhúss þó sjálfsagt svar við kalli tímans; Alþýðuleikhúsið var framan af farandleikhús með róttæk markmið og vildi ná til stærri og fjölbreyttari áhorfendahóps en unnt var innan vébanda stofnunar á borð við L.A. Það var ekki fyrir siðasakir að það var nefnt Alþýðuleikhús. L.A. hélt þó ótrautt sínu striki, enda sneru sumir alþýðuleikaranna brátt aftur til föðurhúsanna, s.s. Þráinn Karlsson sem hefur verið einn helsti burðarleikari L.A. til þessa dags.

Leikhússtjórar L.A. hafa verið eftirtaldir: Magnús Jónsson (1972-1974), Eyvindur Erlendsson (1974-1977), Brynja Benediktsdóttir (1977-78), Oddur Björnsson (1978-1980), Signý Pálsdóttir (1982- 1986 og aftur 1991 - 94), Pétur Einarsson (1986-1988), Arnór Benónýsson (1988-1989), Sigurður Hróarsson (1989-1991 og aftur 1999-2002), Viðar Eggertsson (1994-1996), Trausti Ólafsson (1996-1999), Þorsteinn Bachmann (2002-2004) og Magnús Geir Þórðarson (2004 - ).

Tekið skal fram að á milli 1980 og ´82 var enginn leikhússtjóri.

[Sýningin Leiklist á Akureyri]

Myndir: Fyrstu fastráðnu leikarar L.A. haustið 1973: Sitjandi f.v: Arnar Jónsson, Saga Jónsdóttir, Þráinn Karlsson og Þórhildur Þorleifsdóttir. Standandi f.v: Aðalsteinn Bergdal, Þórhalla Þorsteinsdóttir, Sigurveig Jónsdóttir og Gestur E. Jónasson

73laatvi.jpg
Til baka