Mar 9, 2020

1968


Fyrsta íslenska sjónvarpsleikritið

30. september 1966 hóf Ríkisútvarið sjónvarpsútsendingar. Það sendi í fyrstu út aðeins tvo daga í viku, en útsendingardögum fjölgaði fljótlega. Fimmtudagar voru þó sjónvarpslausir langt fram á áttunda áratuginn og voru útvarpsleikritin þá flutt af laugardagskvöldum yfir á fimmtudagskvöld.

Sjónvarpið tók fljótlega að framleiða leikið efni. Fyrstu leikritaupptökurnar voru á nýlegum einþáttungum úr leikhúsunum: Jón gamli eftir Matthías Johannessen úr Þjóðleikhúsinu og Nakinn maður og annar í kjólfötum eftir Dario Fo frá Leikfélagi Reykjavíkur. Fyrsta verkið, sem Sjónvarpið framleiddi sjálft, var Romm handa Rósalind eftir Jökul Jakobsson. Það var sent út í 4. mars 1968 og telst því fyrsta íslenska sjónvarpsleikritið. Jökull Jakobsson var ráðinn til að skrifa verkið fyrir sjónvarpið, Gísli Halldórsson leikstýrði, Andrés Indriðason stjórnaði upptöku og Björn G. Björnsson hannaði leikmynd. Þorsteinn Ö. Stephensen lék skósmiðinn, Nína Sveinsdóttir konu hans, Anna Kristín Arngrímsdóttir lék Rósalind og Jón Aðils lítið hlutverk. Upptökur fóru fram 7. og 8. febrúar 1968. Aðeins 4 dögum síðar er svo verið að taka upp leikrit Strindbergs, "Hin sterkari", í leikstjórn Sveins Einarssonar. Hér var sjónvarpið komið út í meiri framleiðslu á leiknu efni en menn hafði órað fyrir í upphafi.

Leikritagerð Sjónvarps fór vaxandi á fyrstu árum þess, enda reyndust leikritin vinsælt efni. Framan af fóru upptökur oftast fram í stúdíói og báru sterkan keim af leiksviði, enda komu leikstjórarnir oftast úr leikhúsunum og kvikmyndatökumenn enn lítt skólaðir miðað við það sem varð síðar. Oft voru sviðsverk tekin upp, stundum nýlegar sýningar úr leikhúsunum (Hedda Gabler Ibsens, Liðin tíð Pinters, Stundarfriður Guðmundar Steinssonar, Ofviti Kjartans Ragnarssonar o.fl.), en einnig kom fyrir að Sjónvarpið sjálft gerði eigin upptökur á eldri leikritum (Vér morðingjar og Skálholt Guðmundar Kamban, Galdra-Loftur Jóhanns Sigurjónssonar, Lénharður fógeti Einars H. Kvaran). Eftir að ný kynslóð menntaðra kvikmyndaleikstjóra kom til sögunnar á árunum í kringum 1980 tók framleiðsla Sjónvarps á leiknu efni að þróast í átt til kvikmyndagerðar sem leiddi m.a. til þess að einstök verkefni urðu dýrari og þar af leiðandi færri. Merkur áfangi í sögu íslenskrar sjónvarspskvikmynda, og fyrsta stórverkefnið á því sviði, var gerð kvikmyndarinnar eftir Brekkukotsannál Halldórs Laxness árið 1972 sem var unnin í samvinnu íslenska Sjónvarpsins og Norðurþýska Sjónvarpsins (Norddeutsches Rundfunk) undir stjórn Rolf Hädrichs.

68brekkuÁrið 1972 tók íslenska Sjónvarpið ásamt norrænu sjónvarpsstöðvunum þátt í gerð sjónvarpsmyndarinnar Brekkukotsannál sem Norddeutsches Rundfunk stóð fyrir

Leikritagerð Sjónvarps hefur alltaf verið undir hatti almennrar dagskrárgerðar sem sér um allt annað innlent efni en fréttir og fréttatengda þætti. Ekki verður annað sagt en dagskrárstjórar hafi staðið sig mjög misvel á þessu sviði, en nú er svo komið að vart er lengur hægt að tala um íslenska sjónvarpsleikritun eða leikritaframleiðslu. Sú tíð er löngu liðin að verk, sem hafa áður verið á fjölum leikhúsanna, séu flutt í sjónvarpi og er þó augljóst að slíkur leikflutningur getur bæði haft menningar- og skemmtigildi, að ekki sé minnst á hið sögulega heimildagildi. Það, sem Sjónvarpið framleiðir nú helst af leiklistartagi, er hin sívinsæla Spaugstofa, arftaki revíunnar sem aðalvettvangur leikrænnar þjóðfélagssatíru.

Myndir: Úr Romm handa Rósalind og Brekkukotsannál

68rommha.jpg
Til baka