Mar 9, 2020

1962


Hart í bak eftir Jökul Jakobsson frumsýnt

Þegar Þjóðleikhúsið tók til starfa vonuðu menn að það yrði íslenskri leikritun mikil lyftistöng. Þær vonir rættust ekki á meðan Guðlaugur Rósinkranz sat við stjórnvölinn; það var ekki fyrr en Sveinn Einarsson hafði tekið við af honum að leikhúsið tók sér verulegt tak í þessum efnum. Þó að leikhúsið sýndi talsvert af nýjum íslenskum leikritum frá upphafi, olli þorri þeirra vonbrigðum. Flest voru eftir skáld sem höfðu þegar aflað sér viðurkenningar (Halldór Laxness, Davíð Stefánsson), önnur eftir skáldhneigða borgara (sr. Jakob Jónsson, sr. Sigurð Einarsson, Kristján Albertsson). Aðeins einn ungur höfundur, sem eitthvað kvað að, kom fram í Þjóðleikhúsinu á fyrsta áratug þess, Agnar Þórðarson, sem sendi einnig frá sér vinsæl útvarpsleikrit, ekki síst framhaldsleikrit. Árið 1964 sýndi leikhúsið einnig verk eftir Guðmund Steinsson, Forsetaefnið, en það var eina verk hans sem leikhúsið sá ástæðu til að flytja á þessum árum.

Það var ekki fyrr en eftir 1960 að nýr kraftur hljóp í leikskáldskapinn. Grímu tókst að skapa vettvang fyrir unga og óreynda höfunda sem ekki fundu kröftum sínum framrás innan leikhúsanna, en að öðrum ólöstuðum munaði þó langmest um Jökul Jakobsson (1933-1978). Fyrsta leikrit hans, gamanleikurinn Pókók, var frumsýndur hjá L.R. í ársbyrjun 1961, en það var ekki fyrr en með Hart í bak sem var frumsýnt 11. nóvember 1962 að hann vann glæstari sigur en nokkurt ungt leikskáld hafði þá gert frá dögum Jóhanns Sigurjónssonar. Leikurinn fékk ekki aðeins loflegar viðtökur gagnrýnenda heldur varð hann feykivinsæll, gekk í samfleytt tvö leikár og var endurupptekinn þriðja veturinn; alls urðu sýningarnar 205 talsins. Jökull varð í raun fyrstur til að taka upp þann þráð sem Jóhann og Guðmundur Kamban höfðu byrjað að spinna. Hann ákvað að helga sig leikritagerð og þó að hann ynni við ýmislegt annað, einkum fjölmiðla, var leikhúsið hans aðalmiðill allt til dauðadags. Hann var afkastamikill höfundur, sendi frá sér alls tíu sviðsverk í fullri lengd, auk margra leikrita fyrir útvarp og sjónvarp. Heildarsafn leikrita hans kom út árið 1994 í umsjón Jóns Viðars Jónssonar.

62hartib.jpg
Til baka