Gríma var í rauninni aldrei formlegt leikfélag eða leikhópur, heldur fyrst og fremst félag ungs leikhúsfólks um að veita ferskum straumum inn í leikhúslífið. Það átti að gera með því að sýna ný verk erlendra höfunda, sem stóru leikhúsin tvö vanræktu að dómi aðstandendanna, og ný íslensk verk sem þau treystu sér af einhverjum sökum ekki til að flytja. Orðhagur maður orðaði það eitt sinn svo að Gríma hefði í raun verið "áhugaleikhús atvinnuleikaranna" sem er að mörgu leyti vel sagt, því að kaup var lengstum harla lágt, ef nokkuð, og flestir burðarásar Grímu voru vel menntað leikhúsfólk sem átti síðar eftir að gera garðinn frægan hjá hinum stærri leikhúsum.
Þau sem hrintu Grímu úr vör voru Kristbjörg Kjeld, Erlingur Gíslason, Guðmundur Steinsson, Brynja Benediktsdóttir, Þorvarður Helgason, Magnús Pálsson og Vigdís Finnbogadóttir. Þau sjö stóðu saman að fyrstu sýningunum, en eftir fáein ár kom upp ágreiningur og kusu þau Þorvarður, Vigdís og Magnús þá að segja skilið við hin fjögur og standa að eigin sýningum undir nafni Grímu. Formlegt skipulag var það frjálslegt að þessi klofningur olli engum sérstökum vandræðum, þó að hann kunni auðvitað að hafa dregið úr krafti hópsins til lengri tíma litið.
Vart er hægt að segja annað en Gríma hafi staðið undir sanngjörnum væntingum. Hún frumsýndi verk eftir erlend skáld á borð við Jean-Paul Sartre, Max Frisch, Jean Genet, Fernando Arrabal og Ionesco, og ný verk eftir íslenska höfunda á borð við Odd Björnsson, Guðmund Steinsson og Svövu Jakobsdóttur. Gríma hafði aðstöðu í Tjarnarbíói og sýndi a.m.k. eina sýningu á hverjum vetri frá 1961 til 1970. Síðsta sýning hennar, Hvað er í blýhólknum? eftir Svövu Jakobsdóttur, var þó í Lindarbæ.
Gríma var auðvitað ekki fyrsta einkaleikhúsið, ef rétt er að nota um hana það orð, hérlendis. Revíufyrirtækin, Reykjavíkurannáll og Fjalakötturinn, voru fyrstu leikhúsin af því tagi og á sjötta áratugnum spruttu upp nokkrir hópar sem ferðuðust um landið; einna þekktastir þeirra voru Sex í bíl, Sumargestir og Sumarleikhúsið, sem Gísli Halldórsson stóð fyrir. Þó að þessir hópar réðust stundum í að sýna metnaðarfull verk, settu þau sér ekki síður að höfða til breiðs hóps áhorfenda og afla aðstandendum tekna.
Um Grímu gegndi öðru máli. Hún var einvörðungu borin uppi af hugsjón og listrænni ástríðu, vilja til að koma á framfæri skáldskap sem aðstandendur hennar töldu eiga erindi til Íslendinga, löngun til að gefa ungu listafólki færi á að þroskast í átökum við verðug verkefni. Enginn vafi er á því að hún veitti leikhúsunum samkeppni og aðhald; t.d. er það naumast tilviljun að það er fyrst eftir tilkomu Grímu að Þjóðleikhúsið lætur verða af því að koma upp litlu sviði til hliðar við hið stóra. Þó að sýningar Grímu tækjust misvel, juku þær á fjölbreytni leikhúslífsins og vísuðu veginn þeim hópum sem síðar hafa komið hér upp og setja í dag meiri svip á íslenskt leikhúslíf en nokkru sinni fyrr.
Því miður hefur saga Grímu ekki enn verið skráð eins vel og verðugt væri, en talsverð drög til hennar er þó að finna í endurminningabókum þeirra Erlings Gíslasonar og Brynju Benendiktsdóttur, Brynja & Erlingur fyrir opnum tjöldum (Reykjavík 1994) og Kristbjargar Kjeld, Kristbjörg Þorkelína (Reykjavík 1995).