Feb 24, 2020

1954


Íslenska brúðuleikhúsið hefur starfsemi sína

Ekki verður sagt með vissu hvenær fyrsta leikbrúðusýningin fór fram á Íslandi. Hitt er ljóst að fyrsta brúðusýningin, sem vekur almenna athygli í Reykjavík, var sýning Kurt Ziers og nokkurra nemenda nemenda úr kennaradeild Handíðaskóla Íslands á Faust-leik árið 1941. Brúðurnar voru smíðaðar af Zier og nemendum skólans og fékk sýningin góðar viðtökur; gekk alls tuttugu sinnum þá um veturinn. En þó að vel tækist til, varð því miður ekkert framhald á þessu starfi.

Þó að Jón E. Guðmundsson (1915-2004) væri ekki fyrstur til að halda brúðuleiksýningar hér á landi telst hann tvímælalaust faðir íslensks brúðuleikhúss. Jón rak um áratuga skeið Íslenska brúðuleikhúsið og skapaði margar sýningar sem hann ferðaðist með um allt land. Efnin voru oftast sótt í þekkt ævintýri. Fyrstu sýningar Íslenska brúðuleikhússins voru Hans og Gréta og Rauðhetta og voru þær frumsýndar í Alþýðuhúsinu í Reykjavík í desember 1954. Síðar gerði Jón leiki upp úr Eldfærum H.C. Andersens, Mjallhvíti, Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar, Manni og konu Jóns Thoroddsens, auk þess sem hann frumsamdi leikinn Yfir kaldan kjöl. Brúður Jóns voru strengjabrúður og gerðar af miklu listfengi. Jón hélt starfi sínu áfram eins lengi og kraftar entust, en lagði meiri áherslu á einfaldari sýningar síðari árin, gjarnan með aðeins einni brúðu.

Árið 1968 var Leikbrúðuland stofnað af Ernu Guðmarsdóttur, Hallveigu Thorlacius, Helgu Steffensen og Bryndísi Gunnarsdóttur sem höfðu allar hlotið nokkra skólun hjá Jóni E. Guðmundssyni. Leikbrúðuland hélt uppi samfelldri starfsemi í rúma tvo áratugi og setti upp um tuttugu sýningar. Það hafði aðstöðu á Fríkirkjuvegi 11, en ferðaðist annars um, bæði utan lands og innan. Tvær af sýningum þess, Tröllaleikir og Bannað að hlæja unnu til alþjóðlegra verðlauna.

Árið 1983 stofnaði Messíana Tómasdóttir, myndlistarmaður og leikmyndahöfundur, eigið leikhúsið, Strengjaleikhúsið, sem hefur starfað allt til þessa dags. Árið 1984 stofnaði Hallveig Thorlacius Sögusvuntuna, sem er farandleikhús hennar sjálfrar, einkum ætlað börnum, og gjarnan með sterku frásagnarívafi. Brúðubíllinn, sem einbeitir sér að dagheimilum og skólum, tók til starfa árið 1977 og voru það þau Jón E. Guðmundsson og Sigríður Hannesdóttir leikkona sem ráku hann fyrstu þrjú árin. Árið 1980 tók Helga Steffensen við Brúðubílnum og rekur hann enn. Á síðari árum hefur Helga Arnalds einnig sett upp margar sýningar með eigin leikhúsi, Tíu fingrum. Bæði Tíu fingur og Sögusvuntan hafa ferðast um allt land með sýningar sínar og einnig komið fram víða erlendis. Þá má geta þess að einn af fremstu brúðuleikhúsmönnum heims, Bernd Ogrodnik, hefur verið búsettur á Íslandi um langt árabil. Hann hefur verið með sýningar sínar að mestu leyti utanlands, en á síðari árum tekið aukinn þátt í íslensku leikhússtarfi. Sjónvarpið hefur á síðari árum orðið eðlilegur vettvangur brúðuleiks og eru sjónvarpsþættirnir um Latabæ Magnúsar Schevings, sem nú fer sigurför um Bandaríkin, eitt besta dæmið um það. Brúðurnar í þeim eru gerðar af Guðmundi Kárasyni sem er þar með orðinn einn þekktasti brúðugerðarmaður Íslendinga.

Í vitund flestra Íslendinga er brúðuleikhús sjálfsagt fyrst og fremst barnaleikhús. Það er ekki að öllu leyti óeðlilegt; Jón E. Guðmundsson einbeitti sér fyrst og fremst að hinum yngri áhorfendum og hann var um árabil sá eini sem sinnti þessu formi að ráði. Meðal þeirra þjóða sem eiga sér aldagamla hefð á þessu sviði fer því þó vitaskuld fjarri að svo sé. Leikbrúðan er í raun elsti leikarinn; árþúsunda gamlar heimildir eru um brúðuleikhús og í sumum Asíulöndum eru til mjög fjölbreytt form af því. Þegar áhugi vaknar að nýju á stílfærðu og leikrænna leikhúsi en hin evrópska raunsæishefð bauð upp á í kringum aldamótin 1900, beindist athygli manna í vaxandi mæli að leikbrúðunni og möguleikum hennar, einnig í samspili við lifandi leikara. Þessir vinnuhættir hafa því miður ekki enn náð að skila sér að ráði inn í íslenskt leikhús, en þó hafa á síðustu árum verið nokkur merki um að það sé að breytast, ekki síst fyrir tilstilli erlendra leikhúsmanna sem hingað hafa borist.

[Sýning um Íslenska brúðuleikhúsið]
Tengill

54brudul.jpg
Til baka