Feb 24, 2020

1954


Silfurlampinn veittur í fyrsta skipti

Fyrsti ballettmeistari Þjóðleikhússins var danskur, Erik Bidsted að nafni. Hann hóf störf við leikhúsið haustið 1952 og var hlutverk hans að semja og sjá um allan dans í almennum sýningunum, auk þess að kenna og þjálfa dansara. Hann samdi einnig nokkur dansverk og setti upp með nemendum sínum.

28. mars 1954 stofnuðu leikdómarar Reykjavíkurblaðanna með sér félag. Leikdómar í íslenskum blöðum og fjölmiðlum hafa löngum verið upp og ofan, að ekki sé meira sagt, en um miðja öldina tók leiklistargagnrýnin merkilegan fjörkipp. Framfarirnar í leikhúsinu áttu ugglaust sinn þátt í því að menn fundu betur þörfina fyrir vandaðri gagnrýni, gagnrýni sem gæti gert hvort tveggja: menntað og bætt smekk áhorfenda og verið leikhúsfólki nokkurt leiðarljós í viðleitni þess. Á þessum tíma koma til starfa nokkrir atkvæðamiklir gagnrýnendur sem sumir skrifuðu reglubundið um leikhúsið í mörg ár og jafnvel áratugi. Má þar nefna Sigurð Grímsson sem hóf að skrifa í Morgunblaðið árið 1943, Ásgeir Hjartarson, sem skrifaði í Þjóðviljann og Agnar Bogason, ritstjóra Mánudagsblaðsins. Ásgeir Hjartarson var að fram yfir 1970 og hafa tvö söfn verið gefin út með dómum hans, Tjaldið fellur (1958) og Leiknum er lokið (1983). Agnar Bogason hélt út á meðan blað hans kom út, en það var æði slitrótt hin síðari ár og lognaðist út af fljótlega upp úr 1980. Þá hafði hann starfað í rúma þrjá áratugi og hefur enginn íslenskur leikdómari enn slegið það met og gerir ekki í bráð.

Félag leikdómara starfaði óslitið í tuttugu ár og varð aðalverkefni þess að úthluta Silfurlampanum svonefnda. Hann var veittur árlega og lengst af fyrir það sem dómarar töldu besta leikafrek ársins. Um 1970 var reglum hans breytt á þann veg að unnt væri að veita hann fyrir önnur listræn störf í þágu leikhússins. Aðeins einn listamaður utan raða leikara fékk hann þó, áður en hann var lagður niður: Steinþór Sigurðsson leikmyndahöfundur. Atkvæðagreiðsla um verðlaunin fór þannig fram að greidd voru atkvæði samkvæmt ákveðnu stigakerfi og varð þá sá hlutskarpastur sem flest stig fékk. Silfurlampinn er ekki síst merkur fyrir þær sakir að hann er í raun fyrsta viðurkenningin sem stofnað var til og veitt reglubundið fyrir störf á sviði íslenskra lista, ekki aðeins leiklistar.

Það var Haraldur Björnsson sem hlaut Silfurlampann fyrstur manna. Lampinn var síðan veittur á hverju ári, að einu undanskildu, til ársins 1973. Þá átti að veita Baldvini Halldórssyni hann, en Baldvin afþakkaði hann formlega við afhendinguna sem átti að fara fram að lokinni síðustu sýningu leikársins á söngleiknum Kabarett. Þar með tilkynnti formaður félagsins að Silfurlampinn yrði lagður niður og fljótlega eftir það lognaðist félag leikdómara út af. Fáeinum árum var það þó endurreist með nokkrum hætti þegar heildarsamtök allra listgagnrýnenda voru stofnuð, en lítil hefur farið fyrir starfi þeirra hin síðari ár. Þrátt fyrir þessi endalok er alls ekki hægt að segja að Silfurlampinn hafi verið sérlega umdeildur. Oftast þóttu þeir, sem fengu hann, vel að heiðrinum komnir. Á sjötta áratugnum komu verðlaunin oftast í hlut Þjóðleikhúsleikara, en eftir 1960 náðu Leikfélagsmenn að jafna metin og gott betur. Aðeins þrjár leikkonur hlutu lampann, að öðru leyti kom hann í hlut karla. Skrá um Silfurlampaþega og nánari fróðleik um hann má lesa á þessari heimasíðu í dálknum Sagan (Merkisdagar íslenskrar leiklistarsögu).

Árið 1978 hóf Dagblaðið Vísir (DV) að veita verðlaun fyrir afrek á sviði lista, en þau voru ekki bundin við leiklist heldur náðu til allra listgreina. Árið 2003 stofnaði Leiklistarsamband Íslands til sérstakra leiklistarverðlauna, Grímunnar, sem eru veitt fyrir störf innan helstu starfsgreina leikhússins með hátíðlegri athöfn í sjónvarpi. Verndari Grímunnar er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

[Merkisdagur Silfurlampans]
Tengill

54silfur.jpg
Til baka