Fyrsti ballettmeistari Þjóðleikhússins var danskur, Erik Bidsted að nafni. Hann hóf störf við leikhúsið haustið 1952 og var hlutverk hans að semja og sjá um allan dans í almennum sýningunum, auk þess að kenna og þjálfa dansara. Hann samdi einnig nokkur dansverk og setti upp með nemendum sínum.
Má þar nefna Dimmalimm við tónlist Karls Ó. Runólfssonar, þar sem ungur nemandi, Helgi Tómasson, fór með hlutverk prinsins. Helgi er að sjálfsögðu sá af nemendum skólans sem lengst hefur náð og frægastur orðið, en af öðrum nemendum, sem hafa gert það gott erlendis, má nefna Maríu Gísladóttur, Hlíf Svavarsdóttur, Guðbjörgu Skúladóttur, Halldór Helgason, Þórarinn Baldvinsson, Önnu Brandsdóttur, Auði Bjarnadóttur o.fl.
Með Bidsted starfaði kona hans, Lise Kæregaard, sem var einnig listdansari. Bidsted var fær maður í sinni grein, ágætur kóreógraf, en sumum nemendum hans þótti sú danstækni, sem hann kenndi, fremur einföld, þegar þeir voru komnir í framhaldsnám erlendis. Því miður fékk hann engan verðugan arftaka, eftir að hann hvarf frá leikhúsinu um1960; á næsta áratug störfuðu þar fjórir útlendir balletmeistarar og gerðu allir stuttan stans. Það er ekki fyrr en í kringum 1970 að veruleg hreyfing kemst á málin að nýju sem leiðir til stofnunar Íslenska dansflokksins árið 1973.