Feb 24, 2020

1950


Leikritasafn Menningarsjóðs hefur göngu sína

Leikritaútgáfa skiptir leikhúsið að sjálfsögðu miklu máli, að ekki sé minnst á höfundana. Bókaútgefendur eru hins vegar sjaldnast jafn áhugasamir, enda markaður fyrir leikrit oftast miklu þrengri en fyrir annan skáldskap. Við þennan vanda hefur íslensk leikritaútgáfa strítt frá upphafi vega. Narfi Sigurðar Péturssonar kom t.d. ekki út fyrr en um tuttugu árum eftir andlát skáldsins og Fjalla-Eyvindur Jóhanns Sigurjónssonar kom ekki út í gerð, sem tók mið af endanlegri gerð leiksins á dönsku, fyrr en árið 2000.

Ritröð sú sem nefndist Leikritasafn Menningarsjóðs var merkilegt átak til eflingar innlendri leikritaútgáfu. Hún entist í um áratug og spannaði að lokum 20 leikrit, íslensk og erlend. Útgáfan var ekki síst ætluð leikfélögum landsbyggðarinnar í von um þau vönduðu til verkefnavals. Voru fyrstu leikritin valin af þjóðleikhússtjóra og bókmenntaráðunaut Þjóðleikhússins, og gefin út með stuðningi leikhússins, en síðar tók Bandalag íslenskra leikfélaga við því hlutverki. Er ekki að efa að Lárus Sigurbjörnsson var einn helsti drifkrafturinn á bak við framtakið, en hann var bókmenntaráðunautur Þjóðleikhúss fyrstu tvö ár þess og sat lengi í stjórn BÍL. Um 1990 var gerð tilraun til að endurlífga þessa útgáfu á vegum Menningarsjóðs, sem þá rak enn bókaútgáfu, en hún stóð stutt og komu aðeins fáein leikrit út að því sinni. Metnaðarfull bókaforlög á borð við Iðunni og Mál og menningu hafa á stundum gefið út ný verk íslenskra leikskálda, en fjarri fer því að allir höfundar hafi getað gengið að því vísu að sjá leikrit sín prentuð; mörg verk afkastamestu og fremstu leikskálda okkar á borð við Agnar Þórðarson, Odd Björnsson, Ólaf Hauk Símonarson og Kjartan Ragnarsson, hafa aldrei birst í bókarformi. Markvert framtak í leikritaútgáfu var sú stefna leikhússins Frú Emilíu að gefa út öll leikrit sem það sýndi, að vísu í mjög einföldum og ódýrum útgáfum í takmörkuðu upplagi. Þegar dramatúrg leikhússins, Hafliði Arngrímsson, réðist til starfa hjá L.R. í Borgarleikhúsi kom hann því til leiðar að öll leikrit, sem félagið sýndi, voru prentuð í leikskrá, en eftir að hann hvarf til annarra starfa lagðist sú útgáfa því miður af.

Verk flestra höfuðskálda íslenskrar leikritunar frá fyrri tíð hafa verið gefin út í sérstökum heildarútgáfum. Leikrit Jóhanns Sigurjónssonar komu fyrst út á árunum 1940-42 og aftur 1980. Ísafoldarútgáfa sendi frá sér leikrit Matthíasar Jochumssonar árið 1959 og AB gaf út skáldverk Guðmundar Kamban í sjö bindum árið 1969. Árið 1994 kom út heildarsafn leikrita Jökuls Jakobssonar (útg. Hart í bak) og árið 2003 heildarsafn leikrita Guðmundar Steinssonar (útg. Ormstunga), bæði söfnin í umsjón Jóns Viðars Jónssonar.

50lrmesj.jpg
Til baka