Feb 24, 2020

1950


Bandalag íslenskra leikfélaga stofnað

Áhugaleiklistin blómstraði víða um land á fyrri hluta tuttugustu aldar. Að vísu var misjafnt hversu snemma urðu til sérstök leikfélög í kaupstöðum, kauptúnum og byggðarlögum, en ein orsök þess var sú að leiksýningar reyndust oft drjúg tekjulind fyrir ýmis félög og samtök, s.s. stúkur, kvenfélög, ungmennafélög, íþróttafélög o.fl. Stundum var líka leikið í þágu góðgerðastarfs og til styrktar sjúkum og fátækum. Þegar þannig stóð á var tekjunum að sjálfsögðu ekki varið til að byggja upp aðstöðu eða auka við og viðhalda safni leiktjalda, leikmuna og annars sem þarf til sjónleikahalds. Þess voru jafnvel dæmi að ungir hugsjónamenn, sem hugðust stofna leikfélög í heimabyggð sinni, rækjust á veggi; hin stærri og grónari félög vildu þá einfaldlega ekki missa peningana til annarra. Gott dæmi er Sauðárkrókur þar sem Eyþór Stefánsson, einn helsti burðarás leikhúslífsins í áratugi, mætti litlum skilningi þegar hann ungur maður tók að hreyfa því upp úr 1930 að Sauðkrækingar þyrftu nú að eignast eigið leikfélag. Það var ekki fyrr en árið 1941 að menn voru tilbúnir að stíga slíkt skref sem varð upphaf að miklu blómaskeiði leiklistar á Sauðárkróki. Tíminn vann því með þeim sem vildu breyta þessu ástandi. Margir lögðu auðvitað leið sína til Reykjavíkur og sáu þá hvað hægt var að gera í þokkalega búnu leikhúsi og með tilkomu Ríkisútvarpsins jókst samanburðurinn við frammistöðu heimaleikara. Sjálfsagt höfðu kvikmyndasýningar einnig sitt að segja. Eftir því sem fleiri kaupstaðir og byggðir eignuðust eigin leikfélög, varð það ákveðið metnaðarmál að vera hér ekki eftirbátar annarra, einkum eftir því sem samkomuhúsum og félagsheimilum fjölgaði um og upp úr miðri öldinni.

Aðstaða leikfélaganna var hins vegar erfið um margt, einkum hvað varðaði öflun leikrita. Það var því ekki nema eðlilegt að verkefnavalið drægi dám af því sem var leikið í Reykjavík; fámenn og fátæk leikfélög hafa sjaldnast burði til að láta semja eða þýða fyrir sig leikrit; það var öruggara að veðja á það sem hafði "gert sig" í höfuðstaðnum - sem að sínu leyti horfði löngum til þess sem hafði "gert sig" í Kaupmannahöfn eða London. Þó voru þess nokkur dæmi að skáldhneigðir heimamenn semdu metnaðarfull leikrit til flutnings í sinni heimabyggð. En verkefnavalið vildi þó almennt verða af léttara tagi; farsar Arnolds & Bach, sem L.R. frumsýndi á þriðja og fjórða áratugnum, urðu snemma mjög vinsælir, hinum vandlátari til lítillar gleði. Þá áttu mörg hinna gömlu "þjóðlegu" leikrita, með Skugga-Svein í fararbroddi, sér fastan sess í hjarta þjóðarinnar. En það var ekki hægt að leika þau æ ofan í æ, menn urðu að finna eitthvað nýtt, svona inn á milli, og hvert átti þá að snúa sér frekar en til leikhúsfólksins í Reykjavík sem reyndi að verða við óskum manna eftir bestu getu. Haraldur Björnsson kveðst t.d. í endurminningum sínum hafa haft mikið fyrir því að senda fólki úti á landi leikrit og sjaldnast fengið þau endursend. En félögin þurftu að sjálfsögðu fleira en texta, s.s. leikmuni og ýmislegt til leikgerva, andlitsfarða o.þ.h., og þá gat verið gott að geta leitað til Leikfélags Reykjavíkur um slíkt. Íslensk leiklist tók miklum framförum á fimmta og sjötta áratug aldarinnar og þær framfarir voru öllum sýnilegar. Því mátti öllum hugsandi mönnum vera ljóst að áhugamannaleikhúsið gæti dregist aftur úr, staðnað og jafnvel koðnað niður, ef ekki yrði leitast við að efla það markvisst. Það var líka ákveðið hagsmunamál leikarastéttarinnar að koma í veg fyrir slíka þróun. Leikfélögin voru í vaxandi mæli tekin að leita eftir leikstjórum með reynslu og menntun og þarna var því að skapast nýr starfsvettvangur fyrir leikhúsfólk. Þá var sýnt að ungt hæfileikafólk gæti fundið kröftum sínum farveg í leikfélögunum, enda hafa ýmsir af fremstu leikurum okkar fyrr og síðar byrjað ferilinn sem áhugaleikarar.

Stofnun Bandalags íslenskra leikfélaga í Reykjavík 14. ágúst 1950 var þýðingarmikið skref til eflingar áhugamannaleikhúsinu. Frumkvæðið kom frá þeim Ævari R. Kvaran, leikara og leikstjóra, Lárusi Sigurbjörnssyni og Þorsteini Einarssyni sem sendu út boðsbréf til nokkurra félaga og samtaka þá um vorið. Á stofnfundinum var Ævar R. Kvaran kjörinn formaður og gegndi hann því embætti til 1957.

BÍL hóf fljótlega rekstur skrifstofu í Reykjavík og var Sveinbjörn Jónsson fyrsti framkvæmdastjóri þess. Aðrir sem gegnt hafa starfi framkvæmdastjóra eru Helga Hjörvar, Sigrún Valbergsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og nú síðast Vilborg Valgarðsdóttir. Félagið varð aðili að Nordisk Amatörteaterråd 1970 og samtökum norrænna áhugaleikfélaga, og IATA, alþjóðasamtökum áhugaleikhúsa, árið 1973. Þá hefur BÍL staðið fyrir námskeiðum, leiklistarhátíðum og ýmsu öðru starfi í þágu áhugaleiklistarinnar. Árið 1984 var fréttabréfi BÍL breytt í leiklistartímarit, Leiklistarblaðið, sem enn kemur út og er hið eina sinnar tegundar sem haldið hefur lífi svo lengi hér á landi. Nú eru rúmlega sextíu félög í BÍL og má finna margvíslegar upplýsingar um þau og starfsemi samtakanna á vef þeirra, leiklist.is.

Rétt er að geta þess að ítarlegt rit um sögu íslenskrar áhugaleiklistar eftir Bjarna Guðmarsson er í undirbúningi og mun það væntanlegt innan tíðar.

50bandal.jpg
Til baka