Feb 24, 2020

1947


Félag íslenskra listdansara stofnað

Þær Stefanía Guðmundsdóttir og Guðrún Indriðadóttir voru báðar miklar áhugakonur um dans, jafnt almennan samkvæmisdans sem listdans. Þær kenndu báðar dans og æfðu dansa í leiksýningum þegar á þurfti að halda. Guðrún gerði t.d. dansa í sýningu Nýársnæturinnar árið 1907 og Stefanía gekkst fyrir a.m.k. þremur sýningum með dansi á sviðinu í Iðnó. Haustið 1914 sýndi hún þar m.a. tangó sem hún hafði kynnst í Kaupmannahöfn í ferð sinni þangað skömmu áður. Tangóinn fór þá sem eldur í sinu um Vesturlönd og þótti afar djarfur, reyndar svo djarfur að Píus páfi X bannaði kaþólskum að iðka hann. Í staðinn mælti páfi með öðrum dansi, gömlum feneyskum dansi, sem var þá að sjálfsögðu uppnefndur páfadansinn og Stefanía hafði reyndar líka á prógramminu.

Einn af nemendum þeirra Stefaníu og Guðrúnar var Ásta Norðmann sem stóð fyrir danssýningu í Iðnó 21. október 1922. Hún hafði þá dvalist í Leipzig í Þýskalandi um tíma og kynnst nýjustu stefnum og straumum á sviði danslistarinnar. Ásta starfaði síðar sem danskennari í Reykjavík um árabil auk þess sem hún samdi dansa og kom fram ásamt nemendum sínum í leiksýningum. Talsverð gróska var í danskennslu hér á landi á árunum upp úr 1930 og var oft um blandaða kennslu að ræða, samkvæmisdansa, ballet og barnadansa. Nemendasýningar voru vinsælar meðal bæjarbúa. Erlendir gestakennarar komu hingað stundum og dvöldu nokkra hríð, s.s. Kaj Smith sem verið hafði ballettmeistari Kgl. leikhússins í Kaupmannahöfn. Fyrsti formaður FÍLD, sem var stofnað 2. mars 1947, var Ásta Norðmann, en stofnfélagar auk hennar voru Sigríður Ármann, Sif Þórz, Rigmor Hansen og Elly Þorláksson. Markmið félagsins var að gæta hagsmuna íslenskra danslistamanna og efla íslenskan listdans. Í því skyni hefur félagið beitt sér fyrir námskeiðahaldi, rekið skóla og dansflokk, og nú er á vegum þess verið að vinna að ritun heildarsögu listdans á Íslandi.

Um og upp úr 1950 var talsverð gróska á vettvangi listdansins. Á Listamannaþingi, sem var haldið í tilefni af opnun Þjóðleikhússins 1950, var frumfluttur ballettinn Eldur eftir Sigríði Ármann við tónlist eftir Jórunni Viðar og hefur hann verið talinn fyrsti íslenski balletinn. Þær Sigríður og Jórunn unnu einnig saman að ballettinum Ólafi Liljurós sem var sýndur í Iðnó með óperunni Miðlinum árið 1952.

47danssy.jpg
Til baka