Feb 24, 2020

1943


Fjalakötturinn h/f stofnaður

Revíusýningar lágu niðri í Reykjavík fram eftir fjórða áratugnum, en árið 1938 var enn blásið til sóknar og sýningar hafnar að nýju undir merkjum Reykjavíkurannáls. Burðarásar revíunnar að þessu sinni voru þeir Haraldur Á. Sigurðsson, einn vinsælasti skopleikari Reykvíkinga fyrr og síðar, Indriði Waage, Emil Thoroddsen og Alfred Andrésson. Alfred er einn snjallasti kómíker sem hér hefur verið; þurfti ekki annað en sýna sig á sviðinu til að áhorfendur færu að hlæja. En Alfred var líka mjög vandaður og kröfuharður listamaður sem réð yfir fágaðri leiktækni. Hann þráði alltaf að sanna sig sem dramatískan leikara, en því náði hann ekki á starfsævi sem varð alltof stutt, því að hann lést árið 1955 aðeins 47 ára gamall. Lítill vafi er á því að hann hefði getað orðið frábær tragíkómískur leikari eins og t.d. Bessi Bjarnason varð hjá næstu kynslóð, en kannski var tími slíkra krafta ekki enn runninn upp á íslensku sviði.

Fjalakötturinn var stofnaður árið 1943 og var gamanleikurinn Leynimelur 13 fyrsta verkefni hans. Hann starfaði til 1948 og voru flestar sýningarnar revíur, þó með tveimur undantekningum: Manni og konu 1945 og Meðan við bíðum eftir Johan Borgen, norskum leik með táknlegum skírskotunum sem var fluttur í tilefni 25 ára leikafmælis Indriða Waage árið 1948.

Eftir fráfall Emils Thoroddsen árið 1944 gekk Tómas Guðmundsson skáld til liðs við fyrirtækið og annaðist textagerð og þýðingar. Tómas var ágætur húmoristi og ljáði fyrirtækinu þann bókmenntalega virðingarsvip sem það taldi sig þurfa á að halda.

Þó að Fjalakötturinn legði upp laupana árið 1948, héldu aðstandendur hans áfram starfi sínu undir merkjum "Bláu stjörnunnar" í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (hét síðar Sigtún, nú NASA). Þær sýningar voru í mun meiri kabarett-stíl en revíurnar sem höfðu oftast einhvern vísi af söguþræði, þó að oft væri skotið inní þær sjálfstæðum atriðum, s.s. skopstælingum á hinum háalvarlegu sýningum L.R. Hjá Bláu stjörnunni var hins vegar í boði blanda ýmissa skemmtiatriða, litlir leikþættir og frjálsleg gamanmál, söngur, dans o.fl., stundum með innfluttum skemmtikröftum. Blómaskeið Bláu stjörnunnar stóð tiltölulega stutt, enda varð Indriði Waage starfsmaður Þjóðleikhússins árið 1950, auk þess sem veikindi og fráfall Alfreds Andréssonar voru mikið áfall.

Á næstu árum voru stöku sinnum gerðar tilraunir til að blása nýju lífi í revíuna. Þar voru jafnt að verki einstakir áhugamenn sem leikhúsin tvö, Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið. En þessar tilraunir báru ekki umtalsverðan árangur. Blómaskeið revíunnar í sínu gamla formi var á enda runnið og í sjálfu sér ekki óeðlilegt að menn litlu um öxl til þess með nokkrum söknuði; kannski var það sú eftirsjá sem hefti sköpunargáfu manna. Reykjavík var einfaldlega að verða svo stór að ekki var lengur hljómgrunnur fyrir jafn persónulegu skopi og áður hafði verið; ekki lengur hægt að ganga að því sem vísum hlut að allir þekktu alla í sama mæli og fyrr. Jafnvel gamla stórstjarnan Haraldur Á. Sigurðsson náði ekki lengur flugi þegar félagar hans, Indriði Waage og Alfred Andrésson, voru horfnir á braut. Eins og öll önnur leiklist byggðist revían á samstilltu átaki hæfileikaríks hóps; þegar sá hópur leystist upp og ekki tókst að skapa nýjan, komust menn ekki áfram.

En revían, hin félagslega gagnrýna og ærslafengna leiklist, dó ekki út, hún fann sér aðeins nýtt form og nýjan vettvang. Hér reyndist framtíðin heyra til ljósvakamiðlunum með sínum miklu áhorfendafjölda sem vonlaust var fyrir leikhúsin að keppa við. Ríkisútvarpið fór að vísu lengstaf mjög varlega í þessum efnum, en um 1970 vöktu Matthildingarnir svonefndu (Hrafn Gunnlaugsson, Þórarinn Eldjárn og Davíð Oddsson) mikla hrifningu með þættinum Útvarp Matthildur þar sem var gantast var með málefnin af ósviknu fjöri, vitsmunalegum grallaraskap. Þá var áramótaskaup Sjónvarpsins raunar komið til sögunnar með satírískri sýn á atburði liðins árs. Hélt Flosi Ólafsson því uppi í allmörg ár og finnst ýmsum, sem muna hans tíma, að skaupið hafi sjaldan eða aldrei náð sama flugi og það gerði í höndum hans; a.m.k. eignaðist Flosi engan arftaka sem unnt er að nefna í sömu andrá og hann. Í raun og veru gerðist það ekki fyrr en Spaugstofan kom til sögunnar undir lok níunda áratugarins, en hún hefur löngu unnið sér fastan sess sem helsti vettvangur sjónvarpssatírunnar. Þó að stundum heyrist raddir um að skopskyn hennar sé orðið dálítið staðnað hefur öðrum spaugurum með annan smekk ekki enn tekist að skjóta henni ref fyrir rass.

Mynd: Indriði Waage

fsindwaa.jpg
Til baka