Feb 24, 2020

1941


Félag íslenskra leikara stofnað

Um 1930 mun fyrst hafa verið fitjað upp á því að stofna stéttasamtök leikara, en án árangurs. Er ekki ólíklegt að það hafi tengst stofnun Bandalags íslenskra listamanna árið 1928, en því var í upphafi skipt í þrjár deildir: rithöfunda, myndlistar- og tónlistarmanna. Það er skiljanlegt að þessi tilraun skyldi ekki takast; kynslóðaskipti voru þá nýlega orðin í leikhúsinu, burðarleikarar fyrstu áratuganna horfnir á braut og þorri leikenda ungt fólk og reynslulítið. Þar við bættist að miklar væringar voru innan hópsins og héldu áfram næstu ár.

Áratug síðar höfðu aðstæður breyst nokkuð til hins betra. Leikhúsið hafði staðið af sér erfiðleika undangenginna ára og framundan voru gróskutímar. Fjölgað hafði í hópnum og hann átti brátt eftir að vinna marga og góða sigra. Þá var L.R. ekki lengur eini vinnuveitandinn; nú þurfti einnig að semja við Ríkisútvarpið um kaup og kjör. Þó að hætt hefði verið við Þjóðleikhúsbygginguna í miðjum klíðum og hún stæði hálfköruð á bak við Safnahúsið, hlaut hennar tími að koma. Framtíðin var þó enn óviss og valt að treysta á lukkuna eina. Breski herinn hafði nú lagt húsið undir sig og breytt því í birgðageymslu, en Leikfélagið hafði áður haft þar aðstöðu til leiktjaldamálunar. Hernámsliðið hafði einnig hreiðrað um sig í Landssímahúsinu, þar sem Útvarpið var til húsa, og einnig þar tekið að þrengja að leikurum. Allt ýtti þetta undir að leikarar ýttu gömlum ágreiningsefnum til hliðar og stæðu saman um hin stærri hagsmunamál. En samheldnin var auðvitað ekki mikil innan hópsins, ef ekki dugði minna til en breska heimsveldið sjálft til að þjappa mönnum saman.

Fyrstu stjórn FÍL, sem var stofnað 22. september 1941, skipuðu þeir Þorsteinn Ö. Stephensen, sem var formaður, Haraldur Björnsson, ritari, og Lárus Pálsson, gjaldkeri. Vert er að gefa því gaum að þetta voru einmitt þeir menn sem höfðu aflað sér menntunar utanlands, Þorsteinn að vísu án þess að ljúka prófi. Félaginu var fyrst og fremst ætlað að standa vörð um launakjör leikara, en þeir hagsmunir voru samofnir baráttunni fyrir atvinnuleikhúsinu sem sumum, og kannski öllum þorra fólks, fannst enn fjarstæðukennd hugsýn. Það hlaut t.d. að skipta máli að sjónarmið leikhúsfólks kæmu fram þegar rekstur hins nýja leikhúss yrði skipulagður. Einn helsti hvatamaður að byggingu Þjóðleikhúss á sínum tíma, Jónas Jónsson frá Hriflu, var þeirrar skoðunar að leikhúsið nýja ætti að vera fyrir áhugaleikara; það kemur skýrt fram í riti hans um byggingarsögu Þjóðleikhússins. En þegar hér var komið sögu var hann orðinn áhrifalítill í stjórnmálum og við teknir yngri menn með heldur víðari útsýn, a.m.k. í þessum efnum. Í lögum FÍL var sérstaklega tekið fram að eitt af markmiðum þess væri að örva alla leiklist í landinu og stuðla að viðgangi hennar og þroska. Meðal þess sem félagið hugðist gera í því skyni var að gefa út tímarit fyrir leiklist og beita sér fyrir góðri og uppbyggilegri leiklistargagnrýni í blöðum og tímaritum.

Á síðari árum hefur FÍL þróast í að verða heildarsamtök leikhúsfólks og tekið inn fyrir vébönd sín bæði söngvara, dansara og leikmyndahöfunda. Þessi þróun átti sér stað á sjöunda áratugnum, en einkum þó þeim áttunda og var skipulagi FÍL breytt til samræmis við það. Breytingarnar mættu talsverðri andstöðu meðal eldri leikara, en yngri kynslóð með öfluga formenn á borð við Klemenz Jónsson (1967-1975) og Gísla Alfreðsson (1975-1983) í fararbroddi hafði sitt fram. Þá batnaði aðstaða félagsins mjög, er það eignaðist húseignina Lindargötu 6 snemma á níunda áratugnum, þar sem það hefur starfað síðan.

Mynd: Þorsteinn Ö. Stephensen fyrsti formaður FÍL

fstoroto.jpg
Til baka