Feb 24, 2020

1940


Lárus Pálsson kemur til starfa

Lárus Pálsson hélt að loknu stúdentsprófi frá M.R. árið 1934 til náms við skóla Kgl. leikhússins í Kaupmannhöfn. Þaðan lauk hann leikaraprófi árið 1937. Hann starfaði næstu þrjú ár á dönsku sviði, fyrri tvö árin í Kgl. leikhúsinu, en hið síðasta á Riddersalen í leikhópi undir stjórn Sams Besekow, eins fremsta leikstjóra Dana á síðustu öld. Haustið 1940 kom Lárus heim með Petsamo-förinni svonefndu, síðustu skipaferð til landsins áður en styrjaldarátökin tóku fyrir allar samgöngur á milli Íslands og meginlands Evrópu.

Á Íslandi biðu Lárusar margvísleg tækifæri. Hann starfaði jöfnum höndum sem leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur, auk þess sem hann vann mikið við Útvarpið. Hann stofnaði leiklistarskóla og hafði með kennslu sinni varanleg áhrif á marga þeirra ungu leikara sem þar fengu fyrstu tilsögn í frumatriðum listarinnar. Sem leikari og leikhúsmaður var Lárus eðlilega mótaður af danskri raunsæishefð, en hann hafði einnig kynnst náið dönskum gamanleik og var sjálfur afburða kómíker; réði jafnt við fágaðan stíl nútíma gamanleikja og þann ýkta leikmáta sem farsar og klassískir gamanleikir Holbergs og Moliéres kalla á. Má því til staðfestingar benda á að meðal frægustu persóna hans voru Óvinurinn í Gullna hliði Davíðs Stefánssonar og Jón Grindvicensis í Íslandsklukku Laxness sem eru hvort tveggja kómískar persónur, en með gerólíkum blæ. Lárus var ekki mikill fyrir mann að sjá á leiksviðinu, pervisinn í vexti og ekki smáfríður, en hann bætti þær takmarkanir upp með framsögn og textameðferð sem við fátt verður jafnað. Sem leikstjóri var hann vandlátur í verkefnavali og setti upp bæði ný leikrit og klassísk, íslensk og útlend; það var ekki síst fyrir tilstuðlan hans að Shakespeare komst aftur á blað á íslensku sviði. Hann átti mikinn þátt í þeim listrænu framförum sem urðu hjá L.R. á fimmta áratugnum, þó að aldrei megi gleyma því að Indriði Waage hafði með vinnu sinni með leikurunum undanfarin fimmtán ár lagt undirstöðu sem Lárus gat nú byggt á. Bæði Indriði og Haraldur Björnsson höfðu orðið að brauðfæða sig með öðrum störfum til hliðar við leikstarfið, en Lárus er fyrsti leikari okkar og leikstjóri sem hefur fulla atvinnu af störfum sínum við sviðið og í tengslum við það.

40larpal.jpg
Til baka