Feb 24, 2020

1934


Óperettusýningar hefjast í Reykjavík

Það kann að vera nokkurt fræðilegt álitamál hvað eigi að telja fyrstu óperettusýninguna - og raunar einnig óperusýninguna. Svo mikið er þó víst að á fjórða áratug aldarinnar og nokkuð fram á þann fimmta tekur flutningur léttra söngleikja mikinn fjörkipp í Reykjavík. Jólin 1931 frumsýndi L.R. þýskan söngleik, sem í þýðingu nefndist Lagleg stúlka gefins og er byggður á skopleik eftir Franz Cornelius og Ernst Neubach með tónlist eftir Hans May. Leikurinn var þýddur og staðfærður af þeim Emil Thoroddsen og Tómasi Guðmundssyni, leikstjóri var Haraldur Björnsson, hljómsveitarstjóri Bjarni Þórðarson. Hann fékk góða aðsókn (14 sýningar), en ýmsum þótti staðfærslan bera nokkurn keim af revíum Reykjavíkurannáls. Þau Friðfinnur Guðjónsson og Gunnþórunn Halldórsdóttir, sem höfðu oftast leikið hjónin í revíunum, gerðu það einnig hér, en "dóttir" þeirra, stúlkan sem þau fá gefins, var leikin af Sigrúnu Magnúsdóttur. Sigrún átti eftir að verða vinsælasta "stjarna" óperettunnar á reykvísku sviði næstu ár; hún bjó yfir þeim þokka, þeirri leikgleði og tækni sem til þurfti, ein besta "súbrette", eins og þessi persónutegund er gjarnan nefnd upp á frönsku, sem við höfum átt.

Um þessar mundir ríkti mikil gróska í reykvískum tónlistarmálum. Hljómsveit Reykjavíkur hafði starfað frá því árið 1925 og árið 1930 var Tónlistarskóli Reykjavíkur stofnaður. Tveimur árum síðar var Tónlistarfélag Reykjavíkur stofnað af Ragnari Jónssyni í Smára og ýmsum öðrum áhugamönnum. Það félag var bakhjarl bæði skólans, sem Páll Ísólfsson stýrði, og hljómsveitarinnar, en stjórnandi hennar frá 1929 var Vínarbúinn dr. Franz Mixa. Þessir kraftar höfðu mikinn áhuga á því að hefja söngleikjaflutning og var þegar árið 1933 leitað eftir samvinnu við L.R. um sýningu á óperettu sem ekkert varð þó úr. Árið 1934 setti hljómsveitin hins vegar sjálf upp óperettuna Meyjarskemmuna, sem er byggð á lögum Schuberts. Leikstjóri var Ragnar E. Kvaran og hljómsveitarstjóri Franz Mixa. Þar komu fram ýmsir góðir söngkraftar og varð sýningin feykivinsæl, enda mikið í hana lagt. Að öllu samanlögðu verður því að telja hana meiri tímamótaviðburð en fyrrnefnda sýningu L.R. árið 1931. Á næstu árum voru nokkrar óperettur sýndar í Iðnó, flestar á vegum Tónlistarfélagsins og Hljómsveitar Reykjavíkur. 30. mars 1937 var Systirin frá Prag eftir Wenzel-Müller, frumsýnd og hefur stundum verið nefnd fyrsta óperusýningin, þó að um það kunni að mega deila. Aðalhlutverkið söng Pétur Á. Jónsson óperusöngvari sem var þá sestur að hér heima eftir glæstan söngferil í Þýskalandi. Leikstjóri var Bjarni Guðmundsson, hljómsveitarstjóri Franz Mixa. Árið eftir var Bláa kápan eftir Walter og Willi Kollo sýnd undir leikstjórn Haralds Björnssonar, en hljómsveitarstjóri var sem fyrr Franz Mixa. Í ársbyrjun var Meyjarskemman aftur dregin fram, nú undir stjórn Haralds og dr. Victors Urbancic sem tók við starfi Mixa eftir að hann fluttist úr landi. Bæði Bláa kápan og Meyjarskemman hlutu afbragðs undirtektir, en stóri "smellurinn" varð þó hin gamalkunna og sívinsæla Nitouche eftir Florimond Hervé sem var frumsýnd árið 1941 í samvinnu L.R. og hljómsveitarinnar. Átti rómaður samleikur þeirra Sigrúnar Magnúsdóttur í hlutverki Denise og Lárusar Pálssonar í hlutverki söngkennarans Celestin ekki minnstan þátt í vinsældum sýningarinnar. Árið 1944 var svo fyrsta íslenska óperettan frumsýnd, Í álögum eftir Sigurð Þórðarson. Þetta fyrsta blómaskeið íslensks söngleikjahúss byggðist auðvitað á því að hér voru að koma fram listrænir kraftar, sem undir forystu erlendra kunnáttumanna á borð við Mixa og Urbancic, gátu haldið því uppi. En áhorfendur þyrsti einnig í afþreyingu af þessu tagi. Söngleikir og óperettur hafa svo sem alltaf verið fallin til vinsælda, en aldrei var þó betra að flýja um stund inn í hin "brosandi lönd" óperettunnar en á tímum kreppu og styrjaldarógna.

34opera.jpg
Til baka