Feb 24, 2020

1931


Fyrsta leikför Leikfélags Reykjavíkur út á land

Leikferðir hafa tíðkast mun lengur hér á landi en margur hyggur. Þegar fyrir aldamótin 1900 má finna þess dæmi að menn brygðu sér í önnur byggðarlög með sýningar sem þeim fannst eiga erindi til annarra. Ekki hafa þessar ferðir verið kortlagðar sérstaklega af fræðimönnum, fremur en margt annað í leiklistarsögu okkar, en vel má vera að Norðlendingar hafi hér gengið á undan flestum öðrum með góðu fordæmi.

Vorið 1931 hélt L.R. í leikför til Akureyrar með sýningu sína á Hallsteini og Dóru eftir Einar H. Kvaran. Það var leikstjórinn Haraldur Björnsson sem stóð fyrir henni. Á þessum tíma var Haraldur hæstráðandi í ábyrgðarmannafélaginu svonefnda, sem annaðist rekstur leikhússins frá 1930-1933, og beitti sér fyrir ýmsum nýungum, t.d. var fyrsta óperettan sýnd í hans tíð og sömuleiðis fyrsta barnaleikritið. Hallsteini og Dóru var vel tekið af Akureyringum og sýnd þar sex sinnum.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem reykvískir leikarar héldu út fyrir höfuðstaðinn að sýna list sína. Guðrún Indriðadóttir lék Höllu Jóhanns Sigurjónssonar bæði í Kanada árið 1913 og á Akureyri 1922 og Stefanía Guðmundsdóttir fór tvívegis til Akureyrar á árunum 1915 - 16 ásamt Óskari syni sínum, að ekki sé minnst á hina miklu leikför hennar til Vesturheims á árunum 1920-21. Þessar ferðir fór Stefanía á eigin vegum og fékk alltaf nokkra mótleikaranna úr röðum heimamanna; að því leyti voru þetta "stjörnu-sýningar" af því tagi sem voru algengar víða um lönd á þessum tíma. En á heildina litið heyrðu slíkar ferðir til undantekninga. Það eitt var ærinn starfi að halda leikstarfsemi uppi í Reykjavík á fyrstu áratugum aldarinnar og litlir kraftar aflögu að leyfa landsbyggðinni að njóta góðs af. En á fjórða áratugnum verður þarna mjög greinileg breyting á. Leikferðin 1931 markar upphafið að því; nú er það Leikfélagið sjálft sem stendur fyrir ferðinni og fer með eigin leikhópi, þó að vísu kæmi fyrir að heimafólki væri kippt inn í einstök hlutverk. Á næstu árum verður æ algengara að leikarar úr Reykjavík fari í slíkar ferðir, stundum "fyrir eigin reikning" og stundum í boði leikfélaga; t.d. fór hinn ástsæli gamanleikari Haraldur Á. Sigurðsson víða um land og lék Þorlák þreytta á móti heimaleikurum. En menn víla ekki fyrir sér að fara með stærri sýningar, ef ástæða þykir til; t.d. fer Tónlistarfélagið með vinsæla óperettusýningu sína á Bláu kápunni í leikför um Norðurland árið 1938 og árið 1941 fer L.R. með sýningu sína og Tónlistarfélagsins á Nitouche til ýmissa staða norðanlands.

Það er nokkuð augljós að hvatinn að leikferðum þessum var oftast tvíþættur. Annars vegar vildu menn leyfa íbúum landsbyggðarinnar að njóta góðs af því sem var í boði í höfuðstaðnum. Leikhúsið þurfti að styrkja stöðu sína til að öðlast fulla viðurkenningu samfélagsins sem alvöru listgrein. Með tilkomu Ríkisútvarpsins voru helstu leikararnir allt í einu orðnir þjóðkunnar persónur og leikferðirnar styrktu tengslin við allan almenning í landinu. Þær sýndu líka vilja reykvískra leikara til að verða áhugaleikurum í kaupstöðum og sveitum góð fyrirmynd.

Á hinn bóginn var hvatinn einnig fjárhagslegur; menn hefðu að sjálfsögðu ekki lagt út í slík ævintýri hefðu þeir ekki haft góðar vonir um að þau myndu skila þeim nokkrum ábata. Nú kom á daginn að umtalsverður leiklistarmarkaður var utan höfuðstaðarins og leikurum, sem fengu lítil og óviss laun fyrir allt starf sitt, veitti sannarlega ekki af því að drýgja tekjurnar. Þegar ungir leikarar, margir nýkomnir úr námi erlendis, taka að mynda ferðaleikflokka um og upp úr 1950 (Sex í bíl, Sumargestir o.fl.), er ekki að efa að menn höfðu hvorttveggja á bak við eyrað: að sýna landsmönnum góð leikrit, lyfta leiklistarsmekk þeirra upp á hærra stig, og bæta eigin afkomu. Þetta tvennt hlaut að haldast í hendur og það var ekkert óeðlilegt við það.

fsharbjo.jpg
Til baka