Feb 24, 2020

1927


Haraldur Björnsson og Anna Borg útskrifast sem leikarar frá leiklistarskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn

Þó að L.R. hefði haldið uppi metnaðarfullu starfi um áratugi og góðar horfur virtust á því að Þjóðleikhúsið opnaði senn dyr sínar, fór því fjarri að almennur skilningur væri á nauðsyn þess að leikarar öfluðu sér menntunar í erlendum skólum með lífsstarf í huga. Jafnvel innan Leikfélags Reykjavíkur voru margir á því að engin sérstök þörf væri á formlegri skólun; það væri alveg nóg að menn lærðu af því að æfa sig á sviðinu og fylgjast með aðeins skárri leikendum en þeir væru sjálfir. Reynslan væri besti skólinn. M.a.s. maður á borð við Indriða Einarsson lét þetta viðhorf í ljós, en kannski tengdist það því að fjölskylda hans náði undirtökum í Leikfélagi Reykjavíkur á síðari hluta þriðja áratugarins.

1927anna   1927harb

Ef skoðanir af þessu tagi hefðu ráðið ferðinni, hefði íslensk leiklist aldrei komist af stigi áhugamennskunnar. Haraldur Björnsson var mjög ósammála þeim og það var Stefanía Guðmundsdóttir einnig. Hún hafði sjálf verið áheyrnarnemandi við skóla Kgl. Leikhússins í Kaupmannahöfn veturinn 1904-05 og með því orðið fyrst íslenskra leikara til að afla sér menntunar í faginu, þó að persónulegar aðstæður leyfðu henni ekki að stunda fullgilt leikaranám. Nú beitti hún sér fyrir því að Anna Borg, dóttir hennar, færi til náms við sama skóla og nýtti til þess samband sitt við Adam Poulsen. Þau Haraldur Björnsson hófu þar nám haustið 1925 og luku prófi árið 1927, fyrst íslenskra leikara. Lokaverkefni þeirra var sýning á fjórða þætti Fjalla-Eyvindar á sviði leikhússins undir stjórn kennara þeirra, Nicolai Neijendam. En vegir þeirra tveggja urðu ólíkir; Anna Borg ílentist í Danmörku og varð þar þjóðkunn leikkona, en Haraldur hélt til Íslands til að starfa þar sem leikari og leikstjóri.

Harald Björnsson dreymdi um að helga sig list sinni óskiptur, en aðstæður leyfðu það ekki. Fyrstu árin eftir að hann kom heim starfaði hann að vísu sem leikari og leikstjóri í fullu starfi, í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði, en árið 1930 réði hann sig sem kennara við Austurbæjarskólann. Þar vann hann til 1950 er hann varð leikari og leikstjóri við Þjóðleikhúsið.

Í sjálfsævisögu sinni lýsir Haraldur því hversu illa sér var tekið af leikurunum í L.R. þegar hann kom heim. Hann var "óvelkominn listamaður" og það gat jafnvel gerst að götustrákarnir hrópuðu á eftir honum: "atvinnuleikari!" í háðungarskyni. Í ævisögunni lætur Haraldur á sér skilja að orsökin hafi verið sú að viðvaningarnir í L.R. kærðu sig ekki vinna með kröfuhörðum fagmanni sem vildi m.a.s. banna þeim að neyta áfengis í vinnunni. En málið var sjálfsagt flóknara en svo. Það er alveg ljóst að þeim laust þarna saman, Haraldi og Indriða Waage, sem var einnig ungur maður á uppleið og hafði á bak við sig sína stóru fjölskyldu. Á árunum 1930-33 var rekstur leikhússins færður undir stjórn svokallaðs ábyrgðarmannafélags og réðu Haraldur og stuðningsmenn hans þar ferðinni. Haraldur var kappsamur og dugmikill, metnaðarfullur og einlægur hugsjónamaður; t.d.vann hann það afrek að halda einn og óstuddur úti fyrsta íslenska leikhústímaritinu, Leikhúsmálum, sem kom reglulega út á árunum 1940-1950. En hvað sem allri menntun leið var Indriði Waage fullkominn jafnoki hans sem leikari og leikstjóri, ef nokkuð var gott betur. Styrkur Indriða var náið samband hans við ýmsa burðarleikara L.R., lagni hans við að kalla hæfileikafólk til liðs við leikhúsið, en vera má að Haraldur hafi ekki alltaf verið sérlega lipur eða sveigjanlegur í samskiptum, líkt og stundum er títt um viljafasta málafylgjumenn. Eftir að ábyrgðarmannafélagið leið undir lok og L.R. tók aftur við leikhúsrekstrinum var Haraldi Björnssyni ýtt til hliðar og það er ekki fyrr en eftir 1940, þegar aðstæður breytast á ný, að hann fær að njóta sín, einkum þó sem leikari.

Með námi sínu í skóla Kgl. leikhússins gáfu þau Haraldur Björnsson og Anna Borg mikilvægt fordæmi sem nokkrir ungir leikarar fylgdu á næstu árum, þó að ekki lykju allir formlegu prófi: Sigrún Magnúsdóttir frá Ísafirði, Regína Þórðardóttir, Þorsteinn Ö. Stephensen og Lárus Pálsson. Flestir leikarar af þeirra kynslóð fóru þó ekki til formlegs náms erlendis. Sumir töldu sig ekki hafa aðstæður til slíks; ekki má gleyma því að heimskreppan mikla lá eins og dimmur skuggi yfir öllu þjóðlífinu og það var í raun ekki fyrr en "blessað stríðið" kom að efnahagur þjóðarinnar batnaði. Það var fyrst næsta kynslóð íslenskra leikara sem leitaði sér almennt fullgildrar skólunar í faginu.

Myndir: Haraldur Björnsson og Anna Borg

1927anna.jpg
Til baka