Feb 24, 2020

1926


Fyrsta Shakespeare-sýning á Íslandi

Það var Matthías Jochumsson sem með þýðingum sínum á fjórum harmleikjum Shakespeares kynnti verk hans fyrstur fyrir Íslendingum, svo um munaði. Þýðingar hans á Macbeth, Hamlet, Othello og Rómeó og Júlíu voru prentaðar í Reykjavík á árunum 1874-1887. Þá þýddi Steingrímur Thorsteinsson Lé konung (pr. Reykjavík 1878) og Eiríkur Magnússon Storminn (The Tempest; Reykjavík 1885, frumtexti og þýðing).

En það var ekki fyrr en á þriðja áratug tuttugustu aldar að leikhúsið treysti sér til að leggja til glímu við verk Shakespeares. Þá sýndi L.R. Þrettándakvöld í nýrri þýðingu Indriða Einarssonar og fór frumsýningin fram í Iðnó á afmælisdegi skáldsins, 23. apríl 1926. Leikstjóri var Indriði Waage. Sýningin fékk ágætis aðsókn og gekk 14 sinnum. Um jólin færði félagið svo upp Vetrarævintýri Shakespeares sem einnig gekk mjög vel, 16 sinnum. En eftir það liðu tæp tuttugu ár, þangað til L.R. tók aftur til sýningar leik eftir Shakespeare, þá er frátalinn endurflutningur á Þrettándakvöldi árið 1933.

Um þessar mundir var ný kynslóð að ryðja sér til rúms hjá L.R. Forystumaður hennar varð snemma Indriði Waage, sonur Jens B. Waage og Eufemíu Waage, dóttur Indriða Einarssonar. Þarna koma fram ýmsir sem verða aðalleikendur leikhússins næstu áratugi: fólk á borð við Arndísi Björnsdóttur, Gest Pálsson, Brynjólf Jóhannesson og Val Gíslason; fáeinum árum síðar bætast við leikendur eins og Jón Aðils, Alfred Andrésson, Alda Möller og Inga Þórðardóttir. Allt vann þetta fólk náið með Indriða sem þótti sérlega laginn persónuleikstjóri, natinn við að ná fram því besta í leikaranum. Það skipti máli í landi þar sem enn var enginn leiklistarskóli. "Það var einstaklega gaman að starfa með Indriða á þessum árum" segir Brynjólfur Jóhannesson í endurminningum sínum, Karlar eins og ég, "hann var fullur af dirfsku og áhuga, stöðugt opinn fyrir nýjum hugmyndum, öldungis óhræddur að fást við ný og nýstárleg verkefni." Indriði var metnaðarfullur og vildi lyfta starfi leikhússins á hærra stig. Hann lét ekki aðeins frumflytja Shakespeare; höfundar eins og Strindberg og Pirandello komust nú einnig í fyrsta sinn á blað á reykvísku sviði, þó að ekki yrðu þeir neinir fastagestir þar. Sjálfur hafði Indriði raunar alltaf meiri áhuga á nútímaverkum en klassískum og leikstýrði aldrei oftar verki eftir Shakespeare. Á fimmta og sjötta áratug aldarinnar er það Lárus Pálsson, sem tekur upp þann þráð, umfram alla aðra.

Mynd: Indriði Waage

wsindwag.jpg
Til baka