Feb 24, 2020

1924


Fyrsti erlendi gestaleikstjórinn kemur til Íslands

Jólin 1924 frumsýndi L.R. danska söngvaleikinn Einu sinni var (Det var engang - ) eftir Holger Drachmann. Það var danski leikarinn og leikstjórinn Adam Poulsen sem stýrði þeirri sýningu og þótti hún takast afar vel. Ekki féll öllum leikendum þó kröfuharka hins danska leikhúsmanns og var t.d. haft eftir einum af elstu leikurum L.R., þegar hann frétti að aftur væri von á Poulsen stuttu síðar: "Æ, hann er þó ekki að koma aftur, helvítið hann "Om-igen!". Leikaranum þótti leikstjórinn sem sé fullgjarn á að láta leikara endurtaka það sem miður fór á æfingunum. Poulsen var af einni fremstu leikhúsfjölskyldu Dana, faðir hans Emil Poulsen var einn aðalleikari Kgl. leikhússins í áraraðir og föðurbróðir hans Olaf Poulsen einn dáðasti kómíker Dana fyrr og síðar. Sjálfur var Adam Poulsen atkvæðamikill leikhúsmaður, en gat verið býsna þóttafullur í framgöngu sem kom honum í koll þegar hann varð leikhússtjóri Kgl. leikhússins í stuttan tíma árið 1930 og tókst þá að fá megnið af leikaraliði hússins upp á móti sér. Adam Poulsen lék Kára í frumuppfærslu Fjalla-Eyvindar Jóhanns Sigurjónssonar á Dagmar-leikhúsinu í Kaupmannahöfn árið 1912 og síðar setti hann leikinn upp í Finnlandi.

Poulsen gerði ekki endasleppt við Íslendinga, því að hann kom aftur til Íslands árið 1926. Þá stýrði hann sýningu á Ambrosiusi eftir Chr. K.F. Molbeck hjá Leikfélagi Akureyrar og lék titilhlutverkið. Það var Haraldur Björnsson, nemandi hans, sem hafði milligöngu um þá heimsókn. Haustið 1927 kom Poulsen enn til L.R. og stjórnaði þá leikritinu Sérhver, útgáfu austurríska skáldsins Hugo von Hoffmansthal á miðaldaleiknum Everyman. Heimsóknir af þessu tagi voru ekki tíðar næstu ár, en smám saman færðust þær í vöxt, urðu tíðari og mikilvægari. Veturinn 1934-35 dvaldist danski leikstjórinn Gunnar R. Hansen hér og var aðalleikstjóri L.R. þá um veturinn. Á stríðsárunum sviðsetti norska stórleikkonan Gerd Grieg hér stórar sýningar á verkum eftir Ibsen og Björnson hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Gerd Grieg, sem var gift norska skáldinu Nordahl Grieg, var hér á vegum norsku útlagastjórnarinnar í London. Ekki er vafi á því að sýningar hennar skiptu íslenskt leikhús verulegu máli; þær fengu allar góðar viðtökur, einkum þó Pétur Gautur Ibsens (fyrstu þrír þættirnir). Þá má ekki gleyma þeim Reumerts-hjónum, Önnu Borg og Poul Reumert, sem komu hingað þrívegis (1929, 1938 og 1947) og léku gestaleik, þó að ekki muni þau hafa gert mikið að því að veita leikurum tilsögn. Árið 1948 kom danski leikstjórinn Edvin Tiemroth hingað og setti á svið Hamlet Shakespeares með Lárusi Pálssyni í aðalhlutverki. Íslenskir leikarar voru nú almennt komnir á það þroskastig að þeir gátu notfært sér leiðsögn fagmanna af þessu tagi; töldu sig ekki lengur yfir það hafna að þurfa að gera hlutina oftar en einu sinni.

Með tilkomu Þjóðleikhússins urðu erlendir leikstjórar mun tíðari gestir hér en áður. Sá fyrsti í þeirri röð var sænski leikstjórinn Simon Edvardsen sem sviðsetti nokkrar óperur á sjötta áratugnum auk barnaleiksins Ferðin til tunglsins. Af öðrum merkum gestaleikstjórum, sem gist hafa Þjóðleikhúsið, má nefna Danann Sven-Åge Larsen, sem setti upp nokkrar óperettur og söngleiki í kringum 1960 (My fair Lady var sjálfsagt frægust þeirra), Írann Thomas Mc Anna (Gísl Brendans Behan árið 1963), Bretann Kevin Palmer (Ó, þetta er indælt stríð, Lukkuriddarinn, Ítalskur stráhattur o.fl á árunum 1967-68), Þjóðverjann Karl Vibach (Fást Goethes 1970), Rússann Viktor Strizhov (Náttbólið 1976), Bretann Hovhannes Pilikian (Lér konungur 1977) og litháíska leikstjórann Rimas Tuminas, sem var tíður gestur ásamt samstarfsmanni sínum, leikmynda- og búningateiknaranum Vytautas Narbutas á árunum 1993-2003 og setti m.a. upp þrjú af leikritum Tsjekhovs.

L.R. hefur að sjálfsögðu aldrei haft jafn mikið svigrúm til að fá erlenda gesti og eru þess þó nokkur dæmi. Thomas Mc Anna setti t.d. á svið Rómeó og Júlíu árið 1964 og Svíinn Christian Lund bráðskemmtilega sýningu á þremur einþáttungum Dario Fo (Þjófar, lík og falar konur) árið 1965; í leiklistarsögunni verður hennar helst minnst fyrir það að þar sprakk Gísli Halldórsson út sem kómíker. Frá síðustu árum ber helst að geta Rússans Alexei Borodin sem setti upp leikgerðir sínar á Feðrum og sonum Turgenevs og Djöflum Dostojevskys í Borgarleikhúsinu á árunum 1998 og 1999.

Enginn útlendingur hefur þó markað dýpri spor í sögu L.R. - og raunar íslensks leikhúss - en Gunnar R. Hansen sem fyrr er nefndur. Sérstaða hans er raunar slík að hæpið getur virst að kalla hann gestaleikstjóra, a.m.k. í sama skilningi og þá sem hér hafa verið nefndir. Gunnar var staddur á landinu fyrir tilviljun snemma hausts árið 1950 og æxluðust mál þá svo að hann varð aðalleikstjóri L.R. næstu ár. Hann setti á svið flestar bestu og vinsælustu sýningar L.R. á þeim tíma og ákvað að lokum að setjast hér að og gerast íslenskur ríkisborgari. Síðustu árin, sem hann lifði, hafði L.R. þó ekki sérstakan áhuga á kröftum hans; sjálfur taldi hann að yngri kraftar hefðu kosið að setja sig til hliðar. Erlendir leikmyndateiknarar hafa alloft komið hingað með gestaleikstjórunum eða verið fengnir hingað til að vinna með íslenskum leikstjórum. Nokkra sérstöðu hefur þýski leikmyndateiknarinn Lothar Grund, sem bjó hér á sjötta áratugnum og vakti athygli fyrir fallega stílfærðar leikmyndir í sýningum Þjóðleikhússins. Þá gerði Bretinn Disley Jones leikmynd við sýningar Þjóðleikhússins á Nashyrningum Ionescos árið 1960 og Hamlet árið 1964, Þjóðverjinn Ekkerhard Kröhn leikmynd við Fást 1970 og Túskildingóperu Brechts 1972 og Tékkinn Ralph Koltai leikmynd við Lé konung. Sérstök ástæða er til að nefna Unu Collins sem kom hingað fyrst með Kevin Palmer á árunum 1967-68 og gerði búningar við sýningar hans. Hún var afar snjall búningateiknari og hafði m.a. starfað með hinum heimsþekkta leikflokki Joan Littlewood, Theatre Workshop. Una tók miklu ástfóstri við Ísland og kom hingað margsinnis síðar til að vinna með íslenskum leikstjórum. Eftir dauða hennar árið 2004 var aska hennar flutt til Íslands og dreift yfir sundin við Reykjavík; vinir hennar létu gera minningarbekk sem stendur við göngustíginn meðfram sjávarbakkanum við Skúlagötu, hugþekkur og látlaus minnisvarði um merkan listamann sem íslenskt leikhús á þökk að gjalda.

24gestal.jpg
Til baka