Jan 27, 2020

1917


Leikfélag Akureyrar stofnað

Árið 1907 var leikfélag stofnað á Akureyri (Leikfélag Akureyrar eldra). Bærinn hafði þá eignast nýtt og veglegt samkomuhús sem hefur alla tíð verið ein hans mesta höfuðprýði. Félag þetta starfaði af dugnaði í fáein ár og voru helstu forkólfar Vilhelm Knudsen kaupmaður, Guðmundur Guðlaugsson og Margrét Valdimarsdóttir, skærasta leikstjarna Akureyrar á þessum árum. Guðlaugur Guðmundsson, sýslumaður og bæjarfógeti á Akureyri, faðir Guðmundar - og Soffíu sem varð síðar þjóðkunn leikkona í Reykjavík - var mikill leikáhugamaður, lék og leikstýrði. En eftir fáein ár lognaðist þessi félagsskapur út af. Vilhelm Knudsen flutti til Reykjavíkur 1912 og nokkru síðar létust Guðmundur og Margrét ung að árum. Leikstarf Akureyringa var eins og annarra áhugamanna háð elju og ósérhlífni nokkurra burðarása og ef þeirra missti við fór allur kraftur úr starfinu.

Næstu ár var framtíð leikstarfsins í óvissu. Gestaleikir Stefaníu Guðmundsdóttur á árunum 1915 og 1916 urðu hins vegar til að brýna menn til dáða og 19. apríl 1917 var enn gerð tilraun til að stofna leikfélag. Hún tókst betur því að það félag hefur starfað allt til þessa dags, frá 1973 sem atvinnuleikhús. Fyrsti formaður var Júlíus Havsteen, sýslumaður, (Akureyringar áttu á þessum árum leiklistarsinnuð yfirvöld), en ekki leið á löngu áður en ungur verslunarstjóri að nafni Haraldur Björnsson gekk til liðs við leikfélagið. Hann varð einn helsti kraftur þess þangað til hann ákvað að venda sínu kvæði í kross og halda til útlanda til leiklistarnáms.

Segja má að L.A. hafi snemma orðið eins konar þjóðleikhús Norðurlands, þó að vitaskuld væri það áhugamannafélag. Það fékk snemma nokkra styrki bæði frá ríki og bæ og þar með ákveðna viðurkenningu á sérstöðu sinni. Þá var nokkuð um að Ríkisútvarpið sendi út leikrit með leikendum L.A. eftir að það tók til starfa árið 1930. Þegar eftir stofnun Félags íslenskra leikara árið 1941 voru teknir þar inn leikarar frá Akureyri og gerði félagið þó allstrangar kröfur um menntun og reynslu félagsmanna.

L.A. naut þess bæði að eiga bæði öfluga forystumenn og leikara sem helguðu sig list sinni af áhuga og alúð, sumir um áratuga skeið. Af þeim fyrrnefndu voru tveir öðrum merkari: Ágúst J. Kvaran (1894-1983) og Jón Norðfjörð (1904-1957). Ágúst hafði starfað mikið með L.R. áður en hann fluttist til Akureyrar um miðan þriðja áratuginn og þótti mjög efnilegur. Báðir voru þeir atkvæðamiklir á sviðinu, þótt ólíkir væru; Ágúst var glæsilegur á velli og aðsópsmikill, en Jón e.t.v. fjölhæfari og þótti sérlega lipur gamanleikari. Jón stundaði nám við leiklistarskóla Kgl. leikhússins í Kaupmannahöfn 1936-37 og hélt síðar einkaskóla í leiklist með nokkrum ríkisstyrk. Auk þess lék hann og leikstýrði víða um land. Ágúst var helsti leikstjóri L.A. fram eftir fjórða áratugnum, síðast skiptust þeir Jón á í nokkur ár, en eftir 1940 dró Ágúst sig í hlé um skeið og var þá Jón eini leikstjórinn. Þá leikstýrði Guðmundur Gunnarsson einnig lengi, fremur þó verkum af léttara tagi. Af burðarleikendum, sem eldri Akureyringar minnast enn með hlýhug, má nefna Svövu Jónsdóttur, Gísla Magnússon, Björgu Baldvinsdóttur, Björn Sigmundsson, Jóhann Kröyer, Guðmund Gunnarsson, Jóhann Ögmundsson, Júlíus Oddsson, Þórhöllu Þorsteinsdóttur, Marinó Þorsteinsson og Guðlaugu Hermannsdóttur.

Sýningin Leiklist á Akureyri

 1917laskFundargerð stofnfundar Leikfélags Akureyrar

 

1917lass.jpg
Til baka