Jan 27, 2020

1916


Fyrsta barnaleikritið frumsýnt

19. júní 1916 var sænski leikurinn Óli smaladrengur frumsýndur í Iðnó undir stjórn Stefaníu Guðmundsdóttur. Leikendur voru allir börn og lék Anna, dóttir Stefaníu, (Anna Borg) titilhlutverkið. Sýningin var liður í hátíðarhöldum í tilefni þess að eitt ár var þá liðið frá því íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, en allur ágóði rann í byggingarsjóð Landsspítalans.

Þó að Óli smaladrengur væri endurfluttur sama dag árið eftir, varð leikurinn ekki til að marka upphaf að samfelldu leiksýningahaldi fyrir börn. Á þessum árum þótti reyndar svo sjálfsagt að börn sæktu almennar leiksýningar að fyrstu tveir bekkirnir í Iðnó voru jafnan ætlaðir þeim og nefndir barnabekkir. Smám saman rann þó upp fyrir mönnum að jarðvegur kynni að vera fyrir sérstakar barnasýningar í vaxandi borg á borð við Reykjavík. Á árunum 1929-34 var stigið merkilegt skref til þá átt með starfi Litla leikfélagsins sem sýndi í Iðnó hvorki fleiri né færri en sex frumsamin leikrit, öll eftir Óskar Kjartansson. En Óskar lést ungur og eftir það varð ekki framhald á þessari viðleitni. Í desember 1931 sýndi L.R. leikritið Litla Kláus og Stóra Kláus eftir Lisu Teztner og er það fyrsta barnaleikritið á verkefnaskrá L.R. Þá voru tvö af leikritum Óskars Kjartanssonar, Töfraflautan og Undraglerin, tekin til sýninga á árunum 1932 og 1934, en fengu hvorugt mikla aðsókn. Félagið hafði í raun og veru enga aðstöðu til að sinna barnaleiklist við hlið venjubundinnar verkefnaskrár allan þann tíma sem það starfaði í Iðnó. Á síðari hluta sjöunda áratugarins fékk það afnot af Tjarnarbíói og nýtti það fyrir barnasýningar sem tóku við það nokkurn fjörkipp. En eftir að félagið missti bíóið um 1970 lögðust barnasýningar þess að mestu af og það var ekki fyrr en eftir flutninginn í Borgarleikhúsið að þráðurinn var tekinn upp að nýju.

Þjóðleikhúsið leitaðist frá upphafi við að sýna eitt barnaleikrit á hverju ári. Fyrsta barnasýningin var Snædrottningin eftir ævintýri H.C. Andersen veturinn 1950-51 undir stjórn Hildar Kalman, en frægasta barnasýning fyrstu áratuganna var tvímælalaust Kardimommubærinn eftir Thorbjörn Egner sem Klemenz Jónsson leikstýrði. Hún var frumsýnd árið 1960 og gekk lengi við gríðarlegar vinsældir, enda fór úrvalið af leikendum hússins þar á kostum. Hér má ekki heldur gleyma þætti Ríkisútvarpsins. Snemma mun hafa verið tekið að flytja stutta leikþætti í barnatímum og síðar urðu framhaldsleikrit fyrir börn og unglinga nokkuð reglulegur liður í dagskránni. Oft voru það leikgerðir á vinsælum barna- og unglingabókum, s.s. sögum Ármanns Kr. Stefánssonar og Stefáns Jónssonar. Barnatími Sjónvarps hefur á síðari árum orðið aðalvettvangur leikins barnaefnis í Ríkisútvarpinu, eins og þróunin hefur orðið víðast hvar annars staðar.

Tæpast verður sagt að íslensk leikskáld hafi sýnt börnum og unglingum sérstakan áhuga, þó að frá því séu stöku undantekningar. Af þeirri kynslóð leikskálda, sem kemur fram upp úr 1960, var Oddur Björnsson einna drýgstur við samningu barnaleikrita og af næstu kynslóð þar á eftir Ólafur Haukur Símonarson. Ein af vinsælustu barnasýningum Þjóðleikhússins voru Óvitar Guðrúnar Helgadóttur sem hlutu feykigóðar viðtökur þegar þeir voru frumsýndir árið 1980 undir leikstjórn Brynju Benediktsdóttur. Önnur eftirminnileg barnasýning í Þjóðleikhúsinu var Skilaboðaskjóða Þorvalds Þorsteinssonar.

Leikhópar þeir, sem hafa sett mikinn svip á íslenskt leikhúslíf síðustu tvo áratugi, hafa sumir leitast við að sinna börnum og unglingum. Innan Alþýðuleikhússins starfaði t.d. um hríð sérstakur barna- og unglingaleikhúshópur, "Pældíðí-hópurinn", og á síðustu 10-15 árum hafa komið fram hópar sem hafa sérhæft sig á þessu sviði, s.s. Möguleikhúsið undir forystu Péturs Eggerz og Stopp-hópurinn sem Eggert Kaaber stendur fyrir.

Mynd: Óli smaladrengur, Leyndarmál frú Stefaníu

olismali.jpg
Til baka