Jan 27, 2020

1912


Fjalla-Eyvindur frumsýndur í Kaupmannahöfn

Fjalla-Eyvindur Jóhanns Sigurjónssonar var frumsýndur í Reykjavík 26. desember 1911 og varð mikill sigur. Leikfélagið hafði áður sýnt Bóndann á Hrauni eftir sama höfund jólin 1908 við góðar viðtökur. Ekki er að efa að það hvatti höfundinn til dáða. Hann hafði fengið loforð hjá Dagmar-leikhúsinu í Kaupmannahöfn um að taka leikinn til sýningar, en við það var ekki staðið þegar til kastanna kom. Þegar Fjalla-Eyvindur komst loks upp á danskt leiksvið hafði Jóhann Sigurjónsson verið að reyna að koma undir sig fótum með harla litlum árangri í tíu ár og að vonum orðinn mæddur á því basli öllu.

Frumsýning Fjalla-Eyvindar í Dagmar-leikhúsinu vorið 1912 markaði upphaf að frægðarför leiksins, fyrst um Danmörku og Skandinavíu, síðar um Þýskaland þar sem hann var sýndur allvíða, þ. á m. í Berlín. Vart verður þó sagt að hann hafi vakið þar sömu hrifningu og á Norðurlöndum, a.m.k. gleymdist hann fljótt enda náði höfundur ekki að fylgja honum eftir með frekari sigrum. Kannski hvarf hann að einhverju leyti í skuggann af Strindberg sem einmitt á þessum árum varð loksins stórt nafn í Þýskalandi, ekki síst fyrir tilstilli hins mikilhæfa leikstjóra, Max Reinhardts. Leikurinn var einnig sýndur í London, New York og Austur-Evrópu. Fjalla-Eyvindur var fyrsta skáldverks íslensks höfundar sem vakti alþjóðaathygli á síðari tímum; fyrir hans dag þekktu útlendingar yfirleitt fátt annað en fornsögurnar og trúðu því vart að Íslendingar gætu skrifað nútímalegar bókmenntir. Þó að ekki megi ofmeta þýðingu leiksins, er frumsýning hans engu að síður einn af merkustu viðburðum íslenskrar bókmennta- og leiklistarsögu á síðustu öld.

Meira um Jóhann Sigurjónsson

fjalleyv.jpg
Til baka