Jan 27, 2020

1893


Breiðfjörðs-leikhús (Fjalakötturinn) tekið í notkun

Breiðfjörðs-leikhús var kennt við byggingameistara þess og eiganda, Valgarð Ó. Breiðfjörð kaupmann, sem reisti það vestast í húsasamstæðu sinni Aðalstræti 8. Í daglegu tali bæjarmanna hét það þó lengst "Fjalakötturinn" og festist það heiti að lokum við það. Eufemía Waage segir svo frá í endurminningum sínum:

Breiðfjörð var upphaflega trésmiður, en fór síðan að stunda verslun og gekk það víst allsæmilega. Hann hafði eignast efnaða konu og fékk með henni hús á horninu á Mjóstræti og Bröttugötu og afarstóra lóð sem náði ofan að Aðalstræti. Þar átti hann allstórt íbúðarhús sem hann hafði verslun sína í og byggði síðan ákaflega mikið ofan á það. Síðan byggði hann tvær útbyggingar, aðra upp með Bröttugötu og hina upp með norðurhluta lóðarinnar, en á milli þessara útbygginga byggði hann leikhúsið. Hann mun hafa haft afar mikla ánægju af að láta byggja, en ekki þótti vandað til þessara bygginga og voru þær meiri að vöxtum en gæðum; þess vegna hlaut leikkhúsið þetta nafn.

Eufemía lýsir húsinu svo:

Inngangurinn var úr Bröttugötu, eins og sjálfsagt margir muna, því að Gamla-Bíó var þar um fjölda mörg ár. Hár timburstigi lá upp í áhorfendasalinn, en leiksviðið var við norðurenda hans. Við suðurenda hans voru svalir eða "balkon", eins og þær voru nefndar á þeim árum og af þeim var gengið út á aðrar svalir, sem voru utan á húsinu og vissu inn að ferhyrndum húsagarði, með glerþaki yfir, en ofan af þessum svölum lá annar timburstigi, gríðarhár, ofan í húsagarðinn, og var víst tilætlunin að áhorfendurnir hefðu bækistöð sína á svölunum og niðri í húsagarðinum á milli þátta. Var þetta allt hið mesta hrófatildur og var síst furða þótt almenningur gerði gaman að.

Þó að Eufmíu þyki sem sagt heldur lítið til koma má hún til með að hæla Breiðfjörð fyrir að hafa bætt úr sætunum - að vísu aðeins "betri sætum", þ.e. þeim dýrustu. Áður hafi ekki tíðkast nema harðir trébekkir og baklaus barnasæti. "En í Breiðfjörðs-húsi voru flossessur í betri sætunum og voru þau fremur þægileg. Ekki man ég fyrir víst hvort sætin voru föst, en aldrei man ég til að bekkirnir kæmu upp í fangið á þeim, sem fyrir aftan sátu, eins og lengi var í Iðnó. Ég man heldur ekki til að Breiðfjörð leigði út húsið undir dansleiki."

Breiðfjörðs-leikhús var tekið í notkun með hátíðlegri athöfn sumarið 1893 og voru það að sjálfsögðu Jensens-hjónin dönsku sem fengu þann heiður að opna það. Og hvað sem öllum annmörkum þess leið er víst að með tilkomu þess hljóp aukin gróska í leikstarf Reykvíkinga. Hörð samkeppni var á stundum milli þeirra, sem léku í Gúttó með ungfrú Stefaníu í broddi fylkingar, og leikenda í Breiðfjörðs-leikhúsi. Veturinn 1895-96 gerði Indriði Einarsson tilraun til að stofna þar formlegt leikfélag, með dyggum stuðningi Breiðfjörðs sjálfs sem tók að sér gjaldkerastarfið í félaginu. Venjan hafði verið sú að þátttakendur í sýningunum tækju sameiginlega fjárhagsábyrgð: skiptu með sér hagnaði, ef vel gekk, en tækju þá einnig á sig tapið, þegar verr tókst til. Veturinn áður hafði Indriði sett upp Hellismenn sína í Breiðfjörðsleikhúsi og borið mikið í leikmyndir og búninga sem hann vildi jafnan hafa sem skrautlegasta. Þegar upp var staðið varð halli af Hellismönnum og reis af því ósætti milli leikenda og Indriða, sem fannst víst ekki sanngjarnt að þeir ættu að borga fyrir óhóflega skrautgirni leikstjórans. Það skýrir væntanlega hvers vegna ýmsir vinsælir leikarar, sem síðar tóku þátt í stofnun og starfi Leikfélags Reykjavíkur, voru ekki með í félaginu 1895-96. Sýndi þessi félagsskapur þó mannmörg leikrit á borð við Skugga-Svein og Barnsængurkonu (Barselstuen) Holbergs, en áhorfendur sátu of margir heima, svo að félaginu var slitið í febrúar 1896 "með stóru tapi". Stjörnurnar vantaði.

Með tilkomu Iðnó 1897 höfðu bæði Gúttó og Breiðfjörðs-leikhús í raun lokið hlutverki sínu í leiklistarsögunni, þó að nokkuð væri leikið áfram í báðum húsum um sinn og í Gúttó raunar langt fram eftir næstu öld. Fjalakötturinn varð ekki það framtíðarleikhús sem kaupmaður Breiðfjörð hafði ætlað sér að reisa, en hann átti þó sinn þátt í að leggja undirstöðu undir næsta þróunarstig íslenskrar leiklistar.

lhfjalak.jpg
Til baka