Góðtemplarareglan festi rætur á Íslandi um miðjan áttunda áratug aldarinnar og olli sannkallaðri byltingu í íslenskum félagsmálum. Félagar í henni reistu samkomuhús víða um land, þ á m. í Reykjavík árið 1887. Í því mun hafa verið frá upphafi lítið svið, sem síðar var hækkað og bætt. Margir leikáhugamenn voru virkir í Reglunni og létu hendur standa fram úr ermum; reyndar var fjár til byggingar Gúttós, eins og þessi hús voru jafnan nefnd í daglegu tali, að hluta aflað með leiksýningum sem fóru fram í Glasgow. Eftir að spítalarekstur var hafinn á efri hæð gildaskálans nokkru fyrir 1870 var Glasgow helsta leikhús Reykvíkinga, þó að ekki muni aðstæður þar hafa verið almennt betri en gengur og gerðist í þessum húsum.
Við fráfall Sigurðar málara árið 1874 dofnaði mjög yfir leikhúslífi Reykjavíkur. Þó að það lifnaði við um tíma í kringum 1880, eftir að Indriði Einarsson var sestur að í bænum, er tæpast hægt að tala um nýtt gróskuskeið fyrr en eftir 1890. Þetta voru mikil harðindaár, illt árferði og vesturferðir drógu úr mönnum kjark - og kjark þurfti sannarlega til að halda uppi leiksýningum við þáverandi aðstæður. Stofnun Góðtemplarareglunnar og hið einstæða uppbyggingarstarf hennar var nánast eina ljósglætan í því myrkri sem lá yfir þjóðinni á níunda áratug 19. aldar.
En Gúttó varð á sinn hátt merkilegt leikhús, þó að ekki yrði það framtíðaraðsetur leiklistarinnar. Á útmánuðum 1892 voru margir leikir sýndir um leiktímabilið eftir áramót og er það til vitnis um metnað manna að þá var í fyrsta skipti flutt hér verk eftir Henrik Ibsen, sem var þá löngu orðinn eitt frægasta leikskáld í norðanverðri Evrópu. Víkingarnir á Hálogalandi (Hermændene på Helgeland) er reyndar eitt af æskuverkum hans; það er sett saman úr ýmsu efni úr fornkvæðum og Íslendingasögum og var, þótt það kunni að hljóma ótrúlega í eyrum þeirra sem hafa lesið það, vinsælasta verk Ibsens í heimalandi hans á 19. öld. Ekki þótti íslenskum gagnrýnendum mikið til þess koma hvernig unnið var úr efninu og töldu höfund bersýnilega hafa litla þekkingu á því.
Það var Indriði Einarsson, sem öðrum fremur stóð fyrir þessum sýningum, og þá leikstjórn, sem á annað borð var veitt, hafði hann á hendi. Fékk sýning Víkinganna misjafna dóma, enda augljóst að ekki var áhlaupaverk að koma jafn fjölmennum sjónleik með mörgum, ólíkum leiksvæðum fyrir á svo frumstæðu sviði. Ísafold skrifar t.d.: Félagið hefur ekkert til sparað, að úbúnaðurinn sé sem fullkomnastur. Það sem áfátt er í því efni, er sumt óviðráðanlegum atvikum að kenna, svo sem vandræða-húsþrengslum, og sumpart prjálgirni sumra leikendanna, eða kannske öllu heldur vina þeirra og kunningja. Þrengslin á leiksviðinu eru svo mikil, að það var ekki einungis alveg frágangssök að sýna langeldana í skála Gunnars hersis, heldur verður þar að auki stundum að hafa mannfærra á leiksviðinu, en skáldið ætlast til, og standa menn þó nær í þvögu, þeir sem inni eru. Leiktjöld eru dável gerð að mörgu leyti, en þeirra nýtur eigi til hálfs vegna þrengsla og smæðar.
Í Þjóðólfi hamast Benedikt Gröndal gegn sýningunni og finnst allt mjög lélegt, leikur, leiksvið og búningar. En orð hans mæltust svo misjafnlega fyrir að hann sá ástæðu til að skrifa aðra blaðagrein og dró þá allverulega í land, fór m.a.s. góðum orðum um framlag Indriða. Meðal leikenda í Víkingunum var Ólafía Jóhannsdóttir, síðar kunnur trúmálafrömuður á Íslandi og í Noregi; hún lék Hjördísi, aðalkvenhetjuna. Sumarið 1892 komu hingað dönsk leikarahjón, Edvard og Olga Jensen, og léku í Gúttó. Heimsókn þeirra átti eftir að draga á eftir sér nokkurn slóða, því að einn af helstu framkvæmdamönnum Reykjavíkurbæjar, Valgarð Ó. Breiðfjörð, heillaðist svo af list þeirra að hann reisti í skyndingu nýtt leikhús við húsasamstæðu sína, Aðalstræti 8, svo að þau hjón hefðu boðlegt svið að fara upp á þegar þau kæmu hingað næst.