Jan 20, 2020

1866


Kúlissusjóður stofnaður

Kúlissusjóðurinn er merkilegt fyrirbæri í þróunarsögu íslensks leikhúss á 19. öld og hefur verið nefndur "fyrsti vísir að formlegri leikhússtofnun á Íslandi". Sitthvað er þó á huldu um uppruna hans. Í bæjarfélagi, þar sem var ekkert fast leiksvið, gátu liðið mörg ár á milli sýninga og því hætt við að allur sviðsbúnaður, leiktjöld (kúlissur), leikbúningar og leikmunir, færu forgörðum. Þetta gerðu helstu frumkvöðlar leikjanna á sjötta og sjöunda áratugnum, s.s. Jón Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson, sér ljóst. Jón Guðmundsson hafði haldið saman útbúnaði frá sýningunni á Pakki árið 1854 og aukið við sviðbúnaði sem Trampe stiftamtmaður hafði gefið frá leiksýningu heima hjá sér árið eftir. Jón leigði þessa muni aðstandendum leikjanna 1858-1862 og virðist þá hafa komið upp deila á milli hans og þeirra um eignarhald á því sem varð til nýtt fyrir þær sýningar. Hugmynd Jóns mun, eftir því að dæma, hafa verið sú að eigendur "leikáhaldanna", eins og það var gjarnan nefnt, frá 1854, leigðu öðrum áhugamönnum "áhöldin" og skiptu leigunni á milli sín.

Ekki verður fullyrt hvort eignir þess "kúlissusjóðs", sem Jón stofnaði, voru meðal þeirra muna sem Sigurður Guðmundsson og nokkrir félagar hans afhentu Reykjavíkurbæ formlega til eignar og varðveislu árið 1866 með sérstöku gjafabréfi. Hafi svo ekki verið, má gera ráð fyrir að þær hafi runnið til sjóðsins síðar - hafi þær á annað borð verið enn þá til. Hugsanlega var formleg stofnun sjóðsins tilraun til að leysa þann ágreining sem uppi var. En í sjálfu sér er það aukaatriði; mestu skipti að með stofnun Kúlissjóðsins 1866 var bæjarfélaginu gert að halda utan um þessa muni og að með viðtöku þeirra tók það á sig ákveðnar kvaðir í því skyni.

Sjóðurinn starfaði þannig, að aðstandendur leiksýninga gátu tekið eignir hans á leigu og greiddu þá fyrir ákveðið gjald, jafnframt því sem þeir skuldbundu sig til að afhenda sjóðnum allt sem til yrði nýtt, muni, leiktjöld, búninga o. þ.h. Þetta kunna að sýnast allhörð skilyrði, en með þeim var komið í veg fyrir öll átök um eignarhald. Í stjórn sjóðsins, "forstöðu- og umsjónarnefnd" gjafarinnar, eins og það er orðað í gjafabréfinu, skyldi sitja "oddviti bæjarfulltrúanna" og "2 aðrir nefndarmenn kosnir úr flokki þeirra manna, er verið hafa eða verða í félagi þeirra, sem leika." Peningaeign sjóðsins átti svo að renna til byggingar almenns samkomuhúss með leiksviði, þegar tími þætti til kominn að reisa slíkt hús í Reykjavíkurbæ.

Eignir sjóðsins voru talsvert nýttar og hann óx nokkuð eftir því sem árin liðu. Þegar Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík reisti loks almennt samkomuhús árið 1896 gerði það tilkall til sjóðsins og eigna hans. Þá kom á daginn að farist hafði fyrir í mörg ár að skipa fulltrúa leikenda í sjóðsstjórnina, svo að hún var í rauninni ekki lögleg. Um þessar mundir var nokkur klofningur meðal leikenda bæjarins sem léku á tveimur eða jafnvel fleiri sviðum. Bæjaryfirvöld neituðu því að afhenda iðnaðarmönnum sjóðinn nema þeir byggju svo um hnútana að fulltrúar leikenda í sjóðsstjórn hefðu umboð frá a.m.k. öllum helstu leikendum. Þetta varð til þess að Iðnaðarmannafélagið, eða öllu heldur Þorvarður Þorvarðsson í umboði þess, gekkst fyrir stofnun L.R. Munu fjármunir sjóðsins hafa runnið til greiðslu á skuldum Iðnaðarmannafélagsins vegna húsbyggingarinnar, en gripi hans, búninga og tjöld, fékk Leikfélag Reykjavíkur.

Mynd: Hellir úr Útilegumönnunum. Leiktjald eftir Sigurð Guðmundsson málara

sigusksv.jpg
Til baka