Ekkert íslenskt leikrit hefur notið sömu vinsælda og æskuverk Matthíasar Jochumssonar Útilegumennirnir, sem í síðari gerðum hefur jafnan gengið undir nafni aðalsöguhetjunnar, Skugga-Sveins. Þjóðin hefur ekki tekið slíku ástfóstri við nokkurt annað leikrit og lengi var vandfundið það íslenskt leiksvið sem Skugga-Sveinn og félagar höfðu ekki troðið upp á. Frumsýning leiksins er því einn af helstu merkisviðburðum íslenskrar leiksögu.
Matthías var fátækur bóndasonur úr Þorskafirðinum. Hann var svo heppinn að komast ungur til verslunarstarfa í Flatey og þar þóttust góðir menn og góðar konur sjá að væri á ferð efnispiltur, gæddur óvenjulegum gáfum. Þetta fólk studdi Matthías til mennta. Hann var við verlunarnám í Kaupmannahöfn veturinn 1856-57 og settist síðan í Lærða skólann í Reykjavík. Matthías var því ekki aðeins eldri og lífsreyndari en skólabræður hans sem voru flestir innan við tvítugt; hann var einnig sigldur maður. Hann komst fljótlega í kynni við Sigurð málara og bjó um tíma í sama húsi og Sigurður og Jón Árnason þjóðsagnasafnari sem var einmitt að leggja drög að sagnasafninu mikla sem kom fyrst út árið 1862.
Matthías segir svo í einkabréfi (17.3. 1862) frá tilurð Útilegumannanna: "Ég bjó til eða sullaði eða skrúfaði saman leikriti í jólafríinu. Það heitir "Útilegumennirnir" og er í 4 þáttum með ljóðmælarusli hér og þar. Mér leiddist þessi danska "Kommindía", sem griðkonur hérna segja, og tók mig því til, og þó þetta rit mitt í raun og veru sé ómerkilegt, gjörði það þó hvínandi lukku; ég var æptur fram á scenuna, og klappaði pöbullinn yfir mér svo að ég varð áttavilltur." Efnið er sótt í íslenskar útilegumannasögur, en er þó sjálfstæð frumsköpun höfundar; ólíkt t.d. Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar eða Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson byggist verkið ekki á tiltekinni þjóðsögu. Matthías hafði þó ýmsar fyrirmyndir að styðjast við; meðal annars hefur verið bent á líkindi með leiknum og norskum söngvaleik, Fjeldeventyret. Hann þekkti einnig Ræningja Schillers, sem var eitt af vinsælustu leikritum samtímans, og Shakespeare hafði hann nokkru áður sökkt sér ofan í. Með Skugga-Sveini heldur rómantíkin í öllu sínu veldi innreið sína í íslenskt leikhúsi.
Þjóðólfur lýsir frumsýningunni svo eftir að hafa sagt frá öðrum leikjum vetrarins (28. feb. 1862):
En lángmest kvað að "Útilegumönnunum", það er frumsaminn "Drama"-leikr með saungum í 4 flokkum, eptir Matthías Jokkumsson, skólapilt, og er efnið frá öndverðri 17. öld, og samlent eins og nafn leiksins ber með sér. Þó að gjöra mætti nokkrar eigi óverulegar athugasemdir við leik þenna, ef hann lægi fyrir prentaðr til ritdóms, eins og það skáldskaparsmíð er maðr vildi hugsa sér nokkurnveginn algjört, en þessleiðis athugasemdir eru til einskis að svo komnu, enda væri þarmeð hallað rétti höfundarins, á meðan leikrinn er óprentaðr og eigi í almenníngs höndum, þá ætlum vér það eins sannmæli eins og það var samróma álit allra þeirra, er leik þenna sáu, að fegurðarkostir hans séu margir og verulegir, hvort sem litið er til hugsunarinnar sjálfrar eða hins þjóðlega aðalefnis, eða til þess, hvernig því er skipað niðr til þess að koma fram á leiksvæðinu, eða til þess hve sérlega vel og eðlilega og jafnframt íslenzkulega að flestar persónurnar í leiknum koma fram, hver eptir lífsvegi þeim, stöðu og geðslagi, er skáldið hefir hverjum þeirra hugsað og úthlutað, og óvíða eða hvergi er misst sjónar á frábrugðnum aldarhætti og hugsunarhætti tímans, sem efni leiksins er miðað við, nál. 150 árum fyrri heldr en nú á sér stað hér á landi. Málið á leiknum er liprt og ljóst og eigi sízt vísurnar eða kvæðin, eru þau öll einkar-lipr bæði að trúrri hugsun við efnið og að máli rími og fegrð.
Um sýninguna skrifar Þjóðólfur:
Hið einkar fagra og vandaða leiksvið, er Sigurður málari Guðmundsson hafði undirbúið handa "Útilegumönnunum" gjörði eigi all-lítið til að hefja og skýra skáldskapinn í leiknum og gjöra hann sem ásjálegastan áhorfendum; þar komu fram þverhnýptir hamrar með einstigi, og klettagjótum og aðalhelli, þar sem "Skugga-Sveinn", foríngi útilegumannanna, og þeir félagar höfði bæli sitt og aðsetr, en fagrir jöklar sáust í fjarlægðinni, þeir er sól roðaði að morgni. Hið sama má segja um alla leikendurna, að þeir höfðu auðsjáanlega lagt mikla alúð við þennan leik, og nokkra þeirra hafði skáldskapurinn hrifið svo, að eigi mátti annað sjá, en að hér væri lifandi að starfi útilegumenn, stúdentar, sýslumaðr, og aðrir sveitabúar o.s.frv. á öndverðri 17. öld.
Útilegumennirnir var aftur tekinn til sýninga í Gildaskálanum fjórum árum síðar. Þá sá ungur skagfirskur skólapiltur að nafni Indriði Einarsson leikinn og var það í fyrsta skipti sem hann varð fyrir slíkri reynslu. Hann rifjar hana upp í sjálfsævisögu sinni Séð og lifað:
Áhorfendasætin hækkuðu aftur eftir. Fyrir aftan aftasta bekk voru stæði; ég stóð og sá vel bæði tjöld og leikpersónur. Mér þótti allt þetta bera við fyrir augum mér í raun og veru. Persónurnar höfðu hold og blóð, og fjöll og heiðar sýndust mér standa þarna fyrir framan mig. Þessir gjörningar gagntóku mig. Ég stóð og horfði á þetta í leiðslu. Jón A. Hjaltalín (síðar skólameistari á Möðruvöllum) hafði "skapað" hlutverk Skugga-Sveins, það er að segja leikið það fyrstur allra manna og lék hann tröllslega. Hans leik hafa allir stælt síðan, sem ég hef séð leika Skugga-Svein, nema þeir Halldór Jónsson, sem lék hlutverkið í latínuskólanum, og Jens B. Waage, sem lék það í Leikfélagi Reykjavíkur. Hér mætti líka geta Eyjólfs Illugasonar í Hafnarfirði, sem leikur Skugga-Svein án allra öfga, annarra en þeirra, sem hlutverkið heimtar. - Gat ekki tröllið vaðið niður af sviðinu með atgeirinn? Við áhorfendurnir höfðum ekkert nema vasahnífa til að verja okkur með. Einhver lög bönnuðu það. Ég gleymdi stað og stundu, stóð og horfði og horfði. Þegar tjaldið var fallið í síðasta sinni, stóð ég lengi, og það varð ekki að ófyrirsynju. Tjaldið kom upp aftur, og þá var enginn á leiksviðinu, en tjaldamennirnir á bak við voru búnir að setja upp aftur heiðarbrúnina, sem þá var fyrst í 1. þætti. Ég horfði og starði á, hve þetta fjalllendi var eðlilegt. Nú var það komið aftur. Þá var komið við öxlina á mér: "Ætlarðu ekki að fara?" Áhorfendasalurinn var tómur fyrir hálfum tíma. Ég vaknaði af dvala og gekk heim. Á leiðinni var ég hugfanginn og langt burtu frá öllu daglegu og öllum veruleik. - Var þetta ekki það mesta í heimi?