Jan 20, 2020

1860


Fyrstu leiksýningar á Akureyri og í Eyjafirði

18. nóvember 1860 var danski gamanleikurinn Intrigerne eftir J.C. Hostrup leikinn á Akureyri. Hann var endursýndur 27. desember sama ár ásamt öðrum dönskum gamanleik, Audiensen eftir Henrik Hertz. Leikið var á dönsku og voru þátttakendur ýmsir betri borgarar bæjarins. Aðalhvatamaður var danski verslunarstjórinn Bernhard August Steincke. Var Steincke mikill framfaramaður og beitti sér fyrir ýmsum þjóðþrifafyrirtækjum. Tekjur af sýningunum runnu til fátækra. Ekki er vitað með vissu hvar var leikið, en líklega hefur það verið í vöruskemmu Höepfnersverslunar við Breiðagang svonefndan, við hlið Laxdalshúss, elsta húss sem enn stendur á Akureyri. Næsta vetur var svo í fyrsta skipti leikið á íslensku á Akureyri, Narfi Sigurðar Péturssonar. Með honum var hafður til bragðbætis þáttur eftir H.C. Andersen, Comedie i det Grönne.

Þegar Íslendingar spurðu að Danirnir á Akureyri væru farnir að leika, vildu þeir ekki láta sitt eftir liggja. Alltént var um svipað leyti, e.t.v skömmu síðar, efnt til sjónleika á stórbýlinu Grund í Eyjafirði. Þar áttu hlut að máli synir bóndans, Ólafs Briem, Haraldur, Jóhann, Kristján og Valdimar. Var Kristján langatkvæðamestur og eru til frá hans hendi sjö leikrit eða leikþættir í handritum. Kristján dó ungur, aðeins tuttugu og sex ára gamall, árið 1870. Bróðir hans, Valdimar Briem, síðar prestur og vígslubiskup, samdi einnig leikrit, Í jólaleyfinu, á meðan hann var í námi í Reykjavíkurskóla og var það sýnt þar. Síðar varð hann eitt af helstu sálmaskáldum þjóðarinnar, en lagði leikritagerð á hilluna. Á Grund í Eyjafirði voru einnig leikin nokkur leikrit Ara Jónssonar, bónda á Þverá, (1833-1907) og var eitt þeirra, Sigríður Eyjafjarðarsól, prentað og leikið víða, m.a. í Vesturheimi. Sex leikrit eru til eftir Ara, en ekkert var gefið út á bók nema þetta.

Akureyri og Eyjafjörður eru á þessum tíma eitt menningarsvæði og þar verður til ákveðin deigla sem sitthvað forvitnilegt kemur upp úr. Annað eyfirskt leikskáld var Tómas Jónsson bóndi frá Hróarsstöðum í Fnjóskadal (1835-1883) og eru til frá hans hendi fjögur leikrit í handritum. Tvö þeirra, Ebenes og annríkið og Hallur, eru reyndar stælingar á leikritum eftir Holberg. Yfirdómarinn er hins vegar að nokkru leyti byggt á Vetrarævintýri Shakespeares sem Tómas mun hafa komist í á dönsku. Öll hafa leikrit Tómasar einhvern tímann verið leikin, þó að annars hafi þau ekki markað djúp spor í bókmenntasöguna.

Árið 1875 er svo stofnað Gleðileikjafélag (Comedíufélag) á Akureyri og mun Jakob Havsteen verslunarstjóri þá hafa verið helsti frumkvöðullinn, auk dansks verslunarmanns, Jakobs Chr. Jensen, sem raunar mun hafa haft einhverja leiklistarmenntun. Á vegum þessa félagsskapar voru ýmis úrvalsverk sett upp, þ. á m. Skugga-Sveinn Matthíasar og Jeppi á Fjalli Holbergs, bæði vorið 1877. Mikill kraftur var í starfinu um hríð, en úr því dró nokkuð þegar Jensen féll frá. Hinir dönsku borgarar Akureyrar unnu hér markvert brautryðjendastarf og kom ein helsta leikkonan, frú Anna Schiöth, úr þeim hópi. Það sem gerir þessa norðlensku deiglu áhugaverða er ekki síst hvernig dönsk og íslensk menningaráhrif mætast. Akureyri var að miklu leyti danskur bær, en þjóðernisvitundin er sterk í sveitunum í kring; bændamenningin hefur naumast verið sú þjóðsaga þarna sem sumir héldu fram síðar, eða hvað veldur því að óbreyttir bændur taka sig til og skrifa leikrit sem sum eru bæði prentuð og leikin? Einhvern skóla hljóta þeir menn að hafa haft sem ganga framhjá dönskum gamanleikum í leit að fyrirmyndum og fara beint í sjálfan Shakespeare! En Íslendingar hafa líka löngum verið duglegir að "redda" hlutunum og ekki alltaf látið listræna kröfuhörku þvælast um of fyrir sér; annars er hætt við að seint hefði mikið orðið úr framkvæmdum. Áhrifin koma úr ýmsum áttum, auðvitað einnig frá leikstarfinu syðra. Þannig er á árunum upp úr 1880 talsvert leikið í hinum nýstofnaða Möðruvallaskóla þar sem Jón A. Hjaltalín er orðinn skólastjóri, en það var einmitt hann sem lék Skugga-Svein fyrstur manna í Gildaskálanum í Reykjavík. Úr Möðruvallaskóla kom m.a. Páll J. Árdal (1857-1930), eitt helsta leikskáld og leikhúsáhugamaður Akureyrar um sína daga. Í blöðunum gátu menn lesið um sjónleikahald Reykvíkinga og prentaðar leikritaútgáfur, s.s. á verkum Sigurðar Péturssonar og nýskrifuðum leikritum Matthíasar Jochumssonar og Indriða Einarssonar, hafa einnig hvatt til dáða.

Á Akureyri var lengi framan af engin föst sviðsaðstaða fremur en annars staðar á landinu. Bæjarmenn virðast þó teknir að hugsa sér til hreyfings í því efni fyrr en ýmsir aðrir. Á níunda áratug aldarinnar var hagur almennings jafn bágur þar og annars staðar sökum erfiðs árferðis, en unnendur leiksviðsins láta það ekki á sig fá og enn er stofnaður félagsskapur, Gaman og alvara, sem stendur fyrir sýningum. Þar var fyrrnefndur Páll J. Árdal framarlega í flokki. Veturinn 1886-87 gefur bæjarfógetinn svo náðarsamlegast leyfi til að reisa "skúr" - eins og það er orðað í opinberum gögnum - á balanum fyrir utan veitingahúsið á Oddeyri. Það leyfi er þó bundið því skilyrði að "skúrinn" verði rifinn niður á sumri komanda. Þessi bygging komst upp, Skugga-Sveinn var leikinn þar um veturinn og ekki annað vitað en leikhúsbyggingin hafi verið fjarlægð að því loknu. Reyndar varð aðsókn dræm, enda ýmsum sjálfsagt þótt óþarft að vera að hafa fé af fólki með leikaraskap, svo sem oft var viðkvæðið á þessum tíma, ekki aðeins á Akureyri. Kannski var það af þeim sökum sem bæjarstjórinn skipaði að leikskúrinn skyldi rifinn; hann hafi ekki viljað að svona fjárplógsstarfsemi yrði til frambúðar. Hvað sem því líður má húskofi þessi teljast nokkuð merkur í íslenskri leiklistarsögu, því að hann er fyrsta húsið sem vitað er til að hér hafi verið reist einvörðungu til leiksýninga. Góðtemplarahúsin, sem koma upp um líkt leyti og síðar víða um land, voru fjölnota samkomuhús og Breiðfjörðs-leikhús, fyrsta leikhús Reykjavíkur, er ekki byggt fyrr en 1892-93.

Einn frægasti atburður í sögu norðlenskrar leikstarfsemi á 19. öld var sýning Helga magra eftir Matthías Jochumsson. Hann var fluttur á héraðshátíð þeirri sem var haldin í tilefni 1000 ára byggðaafmælis Eyfirðinga árið 1890. Sr. Matthías fluttist til Akureyrar árið 1887 og bjó þar alla tíð síðan. Hvatti hann mjög til þess að Eyfirðingar minntust byggðaafmælisins með veglegri hátíð og samdi af því tilefni leik þennan sem eins og nafnið segir fjallar um fyrsta landnámsmann Eyjafjarðar og telst vera fyrsta söguleikrit í íslenskum bókmenntum. Sýnt var í pakkhúsi á Oddeyri og mættu um 1200 manns á fjórum sýningum. Við þetta tækifæri komu fram tveir ungir leikarar sem áttu eftir að gera garðinn frægan: Friðfinnur Guðjónsson, sem varð einn helsti gamanleikari Reykjavíkur í áratugi, og Margrét Valdimarsdóttir, sem varð fremsta leikkona Norðurlands þangað til hún féll frá 1915, aðeins þrjátíu og fimm ára gömul; "svar Norðlendinga við Stefaníu Guðmundsdóttur" hefur hún verið kölluð.

Þó að Akureyringar yrðu öðrum fyrri til að koma upp leikhúsi, eignuðust þeir ekki hús með föstu sviði fyrr en árið 1897, talsvert síðar en bæði Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Ísfirðingar. Engu að síður var mikið leikið í bænum fram eftir tíunda áratugnum, einkum í veitingahúsi því sem Lúðvík Sigurjónsson frá Laxamýri, bróðir Jóhanns leikritaskálds, rak um tíma. Lúðvík var mikill áhugamaður um leiklist og hafði tekið þátt í leiksýningum á skólaárum sínum í Reykjavík. Lét hann útbúa svið í pakkhúsi við hótel sitt og var pallurinn settur saman úr bjórkössum. Þegar dönsku leikararnir, Edvard og Olga Jensen, sem komu í nokkur ár til gestaleikja í Reykjavík, heimsóttu Akureyri árið 1895 máttu þau gera sér þetta svið að góðu.

En auðvitað sáu Akureyringar að við svo búið mátti ekki standa og ótækt að bjóða erlendum listamönnum að iðka sínar göfugu listir á slíkum fjölum. Árið 1896 sameinuðust ýmis félög um að byggja leikhús á svokölluðu Barðsnefi. Stóð húsið austan við Hafnarstrætið, nokkru norðar en Samkomuhúsið sem var byggt tíu árum síðar og enn er aðalleikhús Akureyringa. Átti Sjónleikafélagið eða Gleðileikjafélagið helmings eignarhlut í húsinu, en hin félögin sem nam 1/6 hvert. Húsið var vígt 3. janúar 1897 og þjónaði bænum næstu tíu ár.

Sýningin Leiklist á Akureyri

60akurey.jpg
Til baka