Jan 20, 2020

1857


Fyrstu leiksýningar á Ísafirði

Reykjavíkingar höfðu forystu í leikhúsmálum, en aðrir kaupstaðir og byggðarlög fylgdu í kjölfarið. Ísafjörður varð snemma einn af helstu verslunarstöðum landsins og hin danska eða dansksinnaða yfirstétt stytti sér gjarnan vetrarstundirnar, þegar ekki sá til sólar vikum saman, með leikþáttum í heimahúsum. Er haft fyrir satt að fyrstu sýningar af því tagi hafi farið fram á sjötta áratugnum og er danskur verslunarstjóri, Erik Olsen, nefndur sem helsti hvatamaðurinn. Fyrsta leiksýning, sem þar er vitað um með vissu, var þó á íslensku, Narfi Sigurðar Péturssonar á útmánuðum árið 1857. Á árunum 1860 -70 risu upp á Ísafirði ýmsir klúbbar að danskri fyrirmynd og má telja víst að eitthvað hafi verið leikið í þeim.

Fyrsta sýningin, sem almenningi var seldur aðgangur að, var þó ekki haldin fyrr en árið 1879. Var þá sýndur Skugga-Sveinn Matthíasar Jochumssonar og fóru sýningar fram í pakkhúsi Ásgeirsverslunar í Miðkaupstað. Um sýninguna segir í afmælisriti Leikfélags Ísafjarðar frá 1952:

"Eins og geta má nærri var ekkert leiksvið í pakkhúsinu, og var bráðabirgðar leiksvið útbúið með því að útbúa pall fyrir gafli hússins, sem var gerður á þann hátt, að borð voru negld á tunnur. Var pallurinn tekinn sundur að leiksýningum loknum. Pallurinn var afstúkaður með tjöldum úr taui. Sæti fyrir áhorfendur voru útbúin á þann hátt, að borð voru fest á búkka. Þóttu þetta góð sæti. Menn voru ekki góðu vanir í þá daga, og gerðu ekki miklar kröfur. Enginn hvíslari (sufflör) var. Leikendur áttu að læra hlutverk sín reiprennandi. Á því vildi þó verða misbrestur. Sumir leikenda skálduðu inn í hlutverkið, þegar kunnáttu þraut. Kom það mótleikara oft í vandræði."

Skömmu síðar var frumsýnd á sama stað eins konar revía eða farsi. Hún nefndist Getion og snerist um uppnefni á bæjarbúum sem voru eignuð tilteknum manni í bænum. Átti hann að hafa uppnefnt flest, bæði dautt og lifandi. Var honum boðið á sýninguna og þess gætt að hann gæti ekki vikið burt, þó feginn vildi. Að leik loknum var hann leiddur út með stefi sem var áskorun um að leggja þessa ósvinnu af. Mun þetta siðbótarstarf hafa skilað nokkrum árangri - a.m.k. um tíma.

Á síðasta áratugi 19. aldar var blómleg leikstarfsemi á Ísafirði, þó að ekkert formlegt leikfélag væri stofnað. Þar sem annars staðar gátu leiksýningar verið góð tekjulind fyrir ýmis félög og samtök, góðtemplara og fleiri. Ísfirskir góðtemplarar reistu samkomuhús með sviði árið 1885 og var þar mikið leikið til 1897. Þá lét bindindisfélagið Dagsbrún, sem stofnað hafði verið tveimur árum fyrr, byggja nýtt samkomuhús sem var nokkru stærra en eldra húsið og með stærra leiksviði. Það hús var mikið notað þangað til það brann árið 1906. 

1857gtisGóðtemplarahúsið á Ísafirði

Sama ár var nýtt Góðtemplarahús vígt og var það bæði stórt og rúmgott og aðbúnaður til fyrirmyndar á þeirrar tíðar mælikvarða. Þar starfaði Leikfélag Ísafjarðar fyrstu árin eftir að það var stofnað árið 1922, en árið 1930 brann þetta hús einnig sem var eðlilega mikið áfall fyrir ísfirska leikstarfsemi. Eftir að Leikfélagið hóf aftur starfsemi árið 1936 lék það fyrst í þáverandi samkomuhúsi Góðtemplara og síðar í Alþýðuhúsinu sem var byggt á árunum 1935-37 og nú hefur lengi verið kvikmyndahús staðarins. Mun það hafa verið sjöunda húsið í bænum sem reist var til leiksýninga og annarra skemmtana.

Helstu frömuðir ísfirskrar leiklistar fyrir aldamót voru Árni Sveinsson, smiður og kaupmaður, Björn Pálsson, ljósmyndari og kaupmaður, og Helgi Sveinsson, síðar bankastjóri. Þá var Stefán Runólfsson prentari góður liðsmaður þau fáu ár sem hann bjó í bænum á tíunda áratugnum, en hann lék síðar lengi með Leikfélagi Reykjavíkur. Stefán og Helgi voru meðal framámanna í bindindisfélaginu Dagsbrún, sem eins og fyrr getur reisti gott samkomuhús árið 1895, og það voru einnig bræðurnir Magnús og Halldór Ólafssynir. Þeir bræður voru meðal helstu leikkrafta Ísfirðinga í nær hálfa öld og reyndar fjölskyldur þeirra beggja; tvær dætur þeirra, Sigrún, dóttir Magnúsar, og Auróra, dóttir Halldórs, urðu báðar þjóðkunnar leikkonur í Reykjavík, einkum Sigrún sem varð aðalstjarnan í reykvískum söngleikjum og óperettum á fjórða og fimmta áratugnum. Magnús var kvæntur Helgu Tómasdóttur, dóttur Tómasar Jónassonar bónda frá Hróarsstöðum sem skrifaði leikrit á 19. öld (sjá 1860 Fyrstu leiksýningar í Akureyri og í Eyjafirði); bróðir hennar var Jónas Tómasson, einn merkasti brautryðjandi ísfirskrar tónlistarmenningar. Í þessu kyni var listræn æð sem listastarf á Ísafirði hefur sannarlega notið góðs af og býr raunar að enn, einkum þó í tónlistinni.

Sýningin Vestfirsk leiklist

Myndir: Úr Afmælisriti Leikfélags Ísafjarðar
Skugga-Sveinn og Góðtemlarahúsið

skuggasv.jpg
Til baka