Jan 17, 2020

1854


Fyrsta opinbera leiksýning á Íslandi

14. janúar árið 1854 var danski gamanleikurinn Pak (síðar nefndur Skríll) frumsýndur í Reykjavík. Fyrir þeirri sýningu Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs, sem var aðalblað þjóðarinnar um miðja nítjándu öld og eitt helsta málgagn sjálfstæðisbaráttunnar.  Leikurinn var fluttur á íslensku og hafði Jón þýtt hann ásamt Benedikt Gröndal og sr. Magnúsi Grímssyni. Pakk var þá tiltölulega nýr af nálinni; hafði verið frumfluttur níu árum áður í Kaupmannahöfn. Sýningin telst einn af áföngum leiklistarsögunnar fyrir þá sök að þar var almenningi í fyrsta skipti gefinn kostur á að kaupa sig inn, svo vitað sé með vissu. Sýningar skólapilta voru jafnan fyrir boðsgesti, þó að reyndar ættu þeir til að opna húsið og bjóða alla bæjarmenn velkomna.

Pakk var sýnt í hinum nýja Gildaskála Reykvíkinga sem hafði verið reist fjórum árum áður við suðurenda Aðalstrætis, þar sem síðar reis Herkastalinn. Þetta mun hafa verið fyrsta leiksýning í sögu hússins. Áratugum síðar rifjaði Indriði Einarsson upp sagnir af sýningunni í blaðagrein og sagði þar m.a.: "Nielsen, danskur byggingamaður hafði málað tjöldin, því þá voru höfð tjöld, leiksviðið var upphækkað. Tjöldin og umbúningurinn um leiksviðið kostaði 162 Rdl (ríkisdali). Allur kostnaður var 344 Rdl, hann kom inn sem aðgangseyrir, því sætið kostaði 3 mark og standandi "pláss" 2 mark eða mjög svipað sem 2. kr. og 1 kr. 33 au. nú. Leikendurnir sem voru 11 að tölu, urðu eigendur að áhöldunum, sem síðan hafa aukist, og nú eru kallaðar "bæjarkúlissurnar", "kólissusjóður" o.s.frv." (Reykjavík 29. mars 1900). Indriði segir einnig að embættismenn staðarins hafi haft svo mikla ánægju af þessari sýningu, að þeir hafi sést þar á áhorfendabekkjunum tvisvar eða þrisvar sinnum.

1854rvkHús Jóns Guðmundssonar í Reykjavík og Nýi klúbbur við suðurenda Aðalstrætis

Einum þeirra, sem tóku þátt í sýningunni, þótti hins vegar ekki eins mikið til koma, a.m.k. ekki þegar hann leit um öxl mörgum áratugum síðar. Það var Benedikt skáld Gröndal, sem í sjálfsævisögu sinni talar um hana í þeim hálfkæringi sem honum var löngum tamur:

Einn vetur var leikin kómedía, "Pak" eftir Overskou, og snerum við henni á íslensku. Jón Guðmundsson var gleðimaður og vildi ætíð styrkja allt sem til einhverra framfara horfði, svo hann stóð fyrir leiknum, en aðalleikararnir voru Magnús Grímsson, Stefán Thorarensen og Rannveig Sivertsen kona hans (fyrri), Guðrún Thorstensen og Þorvaldur Pétursson --- Sigríður Einarsdóttir og ég; Magnús lék "Palle Blok", en ég "Kvit", og nennti ég ekki að læra þetta utan að, svo ég diktaði inn í víða; ekki man ég hversu við lékum, en þá þótti allt gott, eins og seinna, hversu lélegt sem var. Þetta gekk annars ekki styrjaldarlaust, við körpuðum og rifumst við Jón Guðmundsson, og stundum var allt nærri farið í hundana. Nielsen hjálpaði til með "skenuna" eða leiktjöldin, og voru þau lengi fram eftir eign þessa "leikfélags".
 

lmjongum.jpg
Til baka