Jan 17, 2020

1846


Leiksýningar hefjast aftur í nýjum Reykjavíkurskóla

Árið 1805 var skólinn fluttur frá Reykjavík til Bessastaða þar sem hann var næstu fjörutíu ár. Stiftsyfirvöldin töldu æskulýðinn betur settan í sveitasælunni en rétt ofan í þeim solli sem þreifst við dönsku kaupmannsbúlurnar í kaupstaðnum. Var fremur lítið um leiksýningar í Reykjavík á fyrri hluta 19. aldar og heimildir um þær segja sjaldan mikið. Á öðrum áratug aldarinnar er þó vitað um nokkrar sýningar í bænum og munu þær einkum hafa verið haldnar að frumkvæði Rasmusar Rask sem var þá staddur hér á landi. Leiknir voru gamanleikir eftir Ludvig Holberg, auk þess sem rykið var dustað af textum Sigurðar Péturssonar, Hrólfi og Narfa. Virðist sem leikið hafi verið á tveimur stöðum, í landsyfirréttarhúsinu, sem stóð þar sem er nú horn Vallarstrætis og Hallærisplans, og í Klúbbhúsinu við suðurenda Aðalstrætis. Á þessum árum bar stöku sinnum við að danska yfirstéttin í Reykjavík efndi til leiksýninga heima hjá sér, en áhugamannasýningar voru vinsæl dægradvöl meðal betri borgara í Danmörku, gjarnan í sérstökum félögum eða klúbbum. Er greinilegt að angi af þeirri hreyfingu barst hingað, bæði til Reykjavíkur og raunar einnig Ísafjarðar, Akureyrar og jafnvel fleiri staða. T.d. eru óljósar sagnir um að stiftamtmaður að nafni Vibe hafi efnt til leiksýninga á Bessatöðum um aldamótin 1800.

En skólapiltar hættu ekki öllu leiksýsli, þó að þeir hefðu verið fluttir út í sveit. Að vísu gekk þeim fremur böslulega, sbr. eftirfarandi klausu í Reykjavíkurpóstinum (janúar 1848) sem gefur skemmtilega yfirsýn yfir þetta tímabil íslenskrar leiksögu:

Meðan skólinn var í Reykjavík, og framan af veru hans á Bessastöðum voru skólapiltar vanir að hafa sér til skemtunar að leika sjónarleiki í hátíða tómunum, og varð þá annaðhvort einhver piltur til að semja leikritið, eða þeir feingu til þess einhvern utanskóla mann, og eru leikrit þeirra Sigurðar Péturssonar og Geirs Vídalíns þannig undir komin. Vér höfum einatt heyrt menn, er þá voru í skóla, tala um það með mikilli ánægju, hvílík skemtun þetta hafi verið fyrir piltana, og má þó nærri geta að mörgu muni hafa verið áfátt, þar sem allar tilfæringar vantaði, og þeir urðu að leika svona rétt eins og þeir stóðu á miðju gólfi í annarri hverri skólastofunni. Enda lagðist nú og þessi siður niður, og mun það fremur hafa komið af því, að mönnum buðust ekki hentug leikrit, því ekki dugði að leika aptur og aptur upp hið sama, heldur enn hinu, að menn hafi orðið leiðir á leikunum...

Sá sem skrifaði þetta hefur sýnilega ekki haft spurnir af hinum svonefnda Álfsleik sem Bessastaðasveinar lögðu stund á og nokkrar sagnir fara af. Eftir þeim að dæma var hann einhvers konar spunaleikur um hreppstjórann Álf í Nóatúnum, heimskan og illa innrættan karlfausk sem gæti vel hafa átt sér fyrirmynd í svipuðum fígúrum í klassískum gamanleikjum. Kannski var hann einnig stældur eftir einhverjum íslenskum körlum; þannig hafa skáldin löngum unnið, blandað saman bókmenntalegum fyrirmyndum og efni úr eigin umhverfi. Virðist sem piltar hafi stundað leik þennan á svefnlofti sínu og haft rúmstæðin fyrir mismunandi staði eða svið. Sumum pilta varð Álfur hugstæður og má því til sönnunar vitna í bréf sem Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson skrifaði vini sínum Jónasi Hallgrímssyni frá Kaupmannahöfn árið 1828. Tómas var þá nýkominn til náms í Höfn, en Jónas enn á skólabekk heima. Tómas skrifar: "Að ganga á comedíur /fara í leikhús/ er að sönnu gaman fyrst í stað, en maður verður strax leiður á að sjá þær grettur og ólæti; ég tek ekki það fríða sjónleikahús og allar þess fögru útsjónir - gullna sali, skóga, sjó, sól og tungl, skruggur og eldingar og allt það, sem konstin hefur getað upp fundið til að prýða það með, til jafns við Álf, þegar Guðbrandur er búinn að stela úr skemmu hans, heima í Bessastaða svefnlofti, á meðal ykkar."

Eftir að Lærði skólinn fluttist frá Bessastöðum til Reykjavíkur árið 1846 leið ekki á löngu áður en piltar tóku aftur að leika - og að þessu sinni fyrir aðra en sjálfa sig. Fóru fyrstu sýningarnar fram þegar á jólum 1846 og voru þá fluttir stuttir samtalsþættir sem piltar hafa trúlega samið sjálfir. Segir í Bræðrablaði, skólablaði pilta, að tilgangur þessara skemmtana hafi verið sá: "að jafnframt því er vér skemtum bæarmönnum skyldum vér og fræða þá eða laga, og koma inn hjá þeim réttari skoðun á ýmsu en vér héldum að þeir áður hefðu." Piltar voru sem sé ekki feimnir við að hafa vit fyrir samborgurum sínum, enda ólíklegt að þeir hafi verið sakaðir um "forsjárhyggju". Andi upplýsingarinnar og Sigurðar Péturssonar sveif enn yfir vötnum.

Á þrettándanum 1848 var tekinn fyrir gamanleikurinn Erasmus Montanus eftir Holberg. Það efnisval var nærtækt, því að leikurinn fjallar um námsmann sem miklast svo af lærdómi sínum að hann þykist ekki geta talað annað en latínu við bændurnar í heimasveitinni og fær að sjálfsögðu makleg málagjöld fyrir; þetta er einn af skemmtilegustu leikum Holbergs og enn leikinn af Dönum. Árið eftir var annar leikur Holbergs, Den Stundeslöse (Tímaleysinginn) fluttur, en eftir pereatið 1850, þegar piltar afhrópuðu Sveinbjörn Egilsson rektor, hertu yfirvöld mjög að öllu félagslífi og lögðust þá leiksýningar niður í mörg ár. Það var ekki fyrr en á seinni hluta sjöunda áratugarins að þær tóku nýjan fjörkipp.

En um það leyti var hafinn nýr kafli í íslenskri leiklistarsögu. Árið 1848 tók tveggja ára prestaskóli til starfa í Reykjavík, fyrsti vísirinn að innlendum háskóla. Tilkoma þessara menntastofnana, Lærða skólans, Prestaskólans og síðar Læknaskólans, átti mikinn þátt í því að umbylta reykvískum bæjarbrag og ryðja þjóðlegri anda braut. Af hinu aukna skólastarfi leiddi að stór hópur ungra manna hafði jafnan veturvist í höfuðstaðnum sem fór ekki framhjá neinum í rúmlega þúsund manna bæjarfélagi. Það var úr þessum fríða flokki sem flestir helstu leikarar og leikáhugamenn komu næstu áratugi. Þarna var að myndast jarðvegur sem í fyllingu tímans átti eftir að bera ýmsa góða ávexti.

1846rvks.jpg
Til baka