Jan 16, 2020

Gúttó á Sauðárkróki


Gúttó á Sauðárkróki var reist árið 1897. Þar var leikið frá upphafi og hafa Haraldur Björnsson leikari og Helgi Hálfdanarson þýðandi rifjað á skemmtilegan og lifandi hátt æskuminningar sínar frá leiksýningum þar. Á þriðja áratugnum eignaðist bærinn nýtt samkomuhús, Bifröst, sem er enn í fullri notkun, og fluttist þá leikstarfið þangað að mestu. Þar var Leikfélag Sauðárkróks stofnað árið 1941 og hefur starfað allt til þessa dags.

Gúttó á Sauðákróki er ásamt Gúttó í Hafnarfirði eina samkomuhús Góðtemplara sem enn stendur í upphaflegri mynd, að heita má. Þetta er miklu minna hús en Gúttó Hafnfirðinga, varla meira um sig en venjuleg skólastofa. Samt skilaði það sínu með ágætum og varð í vitund hrifnæmra ungmenna mikið hús ævintýranna. Mönnum var t.d. minnisstætt fortjaldið sem hékk fyrir sviðinu og sýndi sólarlag yfir Skagafirði. Það var málað af Einari Jónssyni frá Fossi sem varð á öðrum áratug aldarinnar aðalleiktjaldamálari Leikfélags Reykjavíkur.

Haraldur Björnsson segir svo frá í sjálfsævisögu sinni Sá svarti senuþjófur: "Við sátum þarna á fremsta bekk börnin og horfðum hugfangin á þetta stórkostlega fortjald. Svo var tjaldinu rúllað upp eins og vera ber því það á aldrei nokkurn tíma að draga tjald til hliðar í leikhúsi eins og gert er í Þjóðleikhúsinu. Það á að lyftast hægt og tignarlega upp af sviðinu og algerlega hljóðlaust. Það gerði það nú raunar ekki þarna. En upp fór það samt og leikurinn hófst. Og það var leikið af slíku raunsæi að blóðið rann í lækjum eftir sviðinu. Það var nefnilega barist langa hríð, ekki bara sverðin dregin úr slíðrum eins og nú er gert, heldur var raunverulega barist á sviðinu. Leikararnir höfðu poka með lit innan klæða og svo var stungið í pokana. Svo lágu þeir dauðir í blóði sínu á sviðinu steindauðir."

Á síðari árum hefur Gúttó verið nýtt til félagastarfsemi sem gæti sem hægast rýmst annars staðar. Í ljósi einstæðrar sögu hússins og þess átaks, sem gert hefur verið á Sauðárkróki til að varðveita og viðhalda hinni gömlu bæjarmynd staðarins, er vonandi að bæjaryfirvöldum takist að finna húsinu hlutverk við hæfi. Þar gæti t.d. farið mjög vel að hafa fasta sýningu um hið einstæða menningarstarf Skagfirðinga á sviði tónlistar og leiksýninga. Raunar er vart hægt að hugsa sér betra dæmi um menningartengda ferðamannaþjónustu í þessu héraði sem hefur lagt svo mikið að mörkum til leiklistar- og tónlistarsögunnar.

Heim.: Jón Viðar Jónsson, Menningarhús á Sauðárkróki

lhgtosau.jpg
Til baka