Jan 16, 2020

Gúttó í Hafnarfirði


Gúttó í Hafnarfirði er eitt af allra fyrstu góðtemplarahúsum landsins. Það var byggt árið 1886 og vígt 17. desember sama ár. Það var stúkan Morgunstjarnan sem lét byggja húsið, en þegar stúkan Daníelsher nr. 4 var stofnuð gaf Morgunstjarnan henni helming hússins. Þó að Góðtemplarareglan viðurkenndi enga stéttaskiptingu í orði, mun "fína fólkið" í Hafnarfirði fremur hafa átt sæti í Morgunstjörnunni, en alþýða manna í Daníelsher. Ekki er þó annars getið en samkomulag milli stúknanna hafi yfirleitt verið með ágætum. Húsið var í fyrstu aðeins sá hluti sem nú er samkomusalur. Árið 1907 var byggð þverálma sunnan við það með leiksviði og húsvarðaríbúð og árið 1929 var lokið við að byggja aðra þverálmu norðan við það í þeirri mynd sem nú er. Báðar álmurnar eru á tveimur hæðum með risi og talsvert hærri en salurinn.

Gúttó var fyrsta eiginlega samkomuhús Hafnfirðinga og aðalmenningarmiðstöð bæjarins í áratugi. Þar störfuðu stúkurnar og þar voru haldnir fundir og skemmtanir af öllu tagi, söngskemmtanir, guðsþjónustur og dansleikir. Bæjarstjórnin hélt þar fyrsta fund sinn og fundaði þar síðan í tvo áratugi. Af félögum, sem voru stofnuð í húsinu, má nefna Verkamannafélagið Hlíf og Sjómannafélag Hafnarfjarðar.

Í Gúttó var leikið frá upphafi, þó að aðstaða til leiksýninga batnaði að sjálfsögðu til mikilla muna þegar sviðsbyggingin kom til árið 1907. Fyrstu verkin, sem flutt voru á hinu nýja sviði, voru Skugga-Sveinn og Nýársnóttin, svo að vart gat byrjunin verið þjóðlegri. Frægasti Skugga-Sveins-leikari Hafnarfjarðar var Eyjólfur Illugason járnsmiður, sem var einnig meðal framámanna Góðtemplara, og lék hlutverkið hvenær sem leikurinn var settur upp á um þrjátíu ára tímabili. Leikfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1936 og starfaði fyrstu árin í Gúttó, en veturinn 1944-45 flutti það starfsemi sína í hið nýja bíóhús bæjarins og starfaði þar á meðan það var við lýði. Þó að sviðið í Bæjarbíói væri ekki stórt þóttu aðstæður til leiksýninga þar skárri en í gamla Gúttó.

Frá sjónarhóli húsaverndar var brottflutningur L.H. úr Gúttó mikið happ, því að um leið minnkaði ágangur á húsinu og sviðinu, þó að enn færi þar fram ýmis starfsemi, þ. á m. danskennsla. Húsið er í dag á heildina litið í ágætu ástandi, enda voru gerðar á því viðamiklar endurbætur árið 1992 af Jóni Kr. Jóhannessyni í samvinnu við Lovísu Christiansen innanhúsarkitekt hjá Litlu teiknistofunni. Þessar endurbætur miðuðust við að færa húsið sem mest til upprunalegs horfs og ekki hægt að segja annað en það hafi tekist frábærlega vel.

Því miður eru flest góðtemplarahúsanna horfin sjónum og ekki álitamál að þar hefur mikilvægur hluti af íslenskum menningararfi farið forgörðum. En Gúttó í Hafnarfirði stendur enn og er trúlega besta dæmið, sem við eigum, um íslenskt landsbyggðarleikhús frá fyrri hluta síðustu aldar. Sviðshúsið er enn í upphaflegri mynd og sömuleiðis búningsherbergin undir sviðsgólfinu, þó að þau hafi ekki verið nýtt í áratugi. Leiktjöld frá fyrri hluta aldarinnar standa jafnvel enn til hliðar á sviðinu: danskir skógarlundir og íslenskt fjallalandslag sem minnir á þá daga þegar Ævintýri á gönguför og Skugga-Sveinn voru þarna fastagestir.

Húsið væri kjörinn vettvangur undir lifandi safnastarf af einhverju tagi og óskandi að Hafnfirðingar beri gæfu til að finna því verðugt hlutverk, þó að sjálfsögðu verði alltaf að sýna mikla gætni í meðferð á slíku húsi.

Heim: Freyja Jónsdóttir: Góðtemplarahúsið Suðurgötu 7, Hafnarfirði, Morgunblaðið (Fasteignablað), 1. des. 2003.

lhgtohaf.jpg
Til baka