Jan 16, 2020

Borgarleikhúsið


Það var fljótlega eftir 1950 að tekið var að ræða hugmyndir um byggingu nýs leikhúss, Borgarleikhúss, fyrir Leikfélag Reykjavíkur. Þó að ákveðið væri að halda starfi félagsins áfram eftir opnun Þjóðleikhússins 1950, var flestum ljóst að gamla Iðnó hentaði ekki til frambúðar sem aðsetur nútímalegrar leikstarfsemi í samkeppni við Þjóðleikhúsið eða önnur leikhús.

Málinu var fyrst hreyft formlega á aðalfundi L.R. árið 1953. Reksturinn hafði gengið mjög vel undanfarið leikár og var þá ákveðið að tillögu Brynjólfs Jóhannessonar, formanns, að leggja 25.000 kr. inn á reikning sem héti Húsbyggingarsjóður Leikfélags Reykjavíkur. Á næstu árum var unnið í málinu og sjóðurinn efldist; m.a. var efnt til happadrættis og hafnar viðræður við borgaryfirvöld um samstarf og lóðarval. Sérstakri húsbyggingarnefnd var komið á fót árið 1959 og tveimur árum síðar fjáröflunarnefnd sem stóð um árabil fyrir skemmtunum í Austurbæjarbíói. Á fundi borgarstjórnar árið 1964 var mörkuð sú opinbera stefna að Leikfélag Reykjavíkur skyldi áfram hafa "frumkvæði að byggingu Borgarleikhúss með öflugum styrk Reykjavíkurborgar og almennum stuðningi Reykvíkinga" og var síðan fé veitt árlega í sérstakan húsbyggingarsjóð borgarinnar sem var alveg óháður húsbyggingarsjóði Leikfélagsins.

Um þetta leyti var fyrst tekið að ræða möguleika á því að húsið yrði reist í "nýja miðbænum" austan Kringlumýrarbrautar og voru skoðanir mjög skiptar um það staðarval. Fannst mörgum, ekki síst af eldri kynslóð leikfélagsfólk, að leikhúsið nýja myndi fara best á fornum slóðum við Reykjavíkurtjörn, t.d. á Bárulóðinni þar sem Ráðhús Reykjavíkur reis síðar; reyndar vill svo til að þessi staður hafði einnig verið til umræðu fyrir Þjóðleikhúsbygginguna um hálfri öld fyrr. Eftir miklar umræður og átök samþykkti aðalfundur L.R. árið 1972 að húsið skyldi rísa í nýja miðbænum. Skipulag hans var þá enn lítt á veg komið og mun þetta hafa verið afráðið í trausti þess að húsinu yrði valinn staður við það sem myndi verða aðaltorgið.

Um miðjan maí 1975 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur stofnskrá fyrir Borgarleikhúsið í Reykjavík. Segir þar m.a. að Leikfélagið og Reykjavíkurborg láti reisa sameiginlega hús til sjónleikjahalds í borginni sem rekið yrði sem sjálfstæð stofnun í eigu beggja aðila en eignarhlutur hvors um sig yrði endanlega ákveðinn um leið og byggingu hússins lyki og þá í réttu hlutfalli við framlagt verðmæti. Aðeins einn borgarfulltrúi var þessu andvígur, Albert Guðmundsson, sem taldi óeðlilegt að borgarstjórn Reykjavíkur byggði að verulegum hluta rándýrt hús og afhenti það síðan fámennum hópi áhuga- og atvinnufólks til ráðstöfunar. Væri eðlilegast að borgarstjórn ræki leikhúsið eins og önnur mannvirki borgarinnar, en rekstur L.R. héldist óbreyttur.

Arkitektar hússins voru ráðnir Guðmundur Kr. Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson og voru teikningar þeirra samþykktar af borgaryfirvöldum og L.R. í ágúst 1975. Sættu þær mikilli gagnrýni opinberlega, þegar þær voru kynntar, og var m.a. bent á að húsið yrði alltof dýrt í rekstri. Auðvitað fannst ungu, róttæku leikhúsfólki af ´68-kynslóðinni svonefndu, sem þá var í miklum uppgangi, tæknivædd stofnanaleikhús af þessu tagi heyra til liðnum tíma. Þessi hópur tengdi slíkar stofnanir borgaralegri hástéttarmenningu og taldi mikilvægara að ná með sinni framsæknu og gagnrýnu leiklist til áhorfendahópa sem færu sjaldan eða aldrei í leikhús; það er kannski ekki einber tilviljun að Alþýðuleikhúsið er stofnað einmitt þetta ár. Hvað sem um réttmæti þessarar gagnrýni má segja verður í ljósi reynslunnar ekki annað sagt en að efasemdir um burði L.R. til að reka slíkt leikhús, hafi reynst á rökum reistar.

Leikfélagsfólk hélt ótrautt sínu striki og 31. október 1976 settist Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri upp í stórvirka vélskóflu og gróf fyrstu skóflustungu. Þó að framkvæmdir hæfust þá þegar, þótti Leikfélagsfólki þær ganga heldur hægt, einkum á meðan "vinstri meirihlutinn" svokallaði sat í borgarstjórn á árunum 1978-1982. Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur til valda var hins vegar settur aukinn kraftur í bygginguna. Lagði Davíð Oddsson borgarstjóri hornsteininn á 89 ára afmæli L.R. 11. janúar 1986 og var þá að því stefnt að ljúka byggingunni í september 1988. Borgarleikhúsið var þó ekki tilbúið til afhendingar fyrr en síðsumars 1989 og voru L.R. afhent lyklavöldin að húsinu 3. sept. 1989. Það var opnað með hátíðlegri viðhöfn dagana 20. -22. október og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins (Litla svið) og Höll sumarlandsins (Stóra svið).

Borgarleikhúsið er eitt stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 fermetrar að stærð. Það er byggt úr steinsteypu með miklu, álklæddu þaki. Áhorfendasalir voru í upphafi aðeins tveir, sá stærri rúmar 520 manns í sæti og sá minni allt að 270 manns, að hluta á svölum umhverfis. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan. Stóra sviðið er 20,8 m á breidd og 15,5 m á dýpt; við breiddina bætast tvö hliðarsvið, við dýptina bogadregið forsvið og baksvið. Sviðsopið er 13,5 m á breidd og 8 m á hæð. Hæð frá sviðslofti upp í grindaloft eru fullir 20 m og ofan við grindarloftið ein mannhæð upp í rjáfur. Á framsviðinu er lyfta með hljómsveitargryfju sem rúmar 55 hljóðfæraleikara og ofan við sviðið vökvaknúið sviðsráakerfi. Hugmyndin var í upphafi sú að Litla salnum væri hægt að breyta með ýmsum hætti eftir þörfum sýninga; í framkvæmd hefur sviðið þó oftast verið fyrir miðjum sal og áhorfendabekkir í hvirfingu í kring. Í október 2001 var þriðja salnum bætt við, Nýja sviðinu; þar er leikið á sléttu gólfi frammi fyrir upphækkuðum sætum, sem eru 210 talsins. Auk þess hefur stöku sinnum verið leikið á öðrum stöðum í húsinu, í starfsmannarými baksviðs, og í veitingasölu (Leynibarnum) sem rekin var í kjallaranum um skeið.

Heim: Sveinn Einarsson, Leikhúsið við Tjörnina (Reykjavík 1972), s.h. Níu ár í neðra (Reykjavík 1984), Þórunn Valdimarsdóttir og Eggert Þór Bernharðsson, Aldarsaga - Leikfélag Reykjavíkur (Reykjavík 1997), ópr. samantekt frá Þorsteini Gunnarssyni arkitekt

lhborgar.jpg
Til baka