Jan 15, 2020

Fjalakötturinn


Breiðfjörðsleikhús ("Fjalakötturinn")

Aðalstræti 8, sem í munni almennings gekk lengst undir því óvirðulega heiti "Fjalakötturinn", var í raun húsasamstæða reist í áföngum á alllöngum tíma af Valgarð Ó. Breiðfjörð kaupmanni. Valgarður eignaðist húsið upphaflega með konu sinni, Önnu Einarsdóttur, og hóf brátt að stækka það, breyta því og byggja ýmis samtengd úthýsi upp í brekkunni fyrir aftan, fjós, hesthús og margs kyns geymsluhús.

Sumarið 1892 komu hingað danskir leikendur, hjónin Edvard og Olga Jensen, og sýndu nokkra danska smáleiki í Gúttó. Er haft fyrir satt að Breiðfjörð hafi hrifist svo af leik þeirra að hann ákvað að byggja og innrétta leikhús í húsasamstæðu sinni til að þau gætu sýnt landanum list sína við boðlegar kringumstæður. Breiðfjörð kunni því betur að láta hendur standa fram úr ermum og var húsið tilbúið til notkunar þegar hjónin bar aftur að garði næsta sumar, 1893. Það var í stóru þverhúsi vestast og yst í húsasamstæðunni. Mun Jensen hafa verið Breiðfjörð mjög til ráðuneytis um alla tilhögun og hefur eitt blaðanna eftir honum að húsið muni duga Reykjavík í hundrað ár. Hann varð að vísu ekki fyllilega sannspár um það, en engu að síður er "Fjalakötturinn" merkilegt hús í íslenskri leiklistarsögu, fyrsta hús Reykjavíkur sem var byggt með þarfir leiklistarinnar einnar í huga.

Því miður eru heimildir um þetta leikhús ekki nærri eins glöggar og maður hefði kosið. Engar ljósmyndir hafa t.d. varðveist, svo vitað sé, úr leiksalnum, eins og hann var í upphafi, en mynd er til af salnum eftir að hann var orðinn bíósalur. Það eru einkum samtíðarlýsingar úr blöðum, sem við er að styðjast, auk brunavirðinga og því sem síðari athuganir fræðimanna leiddu í ljós. Salurinn lá frá suðri til norðurs og hefur sviðið trúlega verið í norðurendanum, þar sem inngangurinn í hann var að sunnan; bíótjaldið hékk hins vegar í honum sunnanverðum. Ekki er heldur ljóst með hvaða hætti búningsaðstaða leikenda var; sennilega þó undir sviðinu eða kjallaranum undir salnum. Af sjálfu leiðir að allt byggingarlag þessarar húsasamstæðu allrar var hið sérkennilegasta, en meðal þess sem setti hvað sterkastan svip á það var port inní byggingunni með glerþaki yfir. Sveinn Einarsson, sem skoðaði húsið áður en það var rifið, lýsir aðkomunni að salnum svo í riti sínu Íslensk leiklist: "Komið var inn í eins konar forstofu frá Bröttugötu, sem er suðurhlið hússins, sveigt til hægri og varð þá fyrir manni breiður stigi til vinstri og gekk á að giska inn í mitt húsið. Stigauppgangurinn var mjög sterkt einkenni, því að sem sagt var gengið upp í salinn. Þar var stór stigapallur eða forsalur og var til austurs glergluggi þar sem sá inn í portið, sem glerþakið var yfir. Þar hafði verið veitingarekstur á dögum Breiðfjörðs og reyndar eftir að bíóið var komið á skrið; sömuleiðis höfðu verið veitingaborð úr marmara á sjálfri hæðinni, í norðurálmunni, fyrir norðan glerportið. Allt var þetta umhverfi hið ævintýralegasta og dró hugann til útlanda, enda mun kaupmaður hafa sótt þangað fyrirmyndir." Hefur þess verið getið til að Breiðfjörð kaupmaður, sem fór iðulega utan í verslunarerindum, hafi sótt hugmyndina að portinu með glerþakið til Chrystal Palace í London eða annarra enskra glerhúsa sem gerð voru á seinni hluta 19. aldar sem vörusýningarhús.

Að því er fram kemur í samtíðarheimildum var salurinn 16, 95 m að lengd og 8,79 m að breidd. Þar voru sæti fyrir 300 manns í sal og á áhorfendasvölum í aftari enda hans. Auk þess voru stæði fyrir um 100 áhorfendur til viðbótar, en slíkt fyrirkomulag tíðkaðist í dönskum landsbyggðarleikhúsum á þessum tíma. Nokkur hluti áhorfendasætanna var á upphækkuðum pöllum og hafa þau þá ugglaust verið bæði þægilegri og dýrari. Sjálft sviðið mun hafa verið 5, 02 m að dýpt og miklu rúmbetra en sviðið í Gúttó. Fyrir því var fortjald með íslensku vetrarlandslagi og stafaði frá því hrollköldum blæ, að sögn eins samtíðarmanns. Eftir að leikhúsið var opnað í júlí 1892 gerði Breiðfjörð ýmsar endurbætur á salnum, setti m.a. í hann ofn og tvær stórar ljósakrónur. Árið 1897 voru sett gasljós í húsið, fyrst húsa í Reykjavík.

En þrátt fyrir allt þetta þótti húsið aldrei sérlega vandað að gerð og var snemma tekið að uppnefna það; segir í grein í blaði Valgarðs Breiðfjörð sjálfs, Reykvíkingi, að andstæðingar hans hafi ýmist nefnt húsið Hristing, Skjálfanda eða Fjalakött og mætti úr samtíðarblöðum tilfæra ýmis niðrandi ummæli um það. Í byggingunni ægði saman alls kyns áhrifum og stíltegundum: "Byggingarlag hússins og gluggabúnaður verður að teljast af klassískum toga. Sama gildir um hornsúlurnar á framhlið þess, en í gaflskrautinu gætti áhrifa frá norskri þjóðernisrómantík, svissneska stílnum." (Hjörleifur Stefánsson)

Í Breiðfjörðs-leikhúsi, eins og það nefndist uppá danskan móð, var mikið leikið næstu vetur. Þar stóð Indriði Einarsson fyrir sýningum veturinn 1894-95 á leikritum sínum Hellismönnum og Systkinunum í Fremstadal og tóku flestir helstu leikendur bæjarins þátt í þeim sýningum. En Stefanía Guðmundsdóttir, stjarnan unga sem þau misserin lagði Reykvíkinga að fótum sér, lék þar aldrei; Gúttó var hennar ríki. Í Breiðfjörðs-leikhúsi var einnig sýnd revía Einars Benediktssonar, Við höfnina, árið 1895. Sumt annað, sem þar var sýnt, þótti ekki jafn markvert; í bréfi, sem nokkrir framámenn í Reykjavík senda bæjarstjórn árið 1899 til stuðnings við hið nýstofnaða Leikfélag Reykjavíkur, er t.d. talað um "Fjala-katta-trúðskap" sem þurfi að útrýma af leiksviðum höfuðstaðarins - og dylst ekki að hverjum sú glósa beinist.

Aðalstræti 8 stóð til ársins 1984, er það var rifið, þó að sterk hreyfing væri fyrir varðveislu þess. Eftir að Iðnó kom til sögunnar dró mjög úr öllu leikstarfi þar, þó að skólapiltar léku þar nokkrum sinnum, auk þess sem Leikfélag Templara mun hafa haft þar sýningar. Salarins beið hins vegar merkilegt hlutverk þegar kvikmyndaöld rann upp í Reykjavík, því að þá var honum breytt í fyrsta bíósal bæjarins og starfaði "Biograftheater Reykjavíkur" þar frá 1906 til 1926.

En þó að blómaskeið "Fjalakattarins" væri stutt í leiksögunni gegndi hann engu að síður hlutverki sem engin ástæða er til að vanmeta. Með tilkomu hans myndaðist ákveðin samkeppni milli þeirra sem þar léku og leikenda í Gúttó. Það var sú samkeppni sem varð ásamt ýmsu öðru til að menn réðust í að stofna Leikfélag Reykjavíkur. Hitt er svo annað mál að það var annað og virðulegra hlutverk sem hinn metnaðarfulli leikhúsmaður Valgarð Breiðfjörð hafði ætlað húsi sínu.

Heim.: Guðjón Friðriksson, Fjalakötturinn, Landnám Ingólfs (3) (1986), Hjörleifur Stefánsson (ritstj.), Í Kvosinni (Reykjavík 1987), Páll Líndal, Reykjavík - Sögustaður við Sund, 3. bindi (Reykjavík 1988), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II (Reykjavík 1996)

lhfjalak.jpg
Til baka