Jan 15, 2020

Guðmundur Kamban


Guðmundur Kamban (1888-1945)

Guðmundur Kamban kom fram sem leikskáld í kjölfarið á Jóhanni Sigurjónssyni. Hann var óvenju fjölhæfur listamaður, samdi bæði skáldsögur, ljóð og leikrit, gerði kvikmyndir og fékkst talsvert við leikstjórn. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem stundar leikstjórn við leiksvið sem atvinnu; þó að hann gerði hana ekki að reglubundnu ævistarfi greip hann í að leikstýra, eftir því sem tækifæri buðust, alla ævi. Metnaður hans sneri þó fyrst og fremst að eigin verkum.

Guðmundur Kamban var lengst af í góðum metum hjá Dönum. En verk hans hlutu misjafnt gengi hjá þeim og á ýmsu gekk í sambúð hans við þá, einkum síðustu árin sem hann lifði. Hér heima hafa einungis þrjú leikrita hans verið leikin að einhverju marki: Skálholt, Vér morðingjar og Marmari. Erlendis er hann jafn gleymdur og Jóhann Sigurjónsson. Heildarútgáfa verka hans á íslensku kom út hjá Almenna bókafélaginu árið 1969.

Guðmundur var fæddur í Litlabæ á Álftanesi, en fluttist ungur með foreldrum sínum vestur í Arnarfjörð. Hann var settur til náms í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1910. Á námsárum sínum í Reykjavík komst hann í kynni við Björn Jónsson, ritstjóra Ísafoldar, einn helsta áhrifamann landsins, og var um tíma blaðamaður á Ísafold. Björn var mikill áhugamaður um spíritisma og var talið að Guðmundur byggi yfir miðilshæfileikum og gæti skrifað ósjálfráða skrift. Kom út lítið kver Úr dularheimum með sögum sem ýmis framliðin stórskáld áttu að hafa skrifað í gegnum hann. Þetta var upphaf á ritferli Guðmundar, þó að hann skrifaði eftir þetta í eigin nafni.

Eftir stúdentspróf hélt Guðmundur til náms við Hafnarháskóla, en lauk aldrei prófi. Hugur hans hneigðist allur að bókmenntum og leiklist og ekki að efa að fordæmi Jóhanns Sigurjónssonar hafði djúp áhrif á hann. Þá stundaði hann nám í framsagnarlist hjá Peter Jerndorff, einum kunnasta leikara Dana. Þótti hann alla tíð afbragðsupplesari og las gjarnan úr eigin verkum. Hann samdi fyrsta leikrit sitt, Höddu Pöddu, árið 1912, það kom út á íslensku sama ár og á dönsku árið 1914. Það var frumsýnt í Kgl. leikhúsinu í nóvember sama ár. Aðstoðaði Guðmundur við uppsetninguna og mun sjálfur hafa annast sviðsetningu á lokaþættinum sem fer fram á barmi mikils gljúfurs. Leikstjóri var annars Johannes Nielsen, sá hinn sami og hafði stjórnaði sýningunni á Fjalla-Eyvindi tveimur árum áður. Hadda Padda fékk prýðisundirtektir gagnrýnenda og gekk vel, var sýnd 13 sinnum. Um vorið var leikurinn sýndur í sænska þjóðleikhúsinu, Dramaten, (4 sýn) og á næstu jólum hjá Leikfélagi Reykjavíkur (16 sýn). Ekki verður því annað sagt en Guðmundur Kamban hafi byrjað leikhúsferil sinn með glæsibrag. Hann þurfti ekki að klífa sama bratta og Jóhann Sigurjónsson, en hvort það var honum til góðs sem skáldi og leikhúsmanni er annað mál. Hadda Padda fer fram á Íslandi samtímans og er aðalefnið flókin ástamál með íslenska náttúru í baksýn. Sama má segja um næsta leikrit Guðmundar, Konungsglímuna. Hún mun samin þegar árið 1913 og kom út á dönsku árið 1915. Hún var fyrst sýnd, eftir því sem best er vitað, í Norska leikhúsinu í Osló 28. des. 1916 og í Reykjavík á jólum 1917 (9 sýn). Kgl. leikhúsið í Kaupmannahöfn tók leikinn til sýninga haustið 1920 og voru undirtektir gagnrýnenda fremur daufar (10 sýn). Skömmu áður hafði Guðmundur unnið einn mesta sigur sinn með Oss morðingjum og samanburðurinn ekki hagstæður Konungsglímunni.

Á árunum 1915 - 17 dvaldist Guðmundur Kamban í Bandaríkjunum og hugðist hasla sér völl sem rithöfundur á enska tungu, en hafði þar ekki erindi sem erfiði. Hadda Padda kom þó út í New York árið 1917 með formála eftir Georg Brandes. Þekktar heimildir um athafnir Guðmundar í þessari ferð eru ekki miklar, en ljóst er þó að hann lagði sig eftir kvikmyndagerð og mun hafa komist í samband við framámenn í kvikmyndageiranum. Ameríkudvölin varð honum drjúg efnisuppspretta, því að næstu leikrit hans, Vér morðingjar og Marmari gerast bæði vestanhafs ásamt hluta af skáldsögunni Ragnari Finnssyni, sem kom út á dönsku árið 1922. Hafi Guðmundur í fyrstu leikritum sínum gert út á þá Íslandsrómantík, sem vinsæl var í Danmörku um þær mundir, hvarf hann frá henni í þeim verkum, sem hann samdi eftir Ameríkudvölina; þau eru siðferðislegar ádeilur í raunsæislegum búningi og spurningin um réttmæti refsinga, sem skáldið hafði miklar efasemdir um, efst á baugi.

Marmari kom út á dönsku árið 1918, en hefur aldrei náð upp á danskt leiksvið, þó að bæði Kgl. leikhúsið og Dagmar-leikhúsið muni hafa sýnt leiknum áhuga. Hann var fyrst fluttur í Mainz í Þýskalandi árið 1933. Á Íslandi var hann frumfluttur af L.R. á jólum 1950 og varð sú sýning frægur sigur, ekki síst fyrir afburðaleik Þorsteins Ö. Stephensen í aðalhlutverki dómarans Robert Belford. Belford rís upp gegn siðferðislegri hræsni valdastéttanna og er fyrir bragðið settur á geðsjúkrahús, þar sem hann fremur að lokum sjálfsmorð.

Eftirleikurinn gerist áratugum síðar, þegar stytta er afhjúpuð af Belford; hann er þá orðinn píslarvottur hugsjóna sinna. Sagt var að lesa hefði mátt í þau leikslok skírskotun til mikilla hátíðahalda sem efnt var til í Danmörku árið 1913 í tilefni af aldafarmæli Sörens Kierkegaard, sem ekki var mikils metinn af öllum um hans daga. - Þá var leikurinn fluttur í Þjóðleikhúsinu árið 1988 undir leikstjórn Helgu Bachmann, systurdóttur skáldsins.

Betur gekk með næsta leikrit. Vér morðingjar voru frumsýndir undir leikstjórn höfundar í Dagmar-leikhúsinu í mars 1920 og fengu afbragðs undirtektir. Var leikurinn sýndur næsta vetur bæði í Reykjavík, Bergen, Osló og sænska þjóðleikhúsinu í Stokkhólmi. Það var Johanne Dybwad sem lék Normu í sýningu Þjóðleikhússins í Osló og varð sú sýning mikil sigurför (30 sýningar). Leikurinn hefur verið fluttur oftar en nokkurt annað leikrit Guðmundar á íslensku sviði, tvívegis í Þjóðleikhúsinu, auk þess sem íslenska Sjónvarpið sýndi hann árið 1970. Var þá frumflutt eftirspil það sem skáldið samdi til að hnykkja betur á því sem hann sjálfur taldi aðalboðskap leiksins: að bestu menn gætu leiðst út í að fremja morð, ef aðstæðurnar væru þeim nógu öndverðar. Hitt er annað mál að sumum hefur þótt verkið margræðara en svo að sú niðurstaða sé hið eina sem lesa megi úr því. -

Næstu leikrit Guðmundar fengu mun daufari viðtökur: De Arabiske Telte kom út á dönsku árið1921 og sýnt í Dagmar-leikhúsinu um haustið. Síðar umskrifaði hann það undir heitinu Derfor skilles vi og var sú gerð frumsýnd undir stjórn höfundar í Kgl. leikhúsinu í janúar 1939 (26 sýningar). Leikurinn var einnig fluttur í Þjóðleikhúsinu árið 1952 og Leikfélag Akureyrar sýndi hann árið 1978. Örkenens stjerner kom út árið 1925 og var fyrst sýndur í Lübeck árið 1929. Kgl. leikhúsið frumsýndi hann í nóvember 1931 undir stjórn skáldsins, en sú sýning gekk aðeins fimm sinnum. Á Íslandi hefur leikurinn aldrei verið sýndur, en var fluttur í útvarp árið 1968 í tilefni af áttræðisafmæli höfundar. Sendiherrann frá Júpíter var frumsýndur í Iðnó vorið 1927 og var sú sýning á vegum höfundar sem stjórnaði henni og lék aðalhlutverkið. Setti hann Oss morðingja þá einnig upp og lék sjálfur aðalkarlhlutverkið á móti Soffíu Guðlaugsdóttur sem lék Normu. Sendiherrann var sýndur í Betty Nansen-leikhúsinu í Kaupmannahöfn árið 1929 og fór þá mikla hrakför. Gekk leikurinn aðeins tvisvar og var síðari sýningin öllum opin án endurgjalds.

Sem fyrr segir gerði Guðmundur Kamban talsvert af því að leikstýra. Hann stýrði frumflutningi nánast allra verka sinna í Danmörku, en einnig verkum annarra og mun fyrsta sviðsetning hans af því tagi hafa verið Professor Storizyn eftir Leonid Andrejew, rússneskt samtíðarskáld, í Dagmar-leikhúsinu vorið 1921. Þá var hann fastráðinn leikstjóri við Folketeatret frá 1922 til 1924 og setti þar m.a. á svið leikrit Knuts Hamsun Livet i Vold. Á árunum 1931 til ´33 var hann leikstjóri við Kgl. leikhúsið og stýrði m.a. leikritum eftir Bernard Shaw (Enkehuset) og Björnstjerne Björnson (Over evne I). Áður hafði hann stýrt uppfærslu á danskri leikgerð af Vesalingum Hugos á Sönderbro Teater árið 1929. Á þessum árum gerði hann tvær kvikmyndir, báðar eftir eigin verkum: Höddu Pöddu (1923), sem var tekin með dönskum leikurum á Íslandi og Det sovende Hus (1926). Skáldsaga með sama nafni kom út árið 1925, en að sögn höfundar var hún samin á eftir kvikmyndahandritinu.

Guðmundi Kamban fannst ekki alltaf Danir kunna að meta verk sín sem skyldi. Þegar leið á þriðja áratuginn var hann orðinn mjög ósáttur við stöðu sína þar í landi. Tvö leikrit hans, Marmari, sem hann leit á sem höfuðverk sitt, og Örkenens Stjerner, voru óleikin, þó að þau hefðu verið gefin út á bók. Lét hann í ræðu og riti í ljós mikla fyrirlitningu á leikhússtjórum, bæði í Danmörku og víðar, og taldi vestænt leikhús almennt statt á miklu úrkynjunarskeiði. Enginn vafi er heldur á því að hann hafði meiri metnað sem höfundur en sem leikstjóri, en sviðsetningar hans, einkum á eigin verkum, þóttu ekki alltaf takast vel. Þó er augljóst að hann var í nokkuð góðu áliti sem leikstjóri; hann hefði að öðrum kosti aldrei verið ráðinn að jafn kröfuharðri stofnun og Kgl. leikhúsinu.

En Guðmundur horfði einnig heim til Íslands. Þar höfðu nýlega verið samþykkt þjóðleikhúslög og allar horfur á að Íslendingar myndu eignast þjóðleikhús innan fárra ára. Yrði það ekki kjörinn vettvangur fyrir mann með reynslu hans, menntun og gáfur? Í ársbyrjun 1927 kom Guðmundur til Íslands og bauð Leikfélagi Reykjavíkur að setja upp hjá því Oss morðingja og Sendiherrann frá Júpíter. Spruttu miklar deilur af því tilboði, sem félagið hafnaði að lokum, e.t.v. af ótta við að Guðmundur hygðist með þessu festa sig í sessi í leikhúsinu. Indriði Waage var þá ungur maður á uppleið með volduga fjölskyldu á bak við sig og kærði sig ekki um slíka samkeppni. En sjálfsagt gerði Guðmundur andstæðingum sínum auðvelt fyrir með óbilgirni sinni. Deilan leiddi til þess að hann sviðsetti sjálfur leikrit sín vorið 1927 svo sem áður er minnst á, en hún dró á eftir sér lengri slóða, því að eftir þetta var ekkert verka hans leikið á Íslandi á meðan hann var á lífi. Það var ekki fyrr en á jólum 1945 að Skálholt var leikið af Leikfélagi Reykjavíkur.

Sem listamaður var Guðmundur Kamban kominn í nokkurt þrot þegar hér var komið sögu. Að undanskildum fyrstu tveimur leikritum hans og skáldsögunni um Ragnar Finnsson hafði hann í verkum sínum fjallað um söguefni af dönsku, amerísku eða jafnvel alþjóðlegu sögusviði. En þessi verk fundu ekki nema takmarkaðan hljómgrunn í Danmörku og það var engin von til að Íslendingar kynnu að meta þau. Bæði Jóhann Sigurjónsson og Gunnar Gunnarsson höfðu hins vegar sýnt og sannað að það var vel hægt að ná til Dana - og jafnvel annarra þjóða - með verkum úr íslenskri sögu. Það tókst Guðmundi einnig með næsta verki sínu, skáldsagnabálknum um Brynjólf biskup Sveinsson og Ragnheiði dóttur hans, sem kom út á dönsku og íslensku í byrjun fjórða áratugarins. Þó að viðbrögð danskra ritdómara muni hafa verið eitthvað misjöfn tóku lesendur henni afbragðsvel og hún varð langvinsælasta verk hans. Þá var hún þýdd á bæði þýsku og ensku og hlaut sérlega góðar undirtektir í Þýskalandi. Guðmundur samdi einnig leikrit um efni sögunnar, Paa Skálholt, sem var frumsýnt undir stjórn hans í Kgl. leikhúsinu í febrúar 1934. Þó að mikið væri lagt í sýninguna af hálfu leikhússins fékk hún slæma dóma og var einkum kvartað undan lengd hennar; Steinn Steinarr sagði síðar að hann hefði sjaldan séð fólki leiðast jafn mikið í leikhúsi. Einn fremsti leikdómari Dana um þær mundir, Frederik Schyberg, var kurteisari en hafði orð á því í dómi sínum að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Guðmundir spillti eigin verkum með leikstjórn sinni.

Eins og öðrum Norðurlandahöfundum var Guðmundi kappsmál að komast inn á Þýskalandsmarkaðinn Tvö leikrita hans höfðu áður verið sýnd þar í landi, svo sem fyrr getur. Nú höfðu Þjóðverjar kunnað vel að meta Skálholt og því var ekki óeðlilegt þó að skáldið tæki að renna til þeirra hýru auga, þrátt fyrir þær pólitísku breytingar sem orðnar voru í landinu. Eftir misheppnaða tilraun til að koma sér á framfæri í Bretlandi fluttist hann því til Berlínar þar sem hann bjó frá 1935 til 1939, er hann fluttist aftur til Danmerkur ásamt konu og dóttur. Guðmundur var giftur danskri konu, Agnete, f. Egebjerg. Hafði hún verið leikkona á árum áður og m.a. leikið í Höddu Pöddu í Kgl. leikhúsinu. Eignuðust þau eina dóttur, Sibyl. Fjölskyldan átti aldrei fast heimili heldur bjó jafnan á gistiheimilum og mun ástæðan hafa verið sú að frú Kamban var ekki hneigð til hússtjórnar og heimilishalds.

Guðmundur Kamban hélt áfram að rita skáldsögur eftir Skálholt, enda leikhúsgæfan honum ekki ævinlega hliðholl, svo sem sjá má af framansögðu. Den 30. generation kom út á dönsku árið 1933 og gerist á Íslandi samtímans. Árið 1936 kom Jeg ser et stort skönt land (Vítt sé ég land og fagurt) út á dönsku og ári síðar á þýsku. Fjallar hún um Vínlandsferðir Íslendinga og mæltist vel fyrir hjá Þjóðverjum sem gátu lesið í hana lofgerð um yfirburði hins germanska kynstofns og framlag hans til heimsmenningarinnar. Ekki spillti þar fyrir að skáldið lætur Leif Eiríksson hafa þýskan fóstra. Virtist um skeið blása allbyrlega fyrir Guðmundi í Þýskalandi og innan stjórnkerfisins eignaðist hann góða stuðningsmenn sem reyndu að koma honum sjálfum og verkum hans á framfæri. M.a. vann hann um skeið að handritsgerð fyrir kvikmyndafyrirtæki Gustavs Gründgen, hins fræga leikara og leikstjóra, sem Klaus Mann skrifaði síðar um skáldsöguna Mefisto, nöturlega lýsingu á tækifærismennsku leikhúsmannsins sem nýtir tengsl sín við valdhafana sér til framdráttar. Guðmundur samdi handrit að mynd eftir Gösta Berlings sögu Selmu Lagerlöf sem var þó aldrei kvikmyndað. Hefur honum trúlega þótt að lokum ganga tregt fyrir sér meðal Þjóðverja og það m.a. orðið til þess að hann ákvað að snúa aftur til Danmerkur. Þá kann honum að hafa fundist þar tryggara, eins og ástand alþjóðamála var orðið. Ekki skiluðu Þýskalandsárin honum miklu sem leikskáldi; af leikritum hans voru Arabísku tjöldin leikin í Gera árið 1939 og óljósar sagnir eru um að Komplexe hafi verið sýnt í einhverju þýsku leikhúsi.

Á stríðsárunum var Guðmundur Kamban í Danmörku, þar sem kjör hans voru oftast harla kröpp. Kgl. leikhúsið setti að vísu á svið tvö ný leikrit eftir hann árið 1941, Komplekser og Grandezza. Var fyrra leikritið sýnt 29 sinnum (frums. í feb. 1941), og hið síðara 18 sinnum (frums. í nóv. 1941). Honum tókst hins vegar ekki að fá starf að nýju sem leikstjóri við leikhúsið. Honum var því nokkur vorkunn, þó að hann reyndi að leita á náðir Þjóðverja sem seildust til æ meiri áhrifa í dönsku menningarlífi, ekki síst undir lokin, er þeir lögðu m.a. danska útvarpið undir beina stjórn SS. Í Berlín átti hann sér enn velvildarmenn, sem voru fúsir að leggja honum lið, og var það fyrir tilstyrk þeirra að hann var ráðinn til að setja upp gamanleik Björnsons Landafræði og ást í Hamborg árið 1942. En fleiri verkefni buðust honum ekki í þýsku leikhúsi. Á síðari hluta stríðsáranna fékk Guðmundur nokkurn fjárstyrk frá Þjóðverjum til að rannsaka hollustu sölva og mun hafa þurft að sækja greiðslurnar í Dagmarhus, aðalbækistöðvar hernámsliðsins. Hann hafði um langt skeið haft orð á sér fyrir að vera hliðhollur Þjóðverjum og varð þetta allt til þess að að danska andspyrnuhreyfingin tók nú að hafa gætur á honum. Rétt er þó að taka skýrt fram að ekkert bendir til að hann hafi nokkru sinni verið hallur undir málstað þýskra nasista. Hann hafði að vísu látið í ljósi ánægju með þá ákvörðun Göbbels að þagga niður í þýskum gagnrýnendum og eins haldið opinbert erindi um ágæti þegnskylduvinnu sem hann taldi raunar íslenska hugmynd. En nú var orðið auðvelt að nota slíkt gegn honum og stimpla hann sem "medlöber", meðreiðasvein þýska hernámsliðsins.

Þegar Danmörk varð frjáls undan oki Þjóðverja 5. maí 1945, fóru frelsisliðar svonefndir um borgina og leituðu uppi alla sem grunaðir voru um mök við nasista. Virðist sem fjöldi manns hafi verið myrtur án dóms og laga þá um daginn, en þessum þætti í hernámssögu Dana hafa verið gerð furðanlega lítil skil. Um hádegisbil þá um daginn komu þrír ungir menn úr þessum hópi á Pension Bartholi í Uppsalagade 20 þar sem Guðmundur sat að snæðingi ásamt konu sinni og dóttur. Þeir báðu hann um að fylgja sér, en þegar þeir gátu ekki sýnt neina opinbera handtökutilskipun neitaði hann því og lauk orðaskiptum þeirra svo að þeir skutu hann til bana. Aldrei hefur verið gert uppiskátt um nafn þess sem myrti hann eða réttað í máli hans og hefur dönskum stjórnvöldum þó verið fullkunnugt um það.

Kristinn E. Andrésson hélt því fram í bókmenntasögu sinni að Guðmundur hefði ekki verið nægilega frjótt skáld, og það er sjálfsagt mikið til í því. Óneitanlega er áberandi hversu oft hann fer í föt annarra á skáldferli sínum. Hann setti sig gjarnan í stellingar predikarans og á það ugglaust sinn þátt í því hversu illa skáldskapur hans hefur enst. Sem leikhúsmanni og leikstjóra voru honum mislagðar hendur, en það breytir ekki því að leikstjórnarferil hans væri verðugur ítarlegri rannsóknar.

Heim.: Ásgeir Guðmundsson, Berlínar-blús (Reykjavík 1997), Jón Viðar Jónsson, Af óskrifaðri leiklistarsögu (Andvari 1978), Helga Kress, Guðmundur Kamban - Æskuverk og ádeilur (Studia Islandica 29), Jakob F. Ásgeirsson, Margs er að minnast - endurminningar Kristjáns Albertssonar (Reykjavík 1986), Leicht & Hallar, Det kongelige Teaters repertoire 1889-1975 (Köbenhavn 1977), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II (Reykjavík 1996)

lmgudkam.jpg
Til baka