Einungis tvö þeirra sex leikrita, sem Jóhann Sigurjónsson samdi, hafa náð að lifa á íslensku leiksviði, Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur. Þriðja verkið, Mörður Valgarðsson, hefur að vísu verið flutt tvívegis í útvarpi og einu sinni á leiksviði og er að sumra dómi eitt veigamesta skáldverk hans. Sjálfsagt minnast Íslendingar Jóhanns nú einkum fyrir ljóð hans og skrautlegan lífsferil. Engu að síður hafa leikritin lifað allt fram á okkar daga og þó að sumir efist um lífslíkur þeirra, er trúlega full snemmt að gefa út á þau dánarvottorð. Þrátt fyrir allt eru þau verk eins mesta skálds sem hefur helgað íslensku leikhúsi krafta sína.
Jóhann Sigurjónsson var kominn úr einni auðugustu fjölskyldu á Íslandi. Faðir hans, Sigurjón Jóhannesson, var stórbóndi á Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem Jóhann fæddist og ólst upp. Hann innritaðist í Lærða skólann í Reykjavík árið 1896 og að loknu 4.-bekkjarprófi árið 1899 hélt hann til Kaupmannahafnar og innritaðist á danska landbúnaðarháskólann í dýralækningar. Árið 1902 hvarf hann frá því námi og helgaði sig eftir það skáldskapnum að langmestu leyti. Hann gat ekki hugsað sér að stunda listina í hjáverkum líkt og flest íslensk skáld höfðu gert fram að því. Snemma mun honum þó hafa orðið ljóst að hann myndi seint geta haft hana eina sér til lífsviðurværis; a.m.k. reyndi hann talsvert fyrir sér sem uppfinningamaður og síðustu tvö ár ævinnar lagði hann mikla vinnu í undirbúning hafnargerðar við Höfðavatn í Skagafirði. En ekki munu þær tilraunir hafa skilað honum meiri ábata en skáldskapurinn þegar upp var staðið.
Framan af var skáldbrautin Jóhanni torsótt. Í uppvexti sínum á Íslandi hafði hann að sjálfsögðu ekki átt kost á því að kynnast raunverulegu leikhúsi, sem hefði auðveldað honum að skrifa fyrir þennan miðil. Ugglaust tók hann snemma að lesa verk helstu samtíðarskálda, s.s. Ibsens, Björnsons og jafnvel Strindbergs, en um það vitum við raunar frekar lítið. Sjálfur sá hann fyrst leikið í stofunni heima á Laxamýri, þar sem hann varð djúpt snortinn af Skugga-Sveini Matthíasar. Á námsárum hans í Reykjavík tók Leikfélag Reykjavíkur til starfa, en engar heimildir eru fyrir því að starf þess hafi vakið sérstakan áhuga hans. Félagið lagði framan af mest upp úr dönsku léttmeti, sem framsæknir gagnrýnendur á borð við Einar H. Kvaran töldu úrelt og óboðlegt, og það er ólíklegt að Jóhanni hafi þótt það spennandi.
Það varð Jóhanni sem skáldi mikil örvun að flytjast til Kaupmannahafnar, þar sem hann komst í snertingu við ýmsa nýjustu strauma listanna. Hann hafði ort mikið á námsárum sínum í Reykjavík og var staðráðinn að verða ljóðskáld bæði á íslensku og dönsku. Hann tók miklum framförum á fyrstu Hafnarárum sínum, en segja má að blómaskeið hans sem ljóðskálds hafi einkum verið á árunum frá 1905 til 1910; eftir það orti hann lítið. Fyrsta leikrit sitt, Skuggann, ritaði hann á árunum 1902 til 1903, eftir að hann var hættur í dýralæknanáminu, og leyna þar sér ekki áhrif frá Ibsen og jafnvel Strindberg. Sama máli gegnir um Dr. Rung, fyrsta verk hans sem kom út á bók (1905) hjá Gyldendal, einu virtasta forlagi Norðurlanda. Dr. Rung vakti athygli ýmissa danskra bókmenntamanna á hinu unga skáldi, þó að ekkert leikhús vildi líta við honum.
Næsta leikrit Jóhanns, Bóndinn á Hrauni, sem gerist á íslenskum sveitabæ í samtímanum, náði heldur lengra. Það var frumsýnt af Leikfélagi Reykjavíkur á jólum 1908 við vinsamlegar undirtektir gagnrýnenda og áhorfenda (9 sýningar). Indriða Einarssyni fannst hann þar fyrstur leikskálda ná að skrifa samtöl óháð fyrirmynd Sigurðar Péturssonar. Á það ber að líta að leikurinn var fyrst saminn á dönsku, líkt og fyrri verkin tvö, og íslenska gerðin því í raun frjálsleg þýðing á þeirri dönsku. Um skeið virtust góðar horfur á því að Dagmar-leikhúsið, eitt helsta einkaleikhús Kaupmannahafnar, myndi taka verkið til flutnings.
Gerður var samningur við höfundinn, en þegar til kom varð ekkert úr þeim áformum sem olli skáldinu að sjálfsögðu hugarangri og gremju. Gaarden Hraun kom fyrst út á dönsku árið 1912 og var sýndur rúmu ári síðar í Kgl. leikhúsinu við daufar undirtektir (4 sýningar). Þá var Jóhann nýorðinn frægur fyrir Fjalla-Eyvind og slæm mistök að draga fram jafn ófullburða verk og Bóndann á Hrauni beint í kjölfarið á honum.
Fjalla-Eyvindur var frumsýndur hjá L.R. 26. des. 1911 og hálfu ári síðar í Dagmar-leikhúsinu. Jóhann hafði verkið lengi í smíðum og samdi það sýnilega jöfnum höndum á dönsku og íslensku. Velgengni Bóndans á Hrauni hafði fært honum heim sanninn um að verk hans ættu fullt erindi upp á íslenskt svið. Eru bréfaskipti hans við Árna Eiríksson, leikara og formann Leikfélags Reykjavíkur, varðveitt, en Jóhann hafði hönd í bagga með útvegun leiktjalda frá einu helsta leiktjaldaverkstæði Kaupmannahafnar. Sýna bréfaskiptin vel hversu annt Jóhanni var um að leikurinn tækist vel á sviðinu.
Samskipti Jóhanns við dönsk leikhús voru löngum slysaleg. Í nóvember 1910 gerði hann samning við Johannes Nielsen, sem var þá leikhússtjóri við Folketeatret um Fjalla-Eyvind, en þegar leikurinn var fullbúinn vorið 1911 kom af einhverjum sökum hik á Nielsen. Það var ekki fyrr en 20. maí 1912 að Fjalla-Eyvindur var loks frumsýndur í Dagmar-leikhúsinu með norsku stórleikkonunni Johanne Dybwad í aðalhlutverkinu. Var mál manna að stórsigur leiksins hefði ekki síst verið að þakka glæsilegri túlkun hennar á Höllu. Johanne Dybwad hafði þá um árabil verið nánast fastur gestur á leiksviðum Kaupmannahafnar þar sem hún naut mikilla vinsælda. Hið norska tungutak hennar háði henni þó alltaf svolítið, en í Höllu hinni íslensku kom það ekki vitundarögn að sök; jók fremur á trúverðugleik leiksins, ef nokkuð var. Hitt er svo annað mál hvort leikurinn hefur grætt eitthvað sérstaklega á því að leikendur töluðu sitt hvort málið, því að mótleikarar hennar voru auðvitað danskir. Heima í Osló lék Johanne Dybwad Höllu einnig og hafði þá sjálfsagt heppilegri mótleikendur. Nokkrar breytingar urðu á texta Fjalla-Eyvindar frá frumgerð hans, sem var samin bæði á dönsku og íslensku, á meðan leikurinn var í æfingu í Dagmar-leikhúsinu. Frumgerðin kom út á dönsku haustið 1911 og sú íslenska var leikin hjá Leikfélagi Reykjavíkur og birt neðanmáls í blaðinu Lögréttu árið 1912. Í æfingarferlinu í Dagmar-leikhúsinu var textinn styttur talsvert, auk þess sem tvö atriði hans eru með öðrum hætti í lokagerð leiksins sem kom út á dönsku árið 1913. Hinar íslensku útgáfur leiksins fylgdu þó ævinlega frumgerðinni allt þar til hann var gefinn út í endurskoðaðri gerð Jóns Viðars Jónssonar árið 2000, en sú gerð hefur ekki enn komist á svið.
Báðar frumsýningar Fjalla-Eyvindar urðu miklir sigrar og leikurinn var á næstu árum þýddur á mörg tungumál og sýndur víða, um öll Norðurlönd, í Englandi, Rússlandi og Bandaríkjunum. Einkum gerði höfundur sér þó góðar vonir um gengi hans í Þýskalandi, en þýski leiklistar- og bókmenntamarkaðurinn hefur löngum skipt norræna höfunda miklu máli. Fjalla-Eyvindur var sýndur allvíða um Þýskaland næstu ár, þ. á m. í Berlín árið 1915 og var skáldið viðstatt frumsýninguna. Þó að ýmsir þýskir bókmenntamenn skrifuðu vinsamlega um verkið, gekk þýskum leikurum ekki alltaf vel að blása lífi í útilegumennina. Því miður hefur aldrei verið tekið saman neitt heillegt yfirlit yfir hinar þýsku sýningar leiksins eða gengi hans á þýsku málsvæði.
Næsta leikrit Jóhanns, Galdra-Loftur, var frumsýnt hjá L.R. 26. desember1914 og skömmu síðar, 22. janúar 1915, í Dagmar-leikhúsinu. Sýning L.R. varð mikill sigur, en öðru máli gegndi um dönsku frumsýninguna. Upphaflega hafði Kgl. leikhúsið áformað að taka leikinn til sýninga, en þegar skáldinu þótti sýningin dragast úr hömlu tók hann leikinn af því og veitti Dagmar-leikhúsinu sýningarréttinn. Það voru slæm mistök, þó að óþolinmæði Jóhanns sé skiljanleg. Dagmar-leikhúsið réði ekki yfir leikurum á við bestu leikara Kgl. leikhússins og það var samdóma álit gagnrýnenda að aðalleikendurnir hefðu ekki verið vaxnir aðalhlutverkunum. Leikurinn nánast féll sem var Jóhanni að sjálfsögðu mikið áfall. Það var honum að vísu nokkur huggun að leikurinn fékk betri viðtökur í Svíþjóð, einkum í sýningu Allan Rydings Sällskap, farandleikhúsi í Suður-Svíþjóð. Þegar hann var sýndur í sænska þjóðleikhúsinu í Stokkhólmi í febrúar1917 vakti hann hins vegar ekki sérstaka hrifningu. Þrátt fyrir ósigur Galdra-Lofts var Jóhann í miklu áliti sem skáld í dönskum og norrænnum bókmennta- og leikhúsheimi þessara ára. En hann var viðkvæmur maður og tók nærri sér ýmsan ótuktarskap úr Dönum sem sumum þótti nóg um hið mikla gengi hans og samlanda hans, Jónasar Guðlaugssonar, Gunnars Gunnarssonar og Guðmundar Kamban. Hann náði hins vegar góðu sambandi við sænska leikarann og leikstjórann Viktor Sjöström, sem lék Kára í sýningu Borgarleikhússins í Gautaborg á Fjalla-Eyvindi haustið 1912, við frábærar undirtektir og síðar Loft í fyrrnefndri sýningu Allan Rydings Sällskap. Þá gerði Sjöström fræga kvikmynd eftir Fjalla-Eyvindi árið 1917 og var hún sýnd víða um heim við mikla hrifningu. Er myndarinnar einkum minnst fyrir snjallar sviðsetningar í útiatriðum sem voru nýlunda á þeim tíma. En ekki er ofmælt að leikstjórinn hafi hreppt mun meiri frægð fyrir hana en skáldið; t.d. var nafn Jóhanns hvergi nefnt þegar fjallað var um myndina í vandaðri breskri þáttaröð um sögu kvikmyndanna sem íslenska Sjónvarpið sýndi fyrir nokkrum árum.
Síðasta leikrit Jóhanns, Lögneren (Mörður Valgarðsson), sem fjallar um efni úr Njáls sögu, var frumsýnt í Kgl. leikhúsinu 18. febrúar 1917. Verkið sjálft hlaut að mörgu leyti góða dóma, en sýningin þótti ekki takast sem skyldi. Ekki var leikurinn sýndur á Íslandi fyrr en árið 1970 í Þjóðleikhúsinu og fékk sú sýning ekki heldur ýkja loflegar viðtökur. Síðustu tvö æviárin virðist Jóhann að mestu hafa lagt skáldskapinn á hilluna og einbeitt sér að fyrrnefndum áformum um gerð síldarhafnar við Höfðavatn. Listin hafði aldrei fært honum þær tekjur að hann gæti lifað af henni og tilraunir hans til að efnast, ekki síst á uppfinningum, engu skilað. Ugglaust spillti heimsstyrjöldin gengi verka hans erlendis, þó að hæpið kunni að vera að gera of mikið úr því. Jóhann hafði lengi verið alldrykkfelldur og dró ekki úr því þegar á leið og hagur hans fór versnandi. Síðasta árið sem hann lifði átti hann við mikinn heilsubrest að stríða og í ágústlok 1918 lést hann aðeins þrjátíu og níu ára gamall. Dánarorsök hans mun hafa verið meinsemd við hjarta sem stafaði af gamalli sárasóttarsýkingu.
Jóhann Sigurjónsson og verk hans gleymdust ekki strax í Danmörku. Maðurinn sjálfur varð hugstæður öllum sem kynntust honum og minning Fjalla-Eyvindar var böðuð ljóma. Þegar Dagmar-leikhúsið hélt upp á fimmtíu ára afmæli sitt árið 1933 varð Fjalla-Eyvindur fyrir valinu sem hátíðarsýning og sýnir það vel, hversu Dönum var leikurinn hugstæður. Sýningin tókst hins vegar ekki vel frekar en sýning Kgl. leikhússins á Galdra-Lofti árið áður. Áform voru uppi um að gefa út heildarsafn verka Jóhanns á dönsku um þetta leyti og gekk Gunnar Hansen leikstjóri frá handriti að henni. En ekkert varð af þeirri útgáfu þegar til kastanna kom. Á hinn bóginn nýttist vinna Gunnars við undirbúning á fyrstu heildarútgáfu verka Jóhanns á íslensku á vegum Máls og menningar 1940-42.
Jóhann Sigurjónsson var skrifborðshöfundur, samdi leikrit sín að mestu utan leikhússins. Hann hafði aldrei unnið neitt við leikhús þegar hann afréð að helga sig leikskáldskapnum og kynntist starfsháttum þess einungis í gegnum uppsetningar á eigin verkum. Þær breytingar, sem hann gerði á texta Fjalla-Eyvindar sýna þó glöggt ásamt fleiru að hann var fús að hlusta á og taka til greina breytingartillögur frá reyndum leikstjórum og leikurum. Því hefur verið getið til að hann hafi ekki stundað leikhús mikið í Kaupmannahöfn, en það er vafasöm skoðun, þó að Jóhann nefni ekki oft einstakar sýningar í bréfum sínum eða hafi oft tjáð sig um leikhúsið opinberlega. Þess eru þó dæmi, t.d. skrifaði hann lofgrein um einn fremsta leikara Dana, Olaf Poulsen, þegar hann kvaddi sviðið 1916.
Jóhann var alla tíð heillaður af leiklistinni, en í skiptum sínum við leikhúsið var hann of oft ýmist óheppinn eða óvarkár. Eftir sigur Fjalla-Eyvindar varð saga verka hans í leikhúsinu með örfáum undantekningum saga vonbrigða og hrakfalla - um hans daga. En Jóhann var mikið skáld að upplagi og persónur eins og Halla og Kári, Galdra-Loftur og Steinunn, hafa fylgt íslensku leikhúsi á vegferð þess frá áhugamennskunni yfir í metnaðarfulla atvinnuleikhús samtímans.
Heim.: Jón Viðar Jónsson, "Fjalla-Eyvindur frá frumdrögum til lokagerðar" í Jóhann Sigurjónsson, Fjalla-Eyvindur (Reykjavík 2000), og s.h., Kaktusblómið og nóttin - Um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar (Akureyri 2004), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist II (Reykjavík 1996), Helge Toldberg, Jóhann Sigurjónsson (Kaupmannahöfn 1965; Reykjavík 1966)